02.11.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í D-deild Alþingistíðinda. (3634)

109. mál, vinnutími í vaga- og brúavinnu

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Eitt aðalatriðið, sem fram kom í ræðu hv. 11. landsk. þm. og hv. þm. Ísaf., var, að samningar þeir, sem Alþýðusambandið gerði við ríkisstj., hefðu ekki verið haldnir. Ef það er þannig, þá verða þeir að fá einhvern til að sakast við, og vildi ég ráðleggja þeim að snúa sér ekki til verkamannanna, sem mótmælin komu frá, heldur að vegamálastjórninni sjálfri. Frá vega- og verkamönnunum sjálfum var það, sem óánægjuraddirnar komu.

Ég fullyrði, að því fer fjarri, að nokkuð hafi verið gert í þessu fyrir forustu vegamálastjóra. Það er hægt að fullvissa sig um þetta með því að kynna sér mótmælin, sem liggja fyrir víðs vegar að. Þetta getur ekki skoðazt sem árás á verklýðssamtökin, þar sem óánægjuraddirnar komu frá verkamönnunum sjálfum, eins og jeg hef áður tekið fram.

Ég vil drepa á atriði, sem kom fram bæði hjá hv. 11. landsk, og hv. þm. Ísaf., að vegamálastjóri hafi neitað verkamönnum um að vinna af sér á fimm dögum. Til þess gátu legið ýmsar orsakir. Það skapar talsvert los, ef þeir eru ekki við nema fimm daga og fara svo frá. Verkamönnum er ekkert gagn að einum degi, sem þeir fá þannig. Meðal verkamanna, sem stunda vegagerð, er mikill hlutinn utansveitarmenn. Hverjir geta hugsað sér, að þeir fari að vinna landbúnaðarstörf á laugardögum? Víða hagar því svo til, að þessir menn komast ekki neitt og þeir geta ekki einu sinni eytt peningum sínum, sem þeir eru búnir að vinna fyrir þessa fimm daga vikunnar, — þeir hafa alls ekkert að gera sjötta daginn. Nei, ég veit, að Alþýðusambandið hefur sett þessa kröfu fram til þess að setja eitthvað fram en að það hafi trú á, að það komi að nokkru liði.

Ég vil svo rétt benda á það, að mig minnir, að hér á síðasta sumri væri samþ. hér á Alþ. þáltill. þess efnis, að ríkisstj. væri falið að semja við verklýðssamtökin um ráðstafanir vinnuaflsins í landinu og mörg atriði í því sambandi, þar á meðal um átta stunda vinnudag þar, sem það á við. Með samþ. þeirrar þáltill., sem hv. þm. Ísaf. og hv. 1. landsk. þm. stóðu að ásamt okkur tveimur af flm. þessarar þáltill., er því slegið föstu, að átta stunda vinnudagur eigi alls ekki alls staðar við. Og ég segi það hiklaust sem mína skoðun, að það fer svo fjarri, að ég telji nokkra hliðstæðu vera á milli óhollrar verksmiðjuvinnu í stærri bæjum við óholla aðstöðu annars vegar og vegavinnu og brúavinnu yfir hásumartímann hins vegar. Og þessir hv. þm. sjá einnig, að um hliðstæður er þarna alls ekki að ræða. Og það er þess vegna allt annar hlutur að borga eftirvinnu, sem unnin er fram yfir átta stunda vinnutíma á dag í kaupstöðum við erfiða og óholla vinnu, en að taka yfirvinnukerfið upp í sveitum, þar sem unnið er á þeim tíma, þegar veðurfar er blíðast og bezt.

Ég tel svo ekki þörf á að fara um þetta miklu fleiri orðum. Ég vil aðeins undirstrika það sem aðalatriði þessa máls, að þau frávik, sem gerð hafa verið frá samningum um þetta efni, hafa fyrst og fremst orðið vegna þess, að verkamenn sjálfir í þessari vinnu hafa séð, að þessir samningar áttu ekki við þarna og að þar var um allt aðrar aðstæður að ræða en þær, sem átta stunda vinnudagurinn var miðaður við. Og viðvíkjandi því, sem hv. þm. Ísaf. sagði og virtist álíta, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, væri framhald af árás, sem þegar væri hafin í garð verkamanna, þá er af hálfu okkar flm. málsins alls ekki um neina slíka árás hér að ræða, heldur tilraun til þess að færa til lags það, sem miður fer í þessum efnum. Það er vitað mál, að margháttaðar nauðsynlegar framkvæmdir bíða þess, að það sé hægt að snúast við þeim, og það vantar fólk til þess að vinna þær. Það eru heilir landshlutar, sem eru ekki komnir í akvegasamband við aðalþjóðvegina, það eru óbrúaðar stórár, og það eru óbyggð ýmis mannvirki þessu lík, sem aðkallandi þarf að byggja. Það er vitað hins vegar, að þessi átta stunda vinnudagur í sveitum fælir fólkið frá þessum störfum og skerðir möguleikana til þess, að þessar framkvæmdir komist fram. Það er til þess að lagfæra þetta ástand, sem við flytjum þessa þáltill., en ekki sem árás á réttindi, sem verklýðssamtökin í landinu hafa aflað sér.