23.09.1943
Sameinað þing: 14. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í D-deild Alþingistíðinda. (3541)

32. mál, vegavinnuvélar fyrir Barðastrandarsýslu

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Síðan farið var að nota bíla til flutninga á þjóðvegum landsins, bæði til mannflutninga og vöruflutninga, þá hefur það komið í ljós, að þau héruð, sem fengið hafa mest og bezt vegakerfi, svo að þau geti notað sem bezt þessi nýtízku farartæki, hafa verið bezt sett um lífsafkomu í búskap, jafnvel hversu afskekkt sem þau hafa verið að öðru leyti. Það er því eðlilegt, að þeir menn, sem nú eiga í hinum afskekktu héruðum að búa og hafa nákvæmlega sömu markaði um verð á landbúnaðarafurðum og hinir, sem betri samgöngur hafa, og verða einnig að greiða sama verð fyrir aðfluttar vörur, séu verr settir, þegar þeir þurfa að flytja þessar vörur til sín og frá á allt annan hátt en hinir, sem í þeim héruðum búa, sem þegar hafa fengið bílvegasamgöngur. Ég vil taka til dæmis til samanburðar og athugunar fyrir þá hv. þm., sem koma til með að afgreiða þetta mál hér, hvernig þeim litist á, ef breytt væri hér til í gamla horfið og íbúar þeirra héraða, sem þeir eru umboðsmenn fyrir, yrðu að reiða allt til sín og frá á klökkum, hvort sem það er kjöt, mjólk eða önnur þungavara. Enn þá eru til sýslur í þessu landi, sem verða að búa við slíkar samgöngur. Níu af ellefu hreppum í Barðastrandarsýslu hafa ekki komizt í samband við vegakerfi landsins. Mér þætti ákaflega fróðlegt að vita, hvernig þeim mönnum, sem ráðið hafa á undanförnum árum og það ekki betur fyrir þetta hérað en svona, væri innan brjósts, ef þeirra héruð væru látin búa, ekki árum saman, heldur tugi ára við slík samgönguskilyrði, — t. d. hvernig hv. þm. Árn., Borgf., Mýr. og fleiri í nærliggjandi héruðum mundu una því, ef umbjóðendum þeirra væri fyrirskipað að reiða t. d. frá Biskupstungum og öðrum stöðum álíka langt frá Reykjavík á klökkum alla mjólk og aðrar afurðir og síðan allar afurðir til sín einnig á klökkum. En slík skilyrði hafa verið sköpuð m. a. þessum níu hreppum í Barðastrandarsýslu, sem enn þá eru algerlega útilokaðir frá vegakerfi landsins.

Sú staðreynd, að þessir menn, sem þarna búa, geta ekki risið undir þeim erfiðleikum, sem því er samfara að verða að hafa slík flutningstæki, hefur komið því af stað, að þeir hafa nú bundizt samtökum um að leggja af frjálsum vilja fram með frjáslum samskotum stórar fjárhæðir til þess að geta komið sér upp og fengið inn í héraðið vegavinnuvélar, jarðýtu, svo að unnt sé að koma áleiðis endurbótum á samgöngum í héraðinu. Sýslubúum er ljóst, að ef hér verða ekki straumhvörf, heldur eigi þeir að fá ofurlítinn skerf af því, sem lagt er til vegamálanna árlega, þá tekur það ekki 2–3 ár að ljúka þessum umbótum á samgöngum þarna, sem nauðsynlegar eru, heldur tugi ára. Slíkt væri sama sem þeir sæju fram á, að þeir yrðu að gefast upp í lífsbaráttunni á þessum stöðum og leita annað. Þess er því vænzt, að þeir menn, sem greiða atkv. um þessa þáltill., kynni sér vel þessi mál og hafi það ekki aðeins sem mælikvarða, hvað önnur héruð nú fá til þessara mála, heldur taki afstöðu til þessa máls einmitt með tilliti til þess, að önnur héruð hafa áður fengið svo stóran skerf til þessara mála, meðan Barðastrandarsýsla fékk ekkert. Og ég vona, að hv. þm. geri sér ljóst, hversu mikil ástæða er til að bæta úr þeirri brýnu nauðsyn, sem er á því, að samgöngur í þessu héraði verði stórum bættar, ekki á næstu 20 árum, heldur þegar í stað. Ég vonast því til þess, að hv. fjvn. afgreiði þetta mál svo fljótt, að unnt verði að láta fram fara kaup á þessum vélum, svo að nota megi þær á þessum stöðum fyrir næsta sumar. Það er alveg einstakt tækifæri fyrir það opinbera, að íbúarnir sjálfir vilja kosta helming af þessum kaupum. En á sama hátt er þá um leið tryggt, að þeir fengju ráðið því, að þessar vélar væru hafðar kyrrar í héraðinu og látnar vinna jafnt að vegagerð, sem ríkið kostaði, eins og á sýsluvegum, sem héraðsbúar gera á sinn kostnað.

Ég hef nokkuð rætt þetta mál við vegamálastjóra, og hann hefur fallizt á, að þetta væri í raun og veru mjög heppilegt, að héruðin sjálf ættu hluta af slíkum verkfærum. Þau mundu þá einnig geta notað þau til hreppsvegagerða.

Ég sé, að frv. hefur verið borið fram á þskj. nr. 49, sem fer í svipaða átt, þar sem ætlazt er til, að vegal. sé breytt þannig, að sýslunefndir megi leggja svo og svo mikið fé til slíkra verkfærakaupa. En þetta frv. fer nokkuð í aðra átt en þessi þáltill., vegna þess að samþ. þess mundi ekki leysa erfiðleika þessa héraðs. Í Austur-Barðastrandarsýslu er enginn sýsluvegasjóður til: Hrepparnir þar eru svo fátækir, að þeir hafa ekki getað stofnað þá. Gegnum tvo hreppa þar er þjóðvegur kominn, og þeir standa á móti því nú orðið, af því að þeir hafa fengið veg þar í gegn, að lagður verði fasteignaskattur á þeirra eignir fyrir hreppana, sem hafa ekki fengið neina vegi. Enn fremur Flateyjarhreppur, sem aldrei kemur til með að hafa neina vegagerð, af því að hann er eyjahreppur. Í Vestur-Barðastrandarsýslu er hins vegar til sýsluvegasjóður, og úr honum er nú á hverju ári lagt fram nokkurt fé til sýsluvega. En ef taka ætti það fé til þessara vélakaupa, þá mundi vegagerð að sjálfsögðu stöðvast það árið í héraðinu. En það er sjálfsagt fyrir ríkissjóð að nota sér þá möguleika, sem nú eru fyrir hendi, að tillag er boðið fram á móti ríkissjóðstillagi fyrir þessar vegagerðarvélar, og leggja fram fé á móti.

Ég vænti þess, að hv. fjvn. hraði afgreiðslu þessa máls og sýni því fullan skilning, svo að tilraun verði gerð til þess að bæta úr því misrétti, sem þetta hérað hefur orðið að líða fyrir um mörg undanfarin ár í úthlutun fjár til vegamála.