22.11.1943
Neðri deild: 51. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (3510)

156. mál, rannsóknarnefnd vegna eyðileggingar á kjöti og öðrum neyzluvörum

Flm. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti: Þetta er mál, sem mikið hefur verið rætt um, þó að það hafi ekki verið rætt hér í sölum Alþingis, og fjallar það um eyðileggingu á kjöti. Umræður um það hófust út af því, að komizt hefur upp um, að einhverjir aðilar, sem hafa kjötsölu með höndum hér í Reykjavík, hafa flutt allmiklar birgðir af kjöti suður í Hafnarfjarðarhraun og urðað þar. Enn fremur hefur fundizt kjöt á tveim öðrum stöðum, og greinir menn á um, hverjir hafi verið eigendur að því. Það hefur nú komið í ljós, að Samband íslenzkra samvinnufélaga hefur reynzt vera eigandinn að þessari „vörugeymslu“ suður í Hafnarfjarðarhrauni, en um það eru menn ekki á einu máli, hvort kjöt í henni hefur verið óætt eða hvort það hefur eyðilagzt af markaðsástæðum, og enn fremur er því haldið fram, að menn í Hafnarfirði, sem neytt hafi þessa kjöts, hafi gengið úr skugga um, að þar hefur ekki verið um skemmt kjöt að ræða. En ef um skemmt kjöt er að ræða, og eru það um 20 tonn, sem auglýst er, að verið hafi á þessum stað, hvernig stendur þá á því, að 20 tonn af saltkjöti eyðileggjast eða skemmast? Það lítur út fyrir, að þarna hafi verið óforsvaranlega með farið, og er það eitt út af fyrir sig, jafnvel þó að það reyndist rétt, að kjötið hafi verið skemmt, næg ástæða til að rannsaka það, því að ýmislegt bendir til, að meðferðin á kjötinu hafi verið með öðru móti en vera ber. Enn fremur er það óupplýst enn þá, hvort á þetta kjöt hafa verið greiddar uppbætur úr ríkissjóði og hvort aðilar þeir, sem verkuðu kjötið, fengu fulla greiðslu úr ríkissjóði, svo sem um útflutt kjöt væri að ræða, og að það kjöt sé því þannig almenningseign. Þetta er mál, Sem þarf að rannsaka sérstaklega. Ég vil í sambandi við þetta saltkjöt fá að vita, hve mikið kjöt var saltað hér á s. l. hausti, en það hefur verið upplýst, að það hafi verið svo mikið, að sjáanlegt hafi verið, að ganga mundi mjög illa að selja það hér á innlendum markaði. Stjórnendur kjötsölunnar hér í Reykjavík gerðu hins vegar mjög lítið til þess að auka sölu á þessu kjöti, nema hvað þeir munu hafa lækkað verðið á því, eftir að það var farið að skemmast, samkvæmt skýrslum, sem fyrir liggja. En í fyrra vetur kom upp ósamkomulag milli kjötverzlana og þeirra, sem hafa með höndum sölu saltkjöts fyrir bændur úti um land, með þeim afleiðingum, að saltkjöt var lítt fáanlegt hér s. l. vetur. Mun þetta hafa stafað af því, að Samband íslenzkra samvinnufélaga ákvað, hve mikið kaupmenn máttu leggja á hvert kg. Mér er ekki kunnugt um, hvort þetta hafi verið ósanngjörn fyrirskipun, hvort þessi fyrirskipaða álagning var of lág eða kaupmenn hafi gert hærri kröfur, en þetta leiddi samt til þess, eins og áður er frá sagt, að saltkjöt var lítt fáanlegt í kjötverzlunum í Reykjavík í fyrravetur. Þetta er því vissulega atriði, sem þarf að rannsaka, því að hafi Samband íslenzkra samvinnufélaga leikið sér að því að stöðva sölu á saltkjöti, er full ástæða til þess, að Alþ. geri ráðstafanir til þess að hindra slíkt.

Það virðist ýmislegt benda til þess, að mikils kæruleysis hafi gætt, þar sem svo mikið magn af kjöti er látið eyðileggjast, og hlýtur það að leiða af skipulagi kjötsölunnar. Þessu er þannig háttað, að kjötverðlagsnefnd hefur í raun og veru í hendi sér að jafna öllum skakkaföllum, eins og hér um ræðir, niður á allar kjötbirgðir, eða að hægt er að framkvæma eyðileggingu á slíkum vörum af markaðsástæðum. Löggjöfin er þannig útbúin, að bændur geta haft hag af því, ef þeim sýnist svo, að eyðileggja kjöt af markaðsástæðum. Mér finnst því full ástæða til að taka málið til sérstakrar athugunar á þeim grundvelli, að útilokað verði, að hægt sé að framkvæma eyðileggingu á birgðum af markaðsástæðum til þess að rýma fyrir nýjum vörum, en skipulag kjötsölunnar er á þennan hátt, eins og nú standa sakir. Mér finnst þetta vera mikilsvert atriði, þótt ýmsir þeirra, sem kjötsöluna annast fyrir bændur, telji það sjálfsagðan hlut, að matvæli skemmist. En þegar maður athugar, að þetta á sér stað á sama tíma og aðrar þjóðir eru aðframkomnar af hungri og enska þjóðin lifir við mjög rýran kjötskammt, er enginn vafi á því, að æskilegra hefði verið fyrir íslenzku þjóðina að selja þetta kjöt til Englands fyrir mjög lágt verð eða jafnvel gefa það þangað en láta það spyrjast um okkur nú á þessum tímum —, að við séum að kasta matvælum, svo að tugum tonna skipti. Ég býst við því, að enginn þm. hefði séð eftir því að leggja fram fé í því skyni að þetta kjöt kæmist til þeirra, sem þörf hafa fyrir það, en að láta það sæta þeirri meðferð, sem raun hefur orðið á. Ég tel þess vegna, að sú n., sem till. leggur til, að skipuð verði, þurfi að hafa það verkefni með höndum að rannsaka öll atriði í sambandi við framkvæmd kjötsölumálanna og gangi úr skugga um, hvort það sé ekki rétt, sem margan grunar, að það, sem aflaga fer, sé í raun og veru skipulaginu sjálfu að kenna, því að það gefi beinlínis tækifæri til þess að eyðileggja birgðir.

Því hefur verið haldið fram, að önnur matvæli hafi verið eyðilögð, fiskur og annað sjávarmeti, og það sé því ofsókn á hendur bændum, að verið sé að gera veður út af þessu kjöti. Ég tel, að ekki sé síður þörf á þessari rannsókn, ef fiskmeti og önnur matvæli hafa verið eyðilögð, og er síður en svo, að ég vilji breiða yfir slíkt. Það er jafnskammarlegt fyrir þjóð okkar, ef þetta hefur verið gert viljandi, því að í raun og veru er þetta viljandi, þó að þessu kjöti hafi ekki verið kastað, fyrr en það var orðið skemmt. Þess vegna tel ég rétt, að þessari n. verði gefið tækifæri til þess að rannsaka þetta mál, eftir því sem hún álítur þörf á.

Í till. er gert ráð fyrir því, að þessi rannsóknarn. skuli hafa vald samkv. 34. gr. stjskr. til þess að heimta skýrslur, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum, og að hún geti ráðið sérfræðinga sér til aðstoðar. Mér finnst þetta mál hafi svo mikið verið rætt, að óþarfi sé að vísa því til n., því að málið er það einfalt. Hér er aðeins um það að ræða, hvort hv. þm. óska eftir, að rannsókn fari fram eða eigi út af ákveðnum atvikum, sem áttu sér stað í Hafnarfjarðarhrauni, og ættu hv. þm. að hafa myndað sér glögga skoðun um þetta mál fyrir löngu. Ég verð þó að segja það, að væri allt hreint hjá þeim aðilum, sem annast kjötsöluna, mundi slík rannsóknarn. verða til þess að hreinsa af þeim þann orðróm, sem um þá hefur gengið, og blaðaskrifin gefa einnig alveg sérstakt tilefni til þess. Ég álít, að flestir ættu að geta verið sammála um það, að rannsókn verði látin fara fram, svo að útilokað verði, að lagafyrirmæli verði misnotuð til þess að framkvæma eyðileggingu á matvælum, svo að hægt verði að rýma fyrir nýjum birgðum.

Samband íslenzkra samvinnufélaga hefur nú farið fram á sérstaka rannsókn í þessu máli, og virðist sú rannsókn vera mjög einkennileg, því að hún virðist eingöngu beinast gegn þeim mönnum, sem fundu þetta kjöt og skýrðu almenningi frá því, að þarna hefðu verið urðuð um 20 tonn af kjöti, en það var gert í skjóli náttmyrkursins, ef hægt yrði að komast þannig hjá því, að almenningur fengi að vita um þennan verknað. Rannsókn SÍS er því beint gegn þessum mönnum, sem herra Jón Árnason framkvæmdastjóri telur hafa gerzt svo freka, að þeir hafi farið inn í „kjötgeymslu“ SÍS og haft á brott með sér kjöt úr hrauninu. Hitt er auðvitað annað mál, að því er ekki bót mælandi að taka upp kjöt, sem urðað hefur verið, og neyta þess. En þessari rannsókn, sem SÍS fer fram á, er ekki ætlað að athuga þau atriði, sem eru höfuðatriðin í þessari till., sem hér liggur fyrir, en þau hafa verið rakin hér áður. SÍS óskar ekki eftir slíkri rannsókn, en þjóðin óskar eftir henni, og Alþ. verður að gera sitt til og jafnvel breyta l., svo að ekki verði hægt að framkvæma slík óhæfuverk, sem nú hafa verið unnin, og það á þeim tímum, sem nú ganga yfir heiminn. Þannig horfir málið við frá sjónarmiði almennings. Það er búið að eyðileggja þetta kjöt, þeim verðmætum, sem þar hefur verið kastað, verður ekki bjargað. Aðalatriðið er svo að koma í veg fyrir, að slíkt geti komið fyrir aftur.

Ég sé því ekki ástæðu til, að þessari till. verði vísað til n., og óska því, að hún verði afgreidd hér á Alþ. sem fyrst.