04.10.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í D-deild Alþingistíðinda. (3463)

41. mál, nýbýlamyndun

Bjarni Ásgeirsson. Herra forseti. Í þeim umr., sem fram fóru síðast um þetta mál, þá var þeirri fyrirspurn beint til mín — eða ég tók hana a. m. k. til mín —, hvað liði þál. þeirri, sem Alþ. samþ. s. l. vetur, um ráðstafanir til eflingar íslenzkum landbúnaði. Þessari fyrirspurn tel ég mér skylt að svara fyrir hönd Búnaðarfélags Íslands. Það er skemmst af því að segja, að hæstv. ríkisstjórn sendi þessa þáltill. til Búnaðarfélags Íslands, en það vísaði henni aftur til mþn., sem síðasta búnaðarþing kaus til þess að athuga ýmis landbúnaðarmál. Nefnd þessi hóf störf á s. l. vori, þ. e. a. s. hún undirbjó starfsemi sína að ýmsu leyti og fékk sér til aðstoðar menn, sem heppilegt þótti að leita til. Ég geri svo ráð fyrir, að þessi mþn. taki til starfa í vetur og vinni þá að þessari þál., sem spurt var um svo og öðrum þeim málum, sem henni voru falin af hálfu búnaðarþings. Mér þykir rétt að lesa hér upp þál. búnaðarþings um verkefni þessarar mþn., en hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing ályktar að kjósa fimm manna mþn., sem sé skipuð stjórnarnefndarmönnum Búnaðarfélags Íslands og tveimur búnaðarþingsfulltrúum, og vinni nefndin að rannsókn á framleiðslu landbúnaðarins og markaðsskilyrðum fyrir landbúnaðarafurðir. Sé í því sambandi athugað, hverjar framleiðslugreinir sé nauðsynlegast að efla og hvort hagkvæmt væri að draga saman aðrar einstakar greinir, svo að framleiðsla landbúnaðarins verði sem bezt samræmd neyzluþörf þjóðarinnar og erlendum markaðsskilyrðum“. Í öðru lagi er það svo þessi umrædda þál. frá Alþ. Hún er í fjórum liðum og tekur yfir ýmislegt, sem ekki er tekið fram í þál. búnaðarþings. Það er því mikið rannsóknarefni, sem liggur fyrir þessari mþn., og ég geri ekki ráð fyrir, að hún geti skilað áliti fyrr en snemma á árinu 1945, en það er ætlunin, að hún geti þá lagt athuganir sínar fyrir búnaðarþing.

þáltill., sem hér liggur fyrir, grípur að nokkru leyti inn á þetta sama, en er þó nokkuð frábrugðin. Ég tel rétt, að þegar nýbýlastjórn hefur lokið störfum þeim, sem henni eru falin samkvæmt þessari þáltill., þá verði henni fyrirskipað að leggja till. sínar fyrir Búnaðarfélag Íslands og ríkisstjórnina, því að það getur fallið inn í það, sem þegar hefur verið rannsakað. Ég taldi rétt að skýra frá þessu, en fyrst ég er nú staðinn upp, þá vil ég ræða þetta nánar í sambandi við þær umr., sem hér fóru fram á síðasta fundi. Það er að vísu óhugnanlegt að ræða við hv. 2. landsk. þm. um landbúnaðarmál, eins og hann hagar sér venjulega, þegar þau eru á dagskrá. Það má vera, að þessi hv. þm. sjái alltaf rautt, en þegar landbúnaðarmál eru rædd, þá sér hann ekkert nem rautt og rótast um eins og naut í flagi. Ég er nú búinn að gleyma ýmsum þeim firrum, sem hann var hér með á síðasta fundi, en það var þó eitt, sem ég vildi minnast á. Hann var að harma það, að þegar síldartorfurnar lægju eins og krap ofan á sjónum alveg uppi í landsteinum, þá skyldu menn vera að leggja sig niður við það „að púla upp á kúgras“, eins og sagt er, í staðinn fyrir að stunda sjóinn til þess að ausa þessum miklu auðæfum upp. Það er nú svo, að þessi auðæfi, sem eru í sjónum, eru miklu meiri en öll önnur auðæfi okkar hér, og þar er gróðinn fljótteknari en annars staðar. Það hafa fleiri en hann tekið eftir þessu, meira að segja framsóknarmenn líka. Já, meira að segja, þegar hann var ungur og var að lesa fræði Lúters hin minni, þá voru það þm. Framsfl., sem lögðu grundvöllinn að síldarvinnslu hérlendis, og það var sú löggjöf, sem þeir þá settu, sem varð grundvöllurinn að því, að ausið er upp úr hafinu þeim auðæfum, sem þar eru, en eru lögð á land, þegar vel veiðist. Það, sem þá var gert, var grundvallandi fyrir þann iðnað, sem nú er rekinn á Siglufirði og víðar um landið, og það var fyrir atbeina Framsfl., að kyndarar á Siglufirði og aðrir njóta nú góðrar sumaratvinnu við síldariðnaðinn. Og það er líka alveg hárrétt stefna að halda áfram að nota sér þessi auðæfi. En því má ekki heldur gleyma, að síldin hefur það til að vera ekki eins og krap á yfirborðinu, hún hefur það til að láta ekki sjá sig nema dag og dag og það kannske heilt sumar. Það er vitað, að sumir þeir, sem hafa lagt fé og fyrirhöfn í það að handsama síldina, hafa tapað á því stórfé og hafa jafnvel aldrei beðið þess bætur. Það hefur komið fyrir, að fólk, sem hefur farið í síldarstöðvarnar á sumrin, hefur beðið eftir síldinni allt sumarið og fram á haust og hefur þá orðið að fara burtu allslaust eða ennþá verr á sig komið, og það hefur komið fyrir, að ríkið hefur orðið að senda eftir því og kosta flutning þess burtu. Það er til gamall málsháttur, sem segir: „Svipull er sjávarafli“, enda vill oft verða svo í reyndinni. Það er því vissara fyrir þessa þjóð að hafa fleiri fætur til þess að standa á, ef hún vill sjá hag sínum borgið, og það er það, sem hefur verið gert. Þjóðin hefur reynt að nota sér jöfnum höndum þau gæði, sem moldin og sjórinn hafa að bjóða. Því að það er svo um þetta blessað land, að það hefur bjargað því lengst af, að áföllin komu yfirleitt ekki alltaf jafnt bæði sjávar- og landsmegin. Þegar afli hefur brugðizt til sjávar, hefur oft árað vel til lands, sem hefur þá verið til bjargar á þeim tíma. Eins er það, þegar árferði hefur verið illt til lands, þá hefur oft staðið svo á, að vel hefur árað til sjávar, sem hefur þá bjargað frá dauða og hörmungum í það skiptið. Þannig mun það því ávallt verða að atvinnuvegir þjóðarinnar verða að styðja hver annan, og það þarf að haldast í hendur með allt það, sem gert er til góða í báðum þessum atvinnugreinum. Þess vegna má maður ekki láta vaxa sér svo í augum þessar síldartorfur, sem vaða kringum landið, að maður komi ekki auga á það, sem þarf að hugsa um og hirða. Það er því alls ekki rétt hjá þm., að það hafi verið til ógæfu fyrir þessa þjóð, að hún hefur trúað á moldina. Það er einmitt gæfa hennar, að hún hefur haldið trúnaði við moldina. En þessi kenning þm. um það að fyrirlíta landið, vegna hinna miklu aflagæða, er alls ekki ný. Hrafna-Flóki mun hafa litið á þetta sömu augum og hv. 2. landsk. Honum uxu svo í augum hinar miklu fiskitorfur úti fyrir ströndum landsins fyrra sumarið, sem hann var hér, að hann lagði sig allan fram við að stunda sjóinn, en hirti ekkert um að heyja handa fénaði sínum, með þeim afleiðingum, að stofn hans stráféll. Hrafnaflóki varð ekki heldur langlífur á þessu landi, því að hann hafði hugann allan við hinar fögru síldartorfur. Ef þjóðin ætlar sér að feta í hans fótspor, eins og hv. 2. landsk., þá verður þjóðin ekki langlíf í þessu landi, og verða þá aðrir að taka við af þeim, sem þannig haga sér. Ég skal viðurkenna, að auður sjávarins er fljótteknari en auður landsins eða moldarinnar. En við Íslendingar ráðum ekki nema að takmörkuðu leyti yfir sjónum; hann er að nokkru leyti almenningseign, og á hann er gengið af svo að segja öllum þjóðum heims á venjulegum tímum, og höfum við þegar orðið varir við, að beztu fiskimið okkar eru á ýmsum sviðum að ganga til þurrðar. Hins vegar eigum við sjálfir landið, sem við búum í, og vitum, að um leið og við notfærum okkur mold lands vors, mun hún heldur auðgast en rýrna. Við vitum, að það eina, sem við ráðum yfir, er það, sem í landinu er, en ráðum ekki nema að nokkru leyti yfir því, sem í sjónum býr. Þess vegna verðum við að notfæra okkur moldina af fremsta megni, og það er skylda okkar að muna ávallt eftir landinu og möguleikum þess og jafnvel að leggja eitthvað af þessum auði hafsins í moldina sjálfa, sem er okkar einasta fasteign, þótt hún gefi ef til vill minni stundararð heldur en sjórinn. Gæfa okkar í framtíðinni mun því velta á því, hvernig við förum með þessa okkar dýrmætustu fasteign.

Mér fannst ástæða til þess að minnast á þetta sérstaklega, í sambandi við þau orð, sem hv. 2. landsk. lét hér falla um landbúnaðinn í sambandi við sjávarauðinn. Hins vegar mun ég ekki fara nánar út í ýmislegt, sem hann minntist á, en væri ef til vill ástæða til að ræða nánar.

Ég vil svo fara nokkrum orðum um ræðu hv. 7. þm. Reykv. Hann talaði um, að farið skyldi með gætni að fjölga býlum landsins, vegna þess að ekki væri sýnt, að markaður fyrir íslenzkar landbúnaðarafurðir sé svo rúmur, að hyggilegt væri að auka mjög mikið við framleiðsluna frá því, sem nú væri. Ég er þm. að ýmsu leyti sammála um þetta atriði. Um leið og við skipuleggjum landbúnaðarstarfsemi okkar, þurfum við að rannsaka, hvaða markaðsskilyrði eru fyrir hendi um landbúnaðarafurðir. Búnaðarþingið hefur einmitt athugað þetta mál, og tel ég sjálfsagt, að rannsókn verði hafin á því, hvort íslenzkur landbúnaður, með bættum vinnuaðferðum, hafi skilyrði til þess að flytja afurðir sínar á erlendan markað; sömuleiðis skal athuga, hverjar þessar framleiðslugreinar eru. Ég fyrir mitt leyti hef þá trú frekar en vissu, að ef okkur tekst að framleiða landbúnaðarafurðir okkar á þann hagkvæmasta hátt, sem unnt er og með beztu vélum, sem þekkjast og við getum komið við, þá geti þessar afurðir okkar orðið samkeppnisfærar fyrir erlendan markað. Eitt atriði þarf að rannsaka allnákvæmlega, ef komizt verður að þeirri niðurstöðu, að ekki verði hægt að framleiða landbúnaðarafurðir okkar, svo að þær verði samkeppnisfærar eða til frambúðar. Ég álít þá, að við ættum að hverfa frá framleiðslu fyrir erlendan markað, en ættum þá að athuga innlenda markaðinn, hvað snertir hve ódýrar vörur við getum framleitt, og hvort það borgi sig betur en að flytja þær inn. Landbúnaðurinn verður að gera þær kröfur til sjálfs sín, að framleiðsluvörur hans verði fullkomlega samkeppnisfærar við innfluttar vörur. Þarf þá að fara fram nákvæm rannsókn á því, hvernig þetta mætti takast. Við verðum að taka þessi mál frá rótum og skipa þeim þannig, að vel megi við una að rannsókn lokinni. Ég fyrir mitt leyti trúi því, að takast megi að skipuleggja íslenzka landbúnaðarframleiðslu þannig, að hún geti orðið eftir sem áður annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar. Ég mun því greiða atkvæði með þessari till. til þál., en vil hins vegar bera fram brtt. þess efnis, að skýrslur þær, sem nýbýlastjórn er falið að gera í frv., verði afhentar Búnaðarfélagi Íslands.