27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í D-deild Alþingistíðinda. (3612)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Flm. (Emil Jónsson) :

Ég skal vera fáorður, en ég get ekki komizt hjá því að segja nokkur orð út af því, sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. V.-Sk. og hv. 2. þm. S.-M. En fyrst skal ég taka það fram, að ég er því samþykkur, að málið fari til n. til athugunar, og í öðru lagi er ég samþykkur því, að till. verði takmörkuð að því leyti, sem ég hef áður lýst, við það, að framvegis verði afgreidd mjólk til sjúkrahúsa hersins og til þeirra veikra manna annarra í landinu, hverjir sem þeir eru, þannig að takmarkanaákvæði þáltill. nái ekki til þeirra. Þessu vil ég beina til n., að hún taki þetta til athugunar, en annars er ég viðbúinn að bera fram brtt. um þetta, ef þurfa þykir.

Eitt atriði í ræðum þeirra hv. þm. tveggja, sem ég nefndi, get ég ekki látið óátalið, og það er þessi samanburður, að mjólkursölun. skuli hafa eins óbundnar hendur til þess að selja hverjum, sem hún vill, mjólk og verkamenn hafa frjálsar hendur til þess að selja vinnuafl sitt hverjum, sem þeir óska. Hér er mjög ólíku saman að jafna. Mjólkursamsalan hefur með sérstökum lögum fengið einkarétt til þess að selja þessa vöru á markaðinum í Hafnarfirði og í Reykjavík. Enginn annar má koma með þessar vörur og selja þær á þessu svæði en samsalan, enda þótt ýmsum, sem koma ekki með mjólk til samsölunnar, væri vel mögulegt að koma með mjólk og selja á þessu svæði. En þeir voru með 1. útilokaðir frá því að koma með þessar vörur sínar til að selja þær á þessu svæði. Og vegna þessa ákvæðis mjólkurl. frá 1935, sem ég skal nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa, er samsalan líka skyldug til að sjá þessum mjólkurverðlagssvæðum fyrir nægri mjólk. En upphaf 7. gr. þeirra l. hljóðar svo: „Skylt er mjólkurbúum, sem fengið hafa einkaleyfi til að starfrækja mjólkurbúðir, að sjá um, að ætíð sé nóg neyzlumjólk til sölu á þeim stöðum“. Og samtímis því, sem l. mæla svo fyrir, að þessi samtök séu skyld til þessa, þá leyfir stjórn mjólkursamsölunnar hér sér það að taka af þessu mjólkurmagni, sem þó er ekki nægilegt til þess að fullnægja eftirspurninni meðal Íslendinga, og láta aðra aðila fá það. Hér stappar nærri, að um lögbrot sé að ræða.

Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að þessi þáltill. væri ekki aðeins ástæðulaus, heldur jafnvel beinlínis skaðleg. Og ef það er ástæðulaust eða beinlínis skaðlegt að reyna að halda þeim mönnum að l., sem hafa fengið sérréttindi í þjóðfélaginu og þá um leið tekizt á hendur vissar skyldur, þá ætla ég, að það fari að gerast vandlifað í okkar þjóðfélagi.

Hvað því viðvíkur, að hér hafi margir hallað sér að vinnu hjá setuliðinu fremur en að stunda vinnu við framleiðslu landbúnaðarafurða í sveit, þá má líka benda á það, að úr sveitunum hafa æði margir komið til þess að stunda þessa vinnu og það einnig nú í ár og jafnvel enn í dag. En þar er það ólíkt með starfsemi verkafólks að setuliðsvinnu annars vegar og sölu mjólkur frá mjólkursamsölunni hins vegar, að annars vegar eru samtök, sem hafa fengið lögverndaðan rétt og líka skyldur, sem þau eiga að gegna, en hins vegar er algerlega frjálst val verkamannanna sjálfra, ólögbundið að öllu leyti.

Ég skal svo ekki fara lengra út í það nú að ræða þetta mál, vegna þess að hæstv. forseti hefur óskað eftir, að umr. yrðu sem stytztar, þó að freistandi væri að fara um þetta fleiri orðum.