27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í D-deild Alþingistíðinda. (3618)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er nú kunnugt mál, að síðan mjólkurl. voru samþ., hefur það verið ein af meinsemdunum, sem kvartað hefur verið yfir, að ekki væri hægt að selja alla framleiðsluna, sem til boða væri til sölu, hér í höfuðstaðnum. Þegar litið er á þetta, þá er rétt að athuga það í sambandi við það, sem hér er talað um, að mjólkurskortur sé í bænum. Og í þessari þáltill., sem fyrir liggur, er lagt til, að komið verði í veg fyrir, að mjólk sé seld til setuliðsins. Hv. síðasti ræðumaður sagði, að hann kæmi ekki auga á nema tvö ráð til þess að bæta úr mjólkurskortinum hér í bænum, — annað væri að afnema mjólkursöluna til setuliðsins, eins og farið er fram á með þessari þáltill., en hitt ráðið væri að taka upp skömmtun á mjólk.

Ég kvaddi mér hljóðs aðallega til þess að mótmæla einni fjarstæðu í ræðu hv. 2. þm. S.M. Hann sagði eitthvað á þá leið, að það væri fullkomlega ómögulegt að draga saman mjólk af stórum svæðum til neyzlu hér í Reykjavík fram yfir það, sem nú er gert. Ég álít þetta fullkomlega fjarstæðu, því það er að mínu áliti ekkert því til fyrirstöðu, að hægt sé að flytja mjólk hingað til Reykjavíkur frá Snæfellsness- og Hnappadalssýslu, Dalasýslu og Húnavatnssýslu. En þessi héruð eru útilokuð frá því að mega selja hingað mjólk, og liggur bann við því, að þessi héruð megi verzla hér með þá vöru. En ráðið, sem til er, til þess að koma í veg fyrir, að mjólkurskortur hér í bænum endurtaki sig, er hins vegar að taka þessi héruð öll inn á verðlagssvæðið, og þess mun verða krafizt, a. m. k. af mér og öðrum fulltrúum þessara héraða. En til þess að þessi héruð hafi gagn af því að vera tekin inn á mjólkurverðlagssvæði Reykjavíkur, þarf áreiðanlega að setja niður þá óánægju, sem hér á sér stað í mjólkursölumálunum. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að úr beztu sveitum Húnavatnssýslu sé hægt að flytja mjólk samdægurs til Reykjavíkur á 9–10 klst., og því fremur er hægt að flytja mjólk úr Snæfellsnessýslu og Dalasýslu hingað á markaðinn. Þegar við því erum að tala um hagsmuni bænda, má ekki einblína á hagsmuni þeirra, sem eru í nágrenni Reykjavíkur, því að það verður líka að taka tillit til hinna, sem enn þá er algerlega bannað að selja mjólk og mjólkurafurðir hér í Reykjavík. Ég vil víkja því til þeirrar n., sem væntanlega fær þessa þáltill til meðferðar, að hún taki málið fyrir frá þeirri hlið, sem ég hef vikið hér að.

Að öðru leyti skal ég ekki blanda mér í þær deilur, sem hér hafa átt sér stað, a. m. k. ekki að þessu sinni.