27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (3622)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Eysteinn Jónsson:

Mér blöskraði ræða hv. 6. þm. Reykv. Hann hélt því fram, að allt öðru máli væri að gegna um dreifingu vatns og rafmagns en dreifingu mjólkur. Bændur væru skyldir að selja mjólk til Reykjavíkur, en ef bærinn teldi sér hagkvæmara að selja rafmagn til setuliðsins, þá væri ekki annarra að skipta sér af því. Mér þætti fróðlegt að vita, hvort þær húsmæður, sem varla geta eldað matinn vegna rafmagnsskorts, væru þessu samþykkar — eða þá þeir iðnrekendur, sem verða að láta vélar sínar stöðvast af sömu orsökum. Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að Reykvíkingar hefðu sjálfir talið þetta fyrirkomulag hagkvæmt. Hann sagði og, að öll gögn lægju fyrir um þetta mál. Ég mótmæli því. Ég veit ekki til, að upp hafi fengizt, hve mikið rafmagn eða vatn hefur verið selt. Ég hef það fyrir satt, að hæstv. ríkisstj. hafi spurzt fyrir um það hjá bæjarstj., hve mikil brögð væru að þessu, vegna fyrirspurnar á Alþ., og ríkisstj. getur ekki svarað, vegna þess að hún fær ekki þessa vitneskju. Ég er ekki að segja þetta af því, að ég telji það fráleitt að selja setuliðinu rafmagn, heldur til þess að sýna málflutning hv. 6. þm. Reykv.

Það væri annars fróðlegt að vita, hvað hv. 6. þm. Reykv. meinar með því, að fljótlega muni verða úr þessu bætt. Ég hef spurzt fyrir um þetta hjá rafveitunni og fengið það svar, að úrbótar geti ekki verið að vænta fyrr en um áramót í fyrsta lagi. Þessi málflutningur hv. 6. þm. Reykv. sýnir, hvernig allt er í pottinn búið. Og andstæðingar hans kyngja þessu eins og sælgæti, og hv. 3. landsk. telur þetta til fyrirmyndar um það, hvernig eigi að svara, þegar ekki er allt með felldu.

Hv. þm. A.-Húnv. hélt því fram, að ég hefði sagt, að ekki væri hægt að flytja hingað mjólk úr Snæfellsnes-, Dala- og Húnavatnssýslum. Þetta er misskilningur hjá hv. þm., en hins vegar sagði ég, að fara mætti nærri um, hvernig hljóðið yrði í hv. þm. Hafnf. um gæði mjólkurinnar, ef farið yrði að flytja hana að um langa leið. Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að það væri ósk sín, að þessi viðskipti gætu hafizt, en þá yrði líka að lægja ofstopann í mjólkurmálunum. Mér er nú ekki kunnugt um, að þessi hv. þm. hafi gert annað en hella olíu í eldinn.

Ég vil að lokum segja við hv. 3. landsk., sem skaut því fram, að menn mundu brátt æskja eftir meiri setuliðsvinnu, að mér kæmi ekki á óvart, þó að hann og aðrir óskuðu bráðlega eftir því, að mjólkurkaup setuliðsins yrðu meiri en þau eru nú, þegar því er slegið föstu, að bændur eigi að fá tiltekið verð fyrir mjólkurframleiðslu sína, en það byggist á því, að salan aukist, eftir því sem verðið verður lægra. Hv. þm. beindi því til mín, hvort ég héldi, að till. væri flutt af fjandskap við bændur. Nei, ég vil ekki halda því fram, en hinu held ég fram, að mjólkurmálin hafi verið flutt hér af blindu hatri af hálfu Sjálfstfl. og kommúnista. Út af þessum málflutningi hefur skapazt sá ókyrrleiki, sem um það hefur verið hér í bænum, og þeir, sem þessa till. hafa flutt, hafa svo viljað sýna með flutningi hennar, að þeir séu ekki minni menn en hinir. Þannig hef ég viljað skýra hina mjög svo breyttu afstöðu þeirra upp á síðkastið og allt það óðagot, sem kemur fram í því, að till. er þannig úr garði gerð, að hún þarf jafnvel að dómi þeirra sjálfra gerbreytingar við.

Að svo mæltu vil ég biðja hæstv. forseta afsökunar á því, að ég hef talað fram yfir tímann.