15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3558)

72. mál, bygging ljós-, hljóð- og radiovita á Seley við Reyðarfjörð og hljóðvita við Berufjörð

Flm. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. til þál. um að hefja nú þegar undirbúning að byggingu ljós-, hljóð-. og radíóvita á Seley við Reyðarfjörð.

Samkv. vital. er gert ráð fyrir þessum vita á Seley, en það er reiknað með því, að hann verði dýr og mikil bygging. Það hefur því ekki enn verið ráðizt í að verja fé til hans, vegna þess að fjárframlög til vitabygginga hafa verið svo lág á ári hverju. Hins vegar er það álit mitt, að hagur ríkissjóðs sé nú svo góður, að ekki sé annað sæmandi en hefja nú framkvæmdir til þess að koma upp nauðsynlegustu vitunum í vitakerfi landsins. Þessum vita verður ekki komið upp á einu ári og er því þeim mun nauðsynlegra að hefjast þegar handa, þar sem þetta er mjög þýðingarmikill viti, enda hafa bæði frá félögum og fiskiþingum komið fram áskoranir til Alþ. um að leggja fram fé til þessa vita. Þarna er mjög fjölfarin skipaleið, en eyjan er lág og því mjög góð aðstaða til vitabyggingar á henni, enda er gert ráð fyrir, að þetta verði aðalvitinn við Austurland.

Þá er einnig lagt til í þáltill., að komið verði upp við Berufjörð hljóðtækjum með þokulúðri, en þar eru þokur tíðastar hér við land, enda kvarta sjómenn mjög yfir því, að þar skuli ekki vera viti með nauðsynlegum hljóðtækjum. Ég hygg, að til þess að koma þarna upp nauðsynlegum hljóðtækjum, þurfi ekki sérstakan vita, en hljóðtæki eru þarna mjög nauðsynleg vegna þess, hve þetta svæði er óhreint og hættuleg skipaleið. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar að sinni, en legg til, að þáltill. verði vísað til fjvn. að lokinni þessari umr.