03.12.1943
Sameinað þing: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í D-deild Alþingistíðinda. (3564)

72. mál, bygging ljós-, hljóð- og radiovita á Seley við Reyðarfjörð og hljóðvita við Berufjörð

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Ég mun ekki gefa tilefni til langra umr. um þetta mál, en get vísað til þskj. 493.

Vitamálastjóri bendir á, að vitamálastjórn komi saman einu sinni á ári til þess að gera till. um, hvernig verja skuli því fé, sem veitt er í fjári. til vitabygginga, og er það föst venja að fara eftir till. hennar.

Þetta mál lá þannig fyrir, þegar það var afgr. til fjvn. En nú hefur minni hl. brugðið málinu á nýjan grundvöll, með því að hann hefur horfið frá því, að krafizt verði fjárveitingar til sérstakra framkvæmda, en að ríkisstj. sé falið að leggja nú þegar í sérstakan sjóð til vitabygginga 850 þús. kr. af tekjum yfirstandandi árs.

Þessa till. man ég ekki eftir að hafa séð í fjvn., og skilst mér, að málið sé komið á nýjan grundvöll, þar sem till. um að taka málið úr höndum vitamálan. er úr sögunni.

Fjvn. hefur ekki tekið afstöðu til þessarar till. Í þessu sambandi hefði verið gott að fá upplýst hjá hæstv. ríkisstj., hvort hún hafi 850 þús. kr. af tekjum þessa árs til að leggja í svona sjóð. Þetta hefur ekki verið tekið fyrir í n., en sú till., sem fram hefur komið frá hv. minni hl. fjvn., gefur tilefni til slíkrar fyrirspurnar. Ég geri ráð fyrir, að ef ekki liggja fyrir upplýsingar um, að féð sé handbært, muni fjvn. halda sér við hina rökstuddu dagskrá.