19.10.1943
Sameinað þing: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (3601)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Það ætlar að verða við þessa umr. eins og alltaf, þegar þessi mál eru til umr., að það er sama, hvaða staðreyndir eru bornar fram og hvaða upplýsingar liggja fyrir, að það er bara hrist höfuðið og sagt: „Ég neita staðreyndum“, eins og hv. þm. Hafnf. gerði hér nú. Þegar ég kom með skýrslu um mjólkursölu undanfarinna ára, þá segir hann bara: „Þetta eru hálfkveðnar tölur“. — Vill nú ekki þessi hv. þm. sannfæra sig sjálfur um það, hvort ég fer hér með rétt eða rangt mál? Ég tel honum það ósamboðið að halda því fram, að ég fari með ósannar tölur, meðan hann hefur ekki aflað sér upplýsinga um það, og ég skora á hann að afla sér nú nákvæmra upplýsinga um þetta mál, þannig að hann geti síðan sagt með réttum rökum, hvort ég fer með rétt mál eð rangt. Ég verð að segja, að þetta er ómerkilegur málaflutningur, sem er engum þm. samboðinn. Ég hef lagt fram mínar tölur, og þær eru staðfestar, og ég þori að standa við þær, hvar sem er. Svo kemur þessi hv. þm. og segir:

„Ég skil þetta ekki. Þetta getur ekki verið rétt, þetta eru hálfkveðnar tölur“. Hvaða aðstöðu hefur þessi hv. þm. haft til þess að geta leyft sér að segja þetta? Ég veit ekki til, að hann hafi haft hana. Þess vegna skora ég líka á hann að kynna sér þetta, og ég skal greiða fyrir honum á allan hátt með því að láta honum í té bækur og annað, sem hann þarf, og ég vil beina því til hæstv. forseta, að ef þessi hv. þm. verður ekki við áskorun minni, þá beiti hann sér fyrir því, að tölurnar verði fengnar frá endurskoðendum, þannig, að hægt verði að leggja skýrslu frá þeim fram hér í þinginu.

Þetta er sannarlega mjög ósæmilegur málflutningur, sem hv. þm. Hafnf. hefur leyft sér að hafa hér. Hann sagði, að ef kvartað hefði verið yfir einhverju, þá hefði aldrei verið reynt að bæta úr því, það hefði ekkert verið að fá annað en ofstopa og vonzku. Ég vil nú spyrja þennan hv. þm., hverjir ætli hafi fengið meiri illyrði, skammir og svívirðingar, við, sem stöndum fyrir mjólkursölunni, eða neytendur hér í bænum? Ég veit ekki betur en ég hafi orðið að þola það dag eftir dag, að næstum því öll dagblöð bæjarins hafi ausið mig persónulegum svívirðingum. Það hafa ekki verið umkvartanir, heldur svívirðingar, jafnvel dylgjur um þjófnað og annað þess háttar. Ef ég svo svara með því að gefa upplýsingar eins og hér áðan eða ég læt dómstólana skera úr málunum, þá er sagt, að ég sé ósvífinn skammahundur, ef svo mætti segja. Það er það, sem ég fæ, ef ég reyni að bera af mér ósannindi, sem ég er búinn að fá því nær öll dagblöð bæjarins dæmd fyrir. Í blaði hv. þm. Hafnf. er í dag jafnvel gefið í skyn, að ég sé þjófur og lygari. Ég er ekki þannig skapi farinn, að ég vilji liggja undir slíkum áburði, og ég held, að enginn sannur Íslendingur mundi vera það.

Ég held, að það sé rétt, að ég gefi sérstakar upplýsingar í tilefni af því, sem þessi hv. þm. sagði áðan, að það væri sama, hvaða umkvartanir væru bornar fram, þá væri aldrei reynt að bæta úr neinu, heldur aðeins svarað illu einu til. Það er hægt að slá svona löguðu fram, en það verður að vera einhver stafur fyrir því, ef maðurinn er svo ærukær, að honum er ekki alveg sama, hvað hann segir. Ég veit ekki betur en samsalan hafi alltaf gert sitt ýtrasta til þess að reyna að bæta úr þeim ágöllum, sem kvartað hefur verið yfir, hafi kvartanirnar verið á nokkrum rökum reistar. Ég skal nú nefna eitt dæmi um þessar kvartanir.

Það komu fyrir nokkrum dögum fram kvartanir um það, að sumar mjólkurbúðir hér í bænum væru svo sóðalegar og illa útlítandi, að það væri alls ekki viðunandi og að heilbrigðiseftirlitið hefði ákveðið að láta loka níu búðum, ef ekki yrði búið að bæta úr ástandi þeirra fyrir 1. des. n. k. Mér þótti þetta undarlegt, því að ég vissi ekki betur en allar þær mjólkurbúðir, sem samsalan rekur, væru í góðu lagi. Ég sneri mér því til framkvæmdastjóra samsölunnar, sem gaf mér þær upplýsingar, að samsalan ræki enga af þessum níu búðum, heldur væri hér um að ræða búðir sem tækju mjólk í umboðssölu. Og hvaða búðir halda menn svo, að þetta hafi verið? Ég skal nú lesa þær upp. Þær eru þessar: Laugavegur 61, eigandi Alþýðubrauðgerðin, Njálsgata 106, eigandi Alþýðubrauðgerðin, Leifsgata 32, eigandi Alþýðubrauðgerðin, Bankastræti 2, eigandi Alþýðubrauðgerðin, Björnsbakarí, eigandi Karl Kristinsson, og auk þessara fjórar smábúðir í úthverfum bæjarins. (EmJ: Hverjir eiga þær?) Það eru ýmsir kaupmenn, og ég skal gefa upplýsingar um það, hverjir þeir eru, hvenær sem þess er óskað. En hvað er það, sem hér kemur í ljós? Það er það, að flokksfyrirtæki þeirra manna. sem hér gala hæst um sleifarlag og ágalla hjá samsölunni, á fjórar þessar búðir, sem eru í slíku ófremdarástandi sem áður greinir, og það hefur aldrei verið reynt að bæta þær. Svo koma þessir menn hér og segja, að það sé ekkert reynt að lagfæra af hálfu mjólkursamsölunnar og þar sé ekkert að fá nema ósvífni sem svör við réttmætum kvörtunum. Þeir vilja láta skína í það, að það sé okkur að kenna, að búðir þær, sem þeirra eigin flokksmenn reka, séu í slíku ófremdarástandi sem raun ber vitni um.

Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að þegar ég fékk þessar upplýsingar, þá varð mér það ljóst, að sumir hér virðast vera farnir að ganga fram úr því, sem Al Capone leyfði sér forðum í Chicago. Þegar þessir menn leyfa sér annað eins og þetta í svona litlum bæ, að reyna að koma svona sínum eigin svívirðingum á aðra, hvað mundu þeir þá leyfa sér í stórborg eins og Chicago. Þar hefðu þeir víst ekki veigrað sér við að leyfa sér annað eins og það, sem Al Capone gerði þar.

Þá sagði hv. þm. Hafnf., að það væri allt öðru máli að gegna með mjólkursamsöluna en með aðra borgara bæjarins, þar sem hún nyti lögverndaðs réttar. En hvernig er það með rafmagnsveituna? Er hún ekki lögvernduð? Eða þá vatnsveitan? Ég veit ekki betur en bæði þessi fyrirtæki séu lögvernduð. Þessi fyrirtæki njóta sama réttar og mjólkursamsalan, en eiga skyldurnar aðeins að vera hjá samsölunni, en ekki hjá öðrum? Eða við hvað eiga þessar bollaleggingar hv. þm. Hafnf. um það, að sumir vilji skjóta sér undan skyldum, en aðeins njóta hlunnindanna? Þá veit ég ekki betur en vinna yfirleitt í landinu sé lögvernduð. Eiga þá bændur að vera skyldir til þess að sjá þeim mönnum fyrir nægri mjólk, sem vinna hjá setuliðinu í stað þess að vinna að framleiðslunni, þegar þar er stórkostlegur skortur á vinnuafli? Eru það ekki ýmsir aðrir en bændur, sem reyna að skjóta sér undan skyldu, en vilja fá að njóta hlunninda?

Þá sagði þessi hv. þm., að það skipti engu máli fyrir bændur, hvort þessu væri svona háttað, sem það nú er, eða öðruvísi, því að það væri búið að tryggja þeim kr. 1.23 fyrir lítrann. Já, það er nú svo. Hvað vildi hann gera? Mér hefur skilizt, að það væri rétt með hangandi hendi, að það væri hægt að fá suma hv. þm. til þess að standa við það loforð, sem gefið var með l. á síðasta þ. — Já, bændur væru víst öruggir með, að þeim yrði tryggt visst verð fyrir vörur sínar, þegar búið er að svipta þá framleiðslutækjunum og þau væru komin í hendur fylgismanna hv. þm. Hafnf. Ég gef ekki mikið fyrir það öryggi, ég gef ekki mikið fyrir þá tryggingu, sem flokksmenn þessa hv. þm. standa að. — Hann vildi með miklum bægslagangi láta rífa niður þetta eina samkomulag, sem náðst hefur hér milli allra flokka. Ég held það sé því ekki mikil trygging fyrir bændur, þótt verðið hafi verið ákveðið nú um stundarsakir.

Þá sagði þessi hv. þm., að ég hefði viljað láta skína í það, að þegar heildarmagn mjólkurinnar hefði vaxið úr 6,3 millj. lítra upp í 15,5 millj. lítra, þá hefði neyzlumjólkin til neytenda hér aukizt að sama skapi. Ég hef aldrei sagt það, en ég hef sagt, að mjólkurmagn það, sem hér hefur verið á boðstólum til neyzlu, hafi vaxið um helming á sama tímabili. Það hefur verið hér til sölu allt það magn, sem neytendur óskuðu eftir, og það er ekki samsölunni að kenna, þó að það hafi ekki allt verið notað nema þessar fáu vikur að haustinu, sem ekki hefur verið nægilegt magn til af mjólk á markaðinum.

Þar sem hv. þm. Hafnf. sagði, að það mundi vera hægt að halda uppi mjólkurmagninu í Reykjavík, þar sem um svo stórt svæði væri að ræða, þá vil ég upplýsa það, að í Hafnarfirði, þar sem hann ætti að vera manna kunnugastur, hefur ekki tekizt betur til en á öðrum stöðum landsins, hvað þessu viðvíkur. Hafnfirðingar seldu vinnu sína til setuliðsins og hættu að framleiða mjólk, vegna þess að þeim fannst það borga sig betur. Ég get í því sambandi bent á það t. d., að mjólkurmagnið frá Mjólkurbúi Hafnarfjarðar nam árið 1939, árið áður en setuliðið kom, rúmlega hálfri milljón lítra, eða 549.756,42, en hefur nú minnkað um hér um bil helming. Nú vill þessi hv. þm. halda því fram, að við höfum níðzt á þessum framleiðendum með því að láta þá borga svo hátt leyfis- og verðjöfnunargjald, en ef litið er á reikningana frá Mjólkurbúi Hafnarfjarðar, sem eru áritaðir af hr. Birni E. Árnasyni, löggiltum endurskoðanda, bera þeir með sér, að til mjólkurframleiðenda í Hafnarfirði voru árið 1942 greiddar kr. 42.921.92 umfram allar kvaðir, sem á þeim hafa hvílt til samsölunnar, eða sem svarar kr. 0,17 á hvern lítra af innveginni mjólk til mjólkurbúsins. Ef maður lítur lengra til baka eða til ársins 1941, þá er útkoman þannig, að á því ári munu hafa verið greiddar rúmlega 19 þús. kr. til þess að halda þessum framleiðendum uppi, en þetta atriði skal ég þó athuga betur. Mér virðist því, eftir því sem þessir reikningar bera með sér, að ekki hafi verið níðzt á þessum framleiðendum, því að mjólkurframleiðsla þeirra hefur fallið niður um helming síðan 1939, þrátt fyrir það að þeir hafa fengið stórkostlega hjálp frá bændum annars staðar á landinu og hefðu að öðrum kosti ekki getað haldið framleiðslu sinni uppi. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta að sinni, en mér skilst, að flm. séu fallnir frá till. sinni, eins og hún liggur fyrir. Mér skilst, að þeir séu komnir inn á það, að hið sama eigi að ganga yfir setuliðið og okkur Íslendinga viðvíkjandi mjólkursölunni til sjúkra manna a. m. k., og að það þurfi að líta á málið frá annarri hlið en gert hefur verið. Tel ég því nauðsynlegt, að málið fari til n. og verði athugað þar.