13.12.1943
Neðri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (3527)

156. mál, rannsóknarnefnd vegna eyðileggingar á kjöti og öðrum neyzluvörum

Flm. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Ég verð að segja, að ég er dálítið undrandi yfir þeim ofsa, sem gripið hefur menn út af þessari till., sem ég hef flutt. Ég var það barnalegur, að ég hugði, að þm. hefðu ekki á móti því, að rannsókn færi fram, ef allt væri hreint í þessu máli. Ég vil taka það fram, að það var ekki ætlunin að gera þetta að pólitísku æsingamáli. En almenningur hefur gert það að æsingamáli, með því að hann veit um það vald, sem þessi stofnun hefur fengið.

Ég vil aðeins fara hér inn á nokkur atriði, sem fram komu í umr., vegna þess að höfuðrök hv. 2. þm. S.-M. voru þau, að þetta væri svo lítið magn af kjöti, sem fleygt var, á móts við það kjöt, sem selt væri í landinu, og mér virtist hann halda fram, að það væri heimilt að kasta varningi, bara ef ekki væri farið yfir einhvern vissan hundraðshluta af vörunni á markaðinum.

Í fyrsta lagi er ekki upplýst, hve mikið kjöt hefur verið eyðilagt og hve mikið kjöt hefur verið urðað. Það liggur aðeins fyrir bréf frá SÍS um það og starfsmönnum þess. Og það er ekki ástæða til þess að taka það sem sönnun fyrir því, að það, sem þar er sagt, sé allt satt og rétt. Og jafnvel þó að þetta væri ekki nema örlítill hundraðshluti af innanlandssölu á kjöti, þá er það jafnþung sök, ef þetta væri gert að þarflausu. Það er ekki heldur nóg að sanna, að þetta kjöt hafi verið skemmt, þegar því var kastað. Það þarf að færa rök að því, hvers vegna þetta kjöt skemmdist, og það er aðalatriðið. Ég er út af fyrir sig ekki að neita því, að þetta kjöt hafi raunverulega verið skemmt og það sé rangt, sem sum blöð hafa sagt, að einhver hluti þess hafi verið ætur, þegar því var fleygt. Ég hef enga ástæðu til þess. En mér finnst mjög óeðlilegt, að slíkt skuli geta komið fyrir, að svo mikið kjöt eyðileggist og skemmist, að 600 tn. skemmist og 200 tn. svo mikið, að það hafi orðið að kasta því kjöti. Það þarf að rannsaka, hvernig á því stendur og hvernig með þetta kjöt var farið og hvaða trúnaðarmenn áttu að gæta þessa kjöts.

Önnur röksemdin fyrir því, að það sé eðlilegur hlutur og ekki tjái um það að sakast, að þetta kjöt skemmdist, er sú, að skemmzt hafi hér á landi fiskur og síld o. s. frv. Það getur vel verið, að fiskur og síld hafi skemmzt í stórum stíl. Og ef það hefur orðið fyrir eitthvert óforsvaranlegt atferli eða fyrir handvömm, þá er auðvitað full nauðsyn á því að rannsaka, hvað til sé í því. Og þess vegna er það líka tekið fram í 5. lið þáltill., að á sama hátt skuli nefndin rannsaka þá eyðileggingu, sem fram kann að hafa farið á öðrum neyzluvörum, að svo miklu leyti sem n. þyki ástæða til. Þarna er einmitt gert ráð fyrir því, að sé það rétt, sem haldið hefur verið fram hér, en mér er ókunnugt um, að fiskur og síld hafi eyðilagzt, svo að tugum og kannske hundruðum tonna skiptir, þá sé sjálfsagt, að það sé rannsakað, því að þjóðinni er full nauðsyn á að fá upplýsingar um það líka.

Ummæli mín um þá rannsókn, sem SÍS hefur farið fram á, að fram færi út af þessu kjötmáli, standa að fullu og öllu. Ég sagði það, að SÍS hefði krafizt rannsóknar, sem fyrst og fremst ætti að snúast um það atriði, að hve miklu leyti það sé ólöglegt og óforsvaranlegt af þeim mönnum, sem rufu dysjarnar og ég sagði, að Jón Árnason, framkvæmdastjóri Sambandsins, hefði kallað þjófa, eins og hann gerði í grein í Tímanum. Ég álít erfitt að kalla þá menn þjófa, sem taka þann varning, sem búið er að kasta út á víðavang, til þess að hann eyðileggist. — Rannsóknin á sem sagt að snúast um þetta atriði, — enda kom þetta greinilega fram, þegar hv. 2. þm. S.-M. fór að lesa þá „pósta“, sem SÍS óskaði, að væru rannsakaðir. Þessi rannsókn á fyrst og fremst og nær eingöngu að snúast um þessa afbrotamenn, sem Jón Árnason og Sambandið vilja vera láta, er hafa rofið þessar dysjar, sem myndaðar voru á náttarþeli. Og ég býst við, að flestir hv. þm., sem hlustað hafa hér á umr., hafi sannfærzt um réttmæti orða minna, þegar hv. 2. þm. S.-M. fór að lesa upp úr bréfinu frá SÍS. Þetta bréf er svo ósvífið og yfirgangssamt, og það sýndi svo mikla taumlausa frekju og persónulegar aðdróttanir, að hv. 3. landsk. þm., þegar hann gerði fyrirspurn um það hér í þinginu, hvernig á þessum kjötskemmdum stæði, sem eðlilegt var, að spurt væri um, þar sem ekki var meira þá um annað talað hér í Reykjavík og víða úti um land, þá fær hann ekkert annað en skammaryrði og óverjandi háðsyrði frá Jóni Árnasyni, þegar hann svarar í grein sinni í Tímanum. En sá ofsi, sem lýsir sér í ummælum Jóns Árnasonar, er í samræmi við það, að hann er ekki maður, sem óskar eftir rannsókn á öðrum grundvelli en þeim, sem ég hef fram tekið. Og rannsókn, sem fer fram eftir kærum, er hagað í öllum atriðum eftir beiðni kærandans. Og það er enginn aðili til, sem getur kært SÍS eða þá, sem hafa kjötsöluna með höndum, nema Alþ. En Alþ. getur krafizt rannsóknar og kært, ef rannsókn leiðir í ljós, að ástæða sé til að kæra eftir niðurstöðu rannsóknarinnar. Og þess vegna getur hæstv. Alþ. ekki skotið þessu máli hjá sér. Þó að SÍS biðji um slíka rannsókn, þá snýst hún alveg gegn hinum aðilanum. Það er útilokað, að sá rannsóknardómur, sem þarna yrði skipaður, gerði annað en fá umsögn Jóns Árnasonar um það, hvað gerzt hefði í málinu. Og ef SÍS og Framsfl. ætla að setja það á oddinn, að engin önnur rannsókn fari fram í þessu máli en þessi, sem SÍS hefur beðið um, þá gæti einhver haldið, að það væri eitthvað meira eða minna bogið við framkvæmdir þess í málinu.

Hv. þm. Ak. (SEH) reis hér upp úr sæti sínu og var ákaflega sár yfir því, sem hann sagði, að væru aðdróttanir til sín. Mér þykir undarlegt, að hið almenna matvælaeftirlit í landinu skuli ekki hafa verið látið fylgjast með því, hvernig þessum málum er háttað, né látið hafa upplýsingar um það, hverjar orsakir hafa verið til þessara skemmda. Ég er ekki með því að segja, að hv. þm. Ak., sem er yfirdýralæknir landsins, hafi ekki getað dæmt réttilega um það, hvort þetta kjöt var hæft til manneldis. En vottorð hans skiptir ekki verulegu máli í þessu sambandi, heldur verður að leita fyrst og fremst að orsökunum fyrir því, að þetta kjöt skemmdist í upphafi. Það er lítill vandi að ganga þannig frá, að það þurfi ekki að taka langan tíma að skemma kjötið svo, að það verði að kasta því. Það þarf ekki annað en láta það liggja í góðum sólarhita og trassa að pækla það. Ef SÍS ætlaði að rýma kjöti af markaðinum fyrir nýju kjöti, þá er hægt að ganga þannig frá, að það sé dragúldið, þegar því er kastað. Og það getur verið jafnsaknæmt að skemma kjöt fyrir því, þó að vottorð dýralæknisins hafi verið laukrétt. Og hv. þm. Ak. hefur ekki haft neina aðstöðu til að kynna sér það atriði. Hann gefur aðeins vottorð um, að kjöt, sem honum var sýnt, sé skemmt og ekki hæft til manneldis, þannig að aðfinnslur hans um þetta efni eru því alveg út í hött. Alveg eins er það, þegar yfirlýsingar voru birtar frá honum í blöðum, sem beinlínis sýna, hvað SÍS er í miklum vanda statt í þessu máli og hve því er illa við, að rannsókn fari fram í málinu.

Þá er það eitt atriði, sem nokkuð hefur verið rætt í sambandi við þetta mál. Hefur þessu kjöti verið kastað í því skyni að rýma á markaðinum fyrir öðru kjöti? Ég hef aldrei fullyrt það hér í þessari þáltill., en það er höfuðtilgangurinn með þessari þáltill. að fá það rannsakað. Það er höfuðtilgangurinn með skipun þessarar rannsóknarn. að fá úr því skorið, hvort svo sé, vegna þess að Alþ. er búið að ganga þannig frá þessum kjötsölumálum, að það er búið að fá SÍS og kjötverðlagsn. svo mikið vald í hendur, að þessir aðilar geta mjög hæglega rýmt fyrir nýju kjöti á markaðinum með því að kasta kjöti, sem fyrir er. Skipulagið er þannig útbúið, að þetta er innan handar. Við höfum mörg dæmi þess annars staðar að, að slíkt er gert og það í stórum stíl, að rýma þannig vörum af markaði. Og ef maður kynnir sér ofsann hjá SÍS í sambandi við þessar kjötskemmdir, þá bendir það til þess, að það sé alveg tilbúið til þess, ef það sér sig hafa hag af því. Ég tel einmitt, að þessi þáltill., sem er komin fram, eftir að SÍS hefur beðið um rannsókn í þessu máli, sé ekki sízt studd af þeim grun, sem virðist koma fram hjá þeim manni, sem fyrir hönd SÍS sendir dómsmrn. ósk um rannsókn í þessu máli. Það er sýnilegt þar, að SÍS vill vera svo algerlega útilokað frá allri „kritik“, að það vill meira að segja sakfella blöðin í Reykjavík, sem bara skýrðu frá því í fréttaskyni, að þarna suður í Hafnarfjarðarhrauni hefðu fundizt geysilegar birgðir af skemmdu kjöti. Þessi blöð vill SÍS, að verði dregin til ábyrgðar, og Jón Árnason hefur hafið mál gegn þessum blöðum. Og með þeim furðulegu fyrirmælum laga, sem samþ. voru í tíð þjóðstjórnarinnar sálugu, get ég búizt við, að hann geti fengið refsidóm á hendur blöðunum fyrir bara að segja frá þessu athæfi. Menn, sem vilja hafa þetta ótvíræða vald í þessu efni, en vilja vera óháðir „kritik“ frá blöðum og þinginu, eru menn, sem hafa ekki hreint mjöl í pokanum, menn, sem gefa tilefni til þess að álíta, að athafnir þeirra eigi að rannsaka rækilega. Ég er þess vegna ekki í minnsta vafa um það, að það eitt út af fyrir sig, að Framsfl. og raunar líka bændadeildin í Sjálfstfl. sem kölluð er, eða sveitaafturhaldið hér í þinginu leggur svo mikið kapp á það, að engin rannsókn fari fram í þessu máli önnur en sú, sem fer eftir kokkabókum Jóns Árnasonar, það stafi af því, að þeir geri sér fullkomlega ljóst, hver verði árangurinn af þessari rannsókn, ef gerð væri, sem þáltill. er um. Og ég sem flm. till. get vel fellt mig við þær ályktanir, sem draga má af því, að bændaafturhaldið í þinginu telur sig skipta svo miklu máli, að þessi þáltill. verði felld. Og vegna þess, að svo mjög er liðið á þingið sem raun er á, vil ég leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta, að þessu máli verði ekki vísað til n. Ef ég man rétt, þá er ákveðin ein umr. um málið. Og mér virðist á málflutningi talsmanns Framsfl., hv. 2, þm. S.-M., að þeir þurfi ekkert að hugsa sig um í málinu. Ég fyrir mitt leyti þarf ekkert að hugsa mig um heldur. Og þess vegna óska ég eftir, að atkvgr. fari fram strax að þessari umr. lokinni. Að svo komnu máli sé ég ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð.