02.11.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (3635)

109. mál, vinnutími í vaga- og brúavinnu

Sigurður Guðnason:

Ég er alveg sammála hv. þm. Barð. um það, að það er hagur fyrir vinnuveitandann í flestöllum tilfellum að láta ekki vinna nema átta stundir á dag. Og ég er viss um, að hver einasti maður, sem unnið hefur og vinnur að vegagerð og öðru, afkastar meira verki á átta tímum yfir daginn en tíu tímum, og ég skal geta látið vinna meira með tíu mönnum í átta tíma en með átta mönnum í tíu tíma.

En hitt, að vinnutíminn í dagvinnu hefur verið ákveðinn átta tímar hjá flestum verklýðsfélögum, kemur til af því, að það er tíminn, sem menn yfirleitt álíta, að þeir þurfi að vinna á dag til þess að vinna sér til lífsframfæris. Og ég er sannfærður um, að ef vinnan er við arðvænleg störf, þ. e., ef vinnan er yfirleitt af viti, þá eiga menn að geta unnið fyrir sér með því að vinna átta stundir á dag. En vinna á tímanum milli kl. 5 og 8 að kvöldi er samkomulagsatriði milli vinnuveitenda og verkamanna. En svo er til tekið, að ef þeir vilja vinna fram yfir þetta, verði þeir að fá sérstakt leyfi til þess. Og verkamenn hafa gert kröfu um þetta fyrirkomulag, án þess að utan að komandi áhrif hafi valdið þar nokkru um, því að hér í Reykjavík og nágrenni var unnið í átta tíma. En þessir menn, sem hafa gert uppreisn gegn átta stunda vinnudeginum, þeir hafa í ár fengið þriðjungi hærra kaup fyrir átta stunda vinnu á dag nú en þeir fengu fyrir tíu stunda vinnu næsta ár á undan, svo að það er eitthvað skrítið, að þeir menn skuli vera miklu óánægðari með átta stunda vinnudaginn en menn, sem hafa búið við þetta lengur. Ég er trúaður á það, að það hafi verið fyrir utan að komandi áhrif frá vegamálastjóra eða umboðsmönnum hans, sem þessir menn, sem viljað hafa breyt. á þessu, hafa gert kröfu um þá breytingu.

Ég er ánægður með, að þetta mál fari í n. Og ég vona, að n., sem fær það til meðferðar, taki skynsamlegum tökum á málinu. Hitt er annað mál, að Alþýðusamband Íslands sem slíkt mun ekki taka að sér samninga til þess að semja af einstökum félögum, og ég veit líka, að enginn hv. flm. þáltill. ætlast til þess.