13.12.1943
Neðri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í D-deild Alþingistíðinda. (3526)

156. mál, rannsóknarnefnd vegna eyðileggingar á kjöti og öðrum neyzluvörum

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Ég er ekki vanur að halda langar ræður, og ég mun ekki heldur gera það í þetta sinn, en ég finn mig þó knúðan til að segja nokkur orð, þar eð sveigt hefur verið að mér oftar en einu sinni í þessum umr.

Ég man eftir því, að í fyrravetur var skrifað um það hér í blöðum, að skemmdar matvörur væru til sölu í búðum, og var ekki framar að gert í það sinn. En svo skeður það í vetur, að skemmt kjöt finnst í Hafnarfjarðarhrauni, og er það nú í rannsókn, hvernig á þessu kjöti stendur. Eftir að þetta kjöt finnst, eru daglega langar greinar um þetta í blöðum bæjarins. Var þetta rætt á ýmsa lund, m. a. var talið, að Hafnfirðingar hefðu tekið af því og soðið, og átti það að vera hinn bezti matur. SÍS hefur gengizt við því að hafa flutt þetta kjöt í hraunið, og skal nú nánar greint frá, hvernig á því stendur.

Það er kunnugt, að frá Austfjörðum var flutt hingað kjöt, sem átti að senda til Englands. En þegar til kom, þótti réttara að láta rannsaka kjötið, með því að talið var, að það mundi vera skemmt, og var ég kvaddur til þeirrar skoðunar vegna starfs míns, en skoðunin var framkvæmd í garnastöðinni, sem er í alla staði ákjósanleg til slíkra hluta. Ég fór nokkrum sinnum til að skoða þetta, og kom strax í ljós, að kjötið var skemmt, ýmist úldið, þrátt eða súrt, en það eru allt algengar skemmdir í kjöti, og fer ég ekki nánar út í að greina þær skemmdir eða einkenni þeirra hverrar um sig.

Ég tók mér það dómaravald að segja kjötið óhæft til manneldis, a. m. k. til útflutnings. Þó höfðum við von um að geta valið nokkuð úr því til útflutnings, og urðu það alls 300 tunnur. En afgangurinn var seldur hér innan lands við hóflegu verði, og það, sem seldist ekki þannig, mun vera það, sem fannst í Hafnarfjarðarhrauni.

Ég fullyrði, að kjötið var ekki hæft til manneldis, eins og það var, þótt ég verji ekki, að það var flutt í hraunið. Erlendis er slíku eytt á annan hátt með þar til gerðum áhöldum. Sömuleiðis er hægt að vinna ýmislegt úr skemmdu kjöti, en hér eru ekki til þau tæki, sem til þess eru notuð, og þá er varla um annað að ræða en henda því í sjóinn eða grafa það.

Eins og ég sagði fyrr, urðu blöðin þegar full af dylgjum, er þetta fannst. Var jafnvel haldið fram, að því hefði verið hent til þess að rýma markaðinn, áður en nýja kjötið kæmi. Þetta kemur mér að vísu ekki við, en það, sem okkur þm. varðar um, er það, að tveir af okkur hafa gerzt til þess að flytja slíkt mál sem þetta og neyta til þess bæði listar anda og orðs. Þeir lýsa með fögrum orðum, hversu bændur vinni „hörðum höndum“, og loks komast þeir að þeirri „conclusion“, að vissar stofnanir hafi tekið sér það fyrir hendur að eyðileggja framleiðsluvöru bænda. Með leyfi forseta vil ég lesa hér upp úr grg.: „Bændur hljóta að krefjast þess að fá það rannsakað og útskýrt, hvort kjötbirgðir þær, sem í skjóli myrkurs hafa verið dysjaðar í hrauninu eða kastað í sjó í nágrenni Reykjavíkur, 1) hafi að einhverju leyti verið skemmd vara, 2) hvers vegna kjötið hafi skemmzt eða hvort það hafi verið skemmt af mannavöldum af ásettu ráði og 3) hver beri ábyrgðina á því, að kjötið var skemmt eða látið skemmast og kastað. Ber nauðsyn til þess að fá úr því skorið, hvort það er fyrirsláttur einn, að kjötið hafi verið skemmt, og að hve miklu leyti þeir menn hafa rétt fyrir sér, sem tóku af því sýnishorn úr dyngjunum og þóttust sannprófa, að það væri hæft til manneldis“. — Og loks enda þeir þetta með því, að það hljóti að vekja grunsemdir, að dýralæknir hafi verið kvaddur til þess að gefa vottorð um skemmd vörunnar, í stað þess að kveðja til þess matvælaeftirlit ríkisins.

Ég er undrandi yfir því, að þessum mönnum, en annar þeirra er gamall nemandi minn, skuli ekki vera kunnugt um, að ég hef annazt kjötskoðun í 34 ár ásamt dýralæknisstörfum. En það er verkefni dýralækna, hvar sem er í veröldinni, að dæma kjöt og segja um, hvort það sé nothæft. Þetta er höfuðverkefni okkar, og er slíkt sem þetta ekkert annað en sleggjudómur, er fær ekki við neitt staðizt.

Annars er það ekkert nýtt, að kjöt skemmist, og er það eðlilegt með okkar verkunaraðferðum. Þessu til skýringar og sönnunar skal ég gefa hér litla skýrslu um skemmdir á kjöti á undanförnum árum:

Árið

1930

skemmdust

270

tn.

af

kjöti.

1931

487

-

1933

125

-

1936

180

-

1939

50

-

Þessar tölur benda til þess, að það, sem hér hefur skeð, er ekkert einsdæmi. Ég vil taka fram, að ég er strangur í dómum um kjöt, því að kjöteitrun er ein hin verzta og lífshættulegasta skemmd í matvælum. — En til sönnunar því, að hér hafi verið um skemmt kjöt að ræða, vil ég lesa hér upp skeyti, sem nýlega hefur borizt um það kjöt, sem valið var úr og flutt út:

„Tunnur með pækluðu kindakjöti og lambakjöti með „s/s Rother“. Bráðabirgðarannsókn sýnir 50% úldið og ekkert hæft sem skipakostur: Fullkomin skýrsla síðar“.

Það var ágætt að fá einmitt þessa lýsingu, því að skipakostur hefur ekki einatt þótt góður kostur. Nei, ég held, að flm. þessarar till. græði aldrei á slíkum málaflutningi.

Pólitísku hliðina vil ég lítt dæma. Það er verið að koma hér af stað æsingamáli, og er jafnvel gripið til ósanninda, þar sem sagt er, að dýralæknir hafi gefið vottorð um, að kjötið væri ónýtt. Vottorð hef ég ekki gefið, enda ekki krafizt, en ég felldi þann úrskurð, er álits míns var leitað, sem mér bar að gera vegna starfa míns.