15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í D-deild Alþingistíðinda. (3562)

72. mál, bygging ljós-, hljóð- og radiovita á Seley við Reyðarfjörð og hljóðvita við Berufjörð

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í deilur um þetta mál, en ég vil aðeins taka það fram, að enda þótt hv. 6. landsk. teldi, að um misskilning væri að ræða hjá mér, þá hefur honum þó ekki tekizt að sannfæra mig um, að svo sé. Ef tekinn er upp sá háttur að taka út úr sérstaka vita og Alþ. samþ. fjárveitingar til þeirra utan fjárl., þá verður það svo á hverju ári, og þá verður það vitanlega þeim mun minna fé, sem vitabygginganefndin fær til ráðstöfunar. Ég get vel tekið undir það, að féð hafi verið af mjög skornum skammti, og tel æskilegt, að það verði aukið, en ég tel það heppilegri fyrirgreiðslu á málinu, að framlagið verði hækkað annaðhvort nú eða síðar og að síðan verði venjuleg afgreiðsla á því hjá vitabygginganefnd.