02.11.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í D-deild Alþingistíðinda. (3631)

109. mál, vinnutími í vaga- og brúavinnu

Sigurður Guðnason:

Ég er samþykkur frsm. að vísa málinu til nefndar. — Ég vildi taka fram það, sem athugavert er við þetta mál.

Í fyrsta lagi: Alþýðusambandið samdi s. l. vor hvorki um kaup né kjör að öðru leyti en því, að laun væru samræmd, eftir því sem við varð komið, samkvæmt óskum frá vinnustöðvunum. Hækkun næturvinnukaups var ákveðin vegna heilbrigðislegra ástæðna. Þá er yfirvinna, þegar svo stendur á, að flýta þarf verki. Þetta er fyrirbrigði stríðsáranna, sem varð til af nauðsyn á að fá vinnukraft, og geta menn verið fullvissir um, að hvorki Alþýðusambandið né aðrir munu gera samninga á þessu sviði. Þetta er sjúklegt kapphlaup um vinnuorkuna.

Úti um sveitir óskuðu verkamenn að fá að vinna af sér vinnuvikuna á fimm dögum. Þeir fá hér um bil alls staðar að vinna af sér ½ laugardagsins hina daga vikunnar. Það voru margir verkstjórar, sem vildu fá að vinna af sér allan laugardaginn, en yfirleitt var þeim neitað um það, í beinni óþökk við þá, sem hlut áttu að máli.

Nú liggja fyrir líkur til þess, að þessir samningar, sem gerðir voru í vor, hafi ekki verið vel haldnir. Skora ég hér með á n., sem málið fær til athugunar, að hún athugi það mál nákvæmlega, hvort sá orðrómur hefur við nokkuð að styðjast.

Vil ég að lokum taka undir það, að málinu verði frestað, unz fleiri rök koma fram í því.