19.10.1943
Sameinað þing: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (3598)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Sveinbjörn Högnason:

Hv. þm. Hafnf. hefur mælt fyrir till. á þskj. 171, þar sem farið er fram á, að Alþingi skerist í leikinn og banni sölu mjólkur til setuliðsins, meðan skortur er á henni í Reykjavík og Hafnarfirði. Ég flyt aftur brtt. á þskj. 175, sem er á þá leið, að sala á mjólk, rafmagni og vatni til setuliðsins verði stöðvuð, meðan skortur er á þessum nauðsynjum meðal landsmanna sjálfra þar, sem salan fer fram.

Ég lít svo á, að eigi að skerða rétt einhverra borgara þjóðfélagsins til að skipta við setuliðið, eigi það að ganga jafnt yfir alla. Og þegar hv. þm. Hafnf. endurtekur, að það sé óskylt að banna sölu ýmissar vöru og vinnu, sem skortur er á hér, þá hefði ég gaman að heyra skilgreiningu hans á því. Reykjavíkurbær selur rafmagn, sem mikill skortur er á. Það er ekki vinnubjart og frystihúsin ekki í starfhæfu ástandi, svo að vörur, sem í þau eru látnar, stórskemmast. Fjöldi verklegra framkvæmda hefur tafizt og stöðvazt, vegna þess að vinnukraft hefur vantað. Vinnukraft hefur mjög vantað við framleiðsluna, því að margir hafa talið réttara að selja vinnu sína setuliðinu ár út og ár inn, í stað þess að vinna að landbúnaðarstörfum. Ég skil ekkert í því með ekki óskýrari mann en hv. þm. Hafnf. er, að hann skuli ekki geta séð, að hér er enginn munur á. Reykjavíkurbær má óátalið selja vörur sínar, þótt skortur sé á þeim meðal bæjarbúa og óþægindi hljótist af, en bændur mega ekki selja sína vöru, þegar skortur er á henni meðal innlendra neytenda! Þann mikla mun, sem hér á að vera á, get ég ekki skilið. Ef banna á sölu á ýmsum framleiðsluvörum, rafmagni eða vatni, til setuliðsins, þeim vörum, sem þjóðin þarfnast til þess að geta haldið uppi starfsemi sinni og daglegu lífi, sé ég ekki annað en það sé ástæða til að láta það ganga jafnt yfir alla þegna þjóðfélagsins. Það á að banna öllum sölu nauðsynja, sem skortur er á, til setuliðsins eða skipta sér ekki af því. Misrétti í þessu efni getur áreiðanlega ekki gengið. Ef einhverjir þegnar þjóðfélagsins finna, að þeir eru misrétti beittir í þessu efni, er áreiðanlega gengið út á hála braut af löggjafans hálfu. Ég skal fyrst geta þess, að 1934, þegar mjólkursamsalan tók til starfa, voru til sölu 6,3 millj. lítrar, og íbúatalan var 34231 maður. Þetta samsvarar ½ lítra mjólkur á mann á dag. 1942 er magnið á sama svæði 15,5 millj. lítrar, — á sölusvæði Rvíkur og Hafnarfjarðar —, en íbúatalan 40902 menn, eða rúmlega 1 lítri mjólkur á hvern íbúa. Hv. þm. Hafnf. segir kannske, að þetta skipti engu máli, neyðin sé jafnmikil fyrir því, en þetta eru tölur, sem hann má sannprófa, ef hann vili. Ef mjólkurmagnið væri jafnt allt árið, væri aldrei skortur. En það er vitanlegt, að á haustin minnkar mjólkin um allt land. Þá verða ekki aðeins Rvík og aðrir kaupstaðir að búa við minna magn, heldur einnig sveitabýlin sjálf, og svo hefur verið um aldir. Það er einsdæmi, að í fyrra haust tókst að mestu að forða skorti hér, þó að hann væri alls staðar annars staðar.

Ég veit, að ekki alls fyrir löngu hefur maður f. h. bæjarstjórnar Vestmannaeyja spurt í mjólkursamsölunni, hvort Vestmanneyingar gætu ekki fengið mjólk frá Flóabúinu, sem þeir sæktu sjálfir, því að skortur er þar svo gífurlegur, af því að kúm hefur fækkað þar stórkostlega. Á Ísafirði, þar sem bærinn rekur kúabú, er mikill mjólkurskortur.

Nú vil ég segja mönnum, hvaða mjólkurmagn hefur verið til sölu í Rvík í september og fyrstu vikuna í október síðastliðin ár, að frádreginni þeirri mjólk, sem fer til setuliðsins:

Í

sept.

1939

15059

lítrar

á

dag.

-

-

1940

15871

-

-

-

1941

19510

-

-

1942

19225

-

og þá var enginn skortur, en

í sept. 1943 23309 lítrar á dag,

þegar talinn er svo gífurlegur skortur. Fyrstu sjö dagana í október lét stöðin 23824 lítra á dag, auk þess sem fór til setuliðsins.

Eins og þessar skýrslur sýna, er salan nú meiri en síðastliðin ár og 8240 lítrum meiri en 1939. Ég bið menn að athuga þetta. Ef skortur er mikill nú, er það af því, að fólk sækist svo miklu meira eftir því að kaupa mjólk.

Ég skal skýra frá því, að tvívegis óskaði forstjóri mjólkursamsölunnar eftir því, að stjórn samlagsins tæki ákvörðun um, hvort öll mjólk skyldi tekin af setuliðinu, en stjórnin taldi rétt, eftir því sem fyrir lá, og ég veit, að hver þm. hefði gert það líka, að taka ekki mjólk af setuliðinu. Ég skal lesa upp úr skýrslum stjórnarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem setuliðið hafði látið á sér skilja, að viðskiptin við það mundu mjög óviss framvegis, ef dregið yrði að ráði úr því magni, sem það fékk þá. Það, sem stjórn samsölunnar hafði við að styðjast í þessu efni, kemur greinilega fram í bréfi forstjóra Mjólkurbús Flóamanna, hr. Stefáns Björnssonar, en þar segir svo m. a.: „Í sumar mætti Captain Harry J. Robertson hér fyrir hönd setuliðsins. Þegar ég eitt sinn í sumar benti

Ct. Robertson á það, að svo hlyti að fara, að draga yrði úr mjólkursölu til setuliðsins í haust eða að jafnvel yrði að svipta það allri mjólk, ef mjólkurskortur yrði, skýrði hann mér frá því, að þar sem setuliðið hefði samkv. beiðni ísl. ríkisstjórnarinnar keypt meira af mjólk framan af sumri en það hefði kært sig um, gæti það ekki sætt sig við það, að mjólkurmagn það, er það fengi nú daglega, yrði skert til muna eða salan stöðvuð í haust. Hann lét einnig svo um mælt, að ef mjólkurskammtur setuliðsins yrði minnkaður í haust, mundi hann ekki fást aukinn aftur, þótt þess yrði óskað“.

Ég get vel lesið upp, hver þessi viðskipti hafa orðið við setuliðið. Ég hef heyrt því haldið fram, að það eigi að vera tugir þúsunda lítra.

„Þá hefur salan til setuliðsins orðið:

1.–7. ágúst 21151½–3021 lítri á dag.

1.–7. sept. 16781–2397 lítrar á dag.

1.–7. okt. 9198½–1314 lítrar á dag.“

Magnið hefur því minnkað um meira en ½ l. á dag og er aðallega til sjúkrahúsa hersins, en auk þessara viðskipta lætur mjólkurbú Flóamanna til setuliðsins flesta daga um 5000 lítra á dag, en þeim beinu skiptum hefur dregið úr allverulega eða a. m. k. um 2000 lítra. Ég tel mjög óskynsamlegt að taka alveg af viðskiptin, án þess að prófað sé, hvað mikið vantar hér raunverulega á markaðinn, þar sem bersýnilegt er, að það getur ekki verið nema lítið. Salan er svona mikil, af því að fólk er hrætt við skort eða telur hagkvæmara að kaupa mjólk nú, af því að verðið er tiltölulega lægra en áður. Væri það svo, að markaðinum væri fullnægt með því að bæta við því mjólkurmagni, sem þegar hefur verið dregið af setuliðinu, hvað væri þá unnið annað en eyðileggja markaðinn framvegis við að taka frá setuliðinu það, sem eftir er? Er ekki betra að sannprófa, hvað mikið vantar raunverulega á, en ekki að óþörfu að vera með ráðstafanir gagnvart framleiðendum, sem í sinni hegðan eru áreiðanlega þjóðhollari en aðrir borgarar í viðskiptum við setuliðið.

Það er vissulega ýmislegt fleira, sem ég hefði viljað taka til athugunar og mér gefst væntanlega tækifæri til síðar.

Það er svo sem svo að banna sjúkum mönnum, þó að útlendir séu, að fá mjólk til neyzlu, ef við, sem heilbrigð erum, getum útvegað hana, þó að við þurftum þá eitthvað að draga af okkur sjálfum. Ég efast um, að það sé í samræmi við hugsunarhátt ísl. þjóðarinnar. Ég sé ekki, að það skipti miklu máli, ef um sjúka menn er að ræða, hverrar þjóðar þeir eru.

Ég vona svo, að Alþ. taki til athugunar brtt. mína á þskj. 175, og ég fullyrði, að ef sú brtt. verður felld, en hin samþ., þá er hér um ofsókn að ræða, og það væri fróðlegt að sjá. hverjir vilja helzt stofna til slíkrar ofsóknar. Í þessu máli eru ýmis atriði, sem þarf að rannsaka nánar, m. a. um sölu til sjúkra manna o. fl.

Ég tel rétt, að málinu verði vísað til n., sem yrði þá allshn. Ég sting upp á, að umr. verði frestað, og málinu vísað til hennar.