15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í D-deild Alþingistíðinda. (3561)

72. mál, bygging ljós-, hljóð- og radiovita á Seley við Reyðarfjörð og hljóðvita við Berufjörð

Flm. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af þeim ummælum hv. þm. Hafnf., að þessi þáltill. fæli í sér nýmæli og að með samþ. hennar væri horfið af þeirri braut, að láta vitabygginganefnd ákveða, hvaða vitar skuli byggðir á hverjum tíma. Þetta er á algerum misskilningi byggt. Þessi þáltill. haggar á engan hátt ákvörðunarrétti vitabygginganefndar, því að hér er aðeins farið fram á sérstaka aukafjárveitingu til ákveðins vita, en nefndin hefur eftir sem áður ráðstöfunarrétt yfir því fé, sem Alþ. veitir árlega í fjárl. til vitabygginga. Það er álit mitt og margra annarra, að fjárveiting Alþ. s. l. ár til þessara mála hafi verið smánarlega lítil. Í þessari till. minni er farið fram á ½ millj. kr. aukafjárveitingu umfram það, sem áætlað er í fjárl. þessa árs. Ég mundi því skoða samþ. þessarar till. sem sérstaka viðurkenningu á því, að fé það, sem veitt er í fjárl., hafi verið allt of lítið, en sú upphæð mun hafa verið um 350 þús. kr.

Ég geri ráð fyrir því, að ef framlagið s. l. ár hefði verið ½ millj. kr. hærra, þá hefði nefndin séð sér fært að verja því fé einmitt til þessa vita. Ég álít því, að hér sé ekki um neina breytingu að ræða, heldur aðeins það að lækka fjárveitinguna á þessu ári með tilliti til ákveðins vita. Það er rétt, að hv. þm. A.-Sk. hefur komið með viðaukatill. við þessa þáltill., en það raskar vitanlega ekki rétti vitabyggingarnefndar til þess að ráðstafa því fé, sem veitt er í fjárl. hvers árs til vitabygginga.