02.11.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í D-deild Alþingistíðinda. (3632)

109. mál, vinnutími í vaga- og brúavinnu

Finnur Jónsson:

Þessi till. er ekki heppileg fyrir stjórn Alþýðusambandsins. Hún stefnir að því að rífa niður kjarabæturnar um átta stunda vinnudag, Hún er bein árás á verkalýðssamtökin.

Verkamenn fóru fram á að fá að vinna af sér laugardaginn hina daga vikunnar. Fyrir þá, sem heima áttu í sveitinni, var þetta hið mesta hagræði. En vegamálastjóri neitaði því. Eini árangurinn af þessu varð sá að gera verkamennina sem allra óánægðasta með samningana. Hafi verk tafizt, getur orsökin legið þarna, því að ekki er hyggilegt, að verkstjórinn geri verkamennina óánægða, ef hann vill láta verkið ganga vel.

Ég sé í bréfi Alþýðusambandsins til Alþingis, að það segist hvorki geta né vilja láta eyðileggja þannig þann árangur, sem náðst hefur með ærnu erfiði í þessu efni. Þetta er árás á verkalýðinn og leið til að vekja stórdeilur.

Ef hins vegar flm. ætlar með þessu að viðurkenna átta klst. vinnudag að viðbættum tveim klst. með eftirvinnukaupi, er rétt, að hann segi til þess, og skora ég á hann að gera það.