02.11.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í D-deild Alþingistíðinda. (3630)

109. mál, vinnutími í vaga- og brúavinnu

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, tókust samningar síðastliðið vor milli ríkisstj. og Alþýðusambands Íslands um, að átta stunda vinnudagur skyldi koma til framkvæmda þar, sem ákvæði væru um það í kaupsamningum verklýðsfélaga, og mun það ákvæði vera í samningum nær allra verklýðsfélaga landsins. Sá tími, sem unninn yrði yfir átta tíma á dag, skyldi greiddur með eftirvinnukaupi.

Í þessari þáltill. er lagt til, að þessu verði breytt og tíu stunda vinnudagurinn tekinn upp aftur. Reynslan hefur þótt sanna, að þetta er ekki heppilegt fyrir verkamenn, sem þessa vinnu stunda fjarri heimilum sínum. Þeir geta ekki hagnýtt sér hinn langa hvíldartíma á fjöllum uppi. Vinnutíminn styttist aðeins, og þeir bera minna úr býtum en ella. Síðastliðið sumar kom þetta víða illa við, sökum þess að mannafli var af skornum skammti, eins og kunnugt er, til vega- og brúavinnu. Hefur þessum framkvæmdum því miðað minna áfram en ella.

Í sumar bárust vegamálastjórninni áskoranir frá um 700 verkamönnum, þar sem farið var fram á, að þessu yrði breytt og vinnutíminn lengdur. Yfirlýsing vegamálastjóra um það, hvernig þetta verkaði, er í samræmi við það, sem ég hef tekið fram.

Ég vil taka það fram, að því fer mjög fjarri, að flm. till. þessarar vilji snúast gegn átta stunda vinnudegi yfirleitt. Það er hér aðeins um að ræða lagfæringu í þessum efnum, þar sem telja má, að styttri vinnutími en átta stundir sé óhollur verkamönnunum þar, sem aðstæður eru óþægilegar, t. d. á fjöllum uppi.

Að lokum vil ég óska, að allshn. fáið málið til meðferðar, því að réttara tel ég, að það fari til nefndar.