18.11.1943
Sameinað þing: 32. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í D-deild Alþingistíðinda. (3444)

137. mál, söltun og niðursuða síldar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þessi þáltill. gengur aðallega út á það að kjósa n. til þess að rannsaka þessi mál. Hv. þm. Ísaf. hefur nú lýst þeirri hlið málsins, sem snýr að síldarsölunni. En ég vil dálítið lýsa þeirri hlið málsins, sem snýr að niðursuðuiðnaðinum, þar sem ég hef þar kunnugleika á málum.

Hér á Íslandi eru nú nokkrar niðursuðuverksmiðjur, að vísu ekki margar eða stórar, en þó það margar og það stórar, að þær hafa ekki neitt verkefni, vegna þess að það er útilokað að selja vöruna, sem þær frá sjónarmiði tækni gætu framleitt, til útlanda með því verði, sem þarf að fá til þess að láta verksmiðjurnar bera sig. Og mér virðist þurfa að athuga þetta atriði, áður en farið er að kaupa vélar í verksmiðjur, sem á að reka á sama grundvelli og þær verksmiðjur, sem nú standa tómar af þessum ástæðum, sem ég hef greint. Ég vil m. a. benda á, að niðursuðuverksmiðjurnar hér í Reykjavík gætu soðið niður um 20 þús. dósir á dag af síld, en liggja nú að heita má niðri og hafa ekkert að starfa, vegna þess að kaupið hér heima er svo miklu hærra en framleiðslan getur borið. Ég vil einnig benda á það, að árið 1940 voru verksmiðjurnar hér búnar að fá ágæta aðstöðu til þess að sjóða niður síld og hrogn o. fl., og England vildi kaupa allan þann fisk, sem við gátum selt, fyrir 35 shillinga kassann, en það er ekki nema helmingur þess, sem það kostar að framleiða þetta. Þessar verksmiðjur hafa orðið að loka, vegna þess að það er ekki hægt að selja þessum hungruðu þjóðum fiskinn, af því að framleiðslukostnaður á Íslandi er svo hár sem raun ber vitni um. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram undir þessum umr. Ég vil einnig benda á það, að hér á landi eru nokkrar verksmiðjur, sem búa til blikkdósir, en þær hafa orðið að draga saman framleiðslu sína — eins og niðursuðuverksmiðjurnar. Hins vegar er enginn skaði skeður, þótt málið sé athugað.

Hitt er annað atriði, til hvaða n. málið eigi að fara, og virðist mér, að það verði annaðhvort að skipa í það sérstaka n. eða setja það í mþn., sem fer með skyld mál. Ég skil ekki uppástungu frsm. um að vísa því til utanrmn., en það á kannske að vera nýmæli, sem byggt er á líkum grundvelli og sjálf till.