19.10.1943
Sameinað þing: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (3599)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Ólafur Thors:

Hv. þm. V.-Sk. gerði það að till. sinni, að umr. yrði frestað og málinu vísað til allshn. Það var í raun og veru það, sem fyrir mér vakti, þegar ég kvaddi mér hljóðs, og skal ég taka undir till. hans.

Ég vil leiða athygli að því, að þm. eiga nú að gera sér grein fyrir, hvort þeim þykir nauðsynlegt eða viðeigandi, að Alþ. geri um það samþykkt, að herlið Bandaríkjanna megi ekki fá að kaupa hér nokkur þús. lítra af mjólk, ef herliðið leiðir líkur til, að það sé því nauðsynlegt. Ég álít þessa till. með stærri málum og ber kinnroða fyrir það, að menn í tölu helztu þm. skuli bera hana fram. Við Íslendingar förum með aðstoð sendiherra okkar í Washington fram á margs konar fjárhagsleg fríðindi og hlunnindi af hendi Bandaríkjanna, og málum okkar hefur verið tekið á þann veg, að það væri skömm að því og vansæmd fyrir okkur að samþ., að ekki megi selja sjúkum mönnum í liði Bandaríkjanna ofurlítið af mjólk.