16.12.1943
Sameinað þing: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (3470)

41. mál, nýbýlamyndun

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að deila um þetta mál. Okkur ber ekki á milli um tilganginn, en ég tel mótbárur hv. þm. V.-Sk. gegn ræðu minni ekki veigamiklar né gefa ástæðu til, að hans afgreiðsla sé frekar höfð á málinu. Í fyrsta lagi er það ekki alveg rétt, er hann sagði, að ég teldi ekki þörf á rannsókn. Það, sem ég set fram í nál. mínu og sagði, var aðeins það, að ég teldi ekki þörf á að samþ. till. á þskj. 51, þar eð rannsókn sú, er hún fjallar um, hefði verið tryggð áður af þinginu. Þá var hann að telja upp, hvað sameiginlegt væri með tillögunum, og taldi það vera lítið, aðeins helming af fyrsta lið till. frá 9. febr., um rannsókn á skilyrðum fyrir byggðahverfum. Ég minntist á þetta atriði áðan, en tel það ekki rétt mat hjá hv. þm. að skipta rannsóknarþörfinni til helminga milli býlahverfa og einstakra býla. Bæði er það, að vegna framtíðar landbúnaðarins tel ég mikilvægara, að nýbýlin séu í hverfum, og hitt er það, að ég tel auðveldara að stofna einstök býli án undangenginnar rannsóknar. Venjulega er það svo, að þau koma upp þar, sem byggðar jarðir hafa verið fyrir, svo að rannsókn þessari er ekki saman jafnandi.

Þá talaði hv. þm. um, að í till. frá 9. febr. væru engin fyrirmæli um að rannsaka eignar- og umráðarétt þeirra landa, er heppileg þættu til nýbyggðar. Ég tók fram áðan, að þetta væri að vísu ekki beint tekið fram, en hlyti að vera skilyrði fyrir framkvæmd 4. liðs till., ef í lagi ætti að verða. Ég held því enn, að það sé rétt, því að Búnaðarfélag Íslands getur ekki framkvæmt þál. frá 9. febr., nema það hafi áður gert þessa rannsókn. En sé rannsóknin fengin öðrum í hendur, eru það óbein tilmæli um, að ekkert sé gert. En í höndum B. Í. ætti annars að vera nægilega vel fyrir rannsókn séð, enda felur það hana n. þeirri, sem það hefur sett í málið. Þá telur hv. þm. V.-Sk. nauðsyn, að niðurstöður rannsóknarinnar séu lagðar fyrir Búnaðarfélag Íslands. Þetta á að samþ., eftir að búið er að samþ. að fela B. Í. sjálft verkið. Þessi vinnubrögð og röksemdirnar fyrir þeim eru gott dæmi um, hve lítið vottar fyrir sannri þörf og sönnum röksemdum, er styðji hina nýju till. Þetta sýnir, hve flm. finna glöggt til þess, að hverfandi ástæður eru til að samþ. hana.