02.11.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í D-deild Alþingistíðinda. (3636)

109. mál, vinnutími í vaga- og brúavinnu

Finnur Jónsson:

Það var mjög ánægjulegt að heyra þann ágæta skilning, sem hv. þm. Barð. hafði á átta stunda vinnudeginum. En eins var leitt að heyra, hve lítinn skilning hv. 1. flm. þessarar þáltill., hv. þm. N.-Ísf., hafði á því, sem hann talaði hér um. Hann var að jafna því saman, að það væri allt annað mál, hvort unnið væri í átta stundir á dag í óhollri verksmiðjuvinnu eða í heilnæmri vegavinnu uppi á fjöllum. En nú er það svo, að átta stunda vinnudagurinn hér á landi er ekki eingöngu við óholla verksmiðjuvinnu, eins og þessi hv. þm. virðist halda, heldur er hann viðurkenndur í allri almennri daglaunavinnu, sem unnin er, hvort sem það er heldur vegagerð eða vinna við fisk eða annað slíkt, sem er engu óhollari en venjuleg vegavinna. Það er þess vegna misskilningur hans eða fáfræði, sem veldur því, að hann skuli ekki vita það, að átta stunda vinnudagurinn gildir víðast hvar um allt landið í almennri verkamannavinnu. Hins vegar er nú unnið sums staðar í verksmiðjum miklu lengur en átta tíma á dag, og meira að segja eru tólf tíma vaktir í síldarverksmiðjum ríkisins, og er það satt að segja ósvinna.

Hv. þm. N.-Ísf. segist ekki furða sig á því, þó að vegamálastj. hefði ekki liðkað neitt til fyrir verkamönnum, þar sem þeir óskuðu eftir því, með því að leyfa þeim að vinna af sér vikuvinnutímann á fimm dögum, vegna þess að þetta væri ósiður. Nú mun þetta samt tíðkast í sumum skrifstofum og jafnvel víðar, að það er ekki eingöngu dagvinnutíminn, sem er látinn ráða, heldur er mönnum leyft, ef þeir óska sérstaklega eftir því á vissum tíma ársins, að vinna af sér vinnuvikuna á eitthvað skemmri tíma. Og þó að vegamálastjóri, eftir óskum verkamanna þar, sem farið var fram á það, hefði leyft þeim þetta, þá fæ ég ekki skilið, að það hefði verið nein goðgá, þó að þeir á þennan hátt hefðu fengið tvo hvíldardaga í vikunni, sem þeir notuðu til skemmtunar og hressingar eða þá til þess að bæta eitthvað eða laga til á heimilum sínum. Nú vil ég ekki segja, að það væri góð regla að taka þetta upp. En þar sem sannanlega hefur í sumar s. l. vantað menn til þess að vinna að landbúnaðarstörfum, þá hefði það í þessu sérstaka ástandi, sem við lifum við nú, getað kannske létt eitthvað undir með einhverjum vegna verkamannaskorts við landbúnaðarstörf. Og þó að vegamálastjóri hefði tekið sig til og reynt að gera verkamennina ánægða og létt þannig undir með þeim, sem vantar verkamenn í sveit, þá sé ég ekki, að það væri nema kostur á hans ráði. En þessu neitaði vegamálastjóri alveg. Og framkvæmdir hans eru þannig, að það sýnist svo sem hann hafi gert allt, sem hann gat, til þess að verkamenn yrðu óánægðir með átta stunda vinnudaginn. Og það er hægt með ýmsu móti fyrir þá, sem vilja það við hafa, að reyna að gera verkamenn óánægða með kjarabætur, sem þeir hafa fengið, með því að reyna að láta framkvæmdirnar fara svo úr hendi, að þær verði sem allra stirðastar. Ég veit dæmi þess, að verkamenn eru ekki ánægðir með orlofsl., sem þó eru einhver mesta kjarabótalöggjöf, sem samþ. hefur verið þeim til handa. Ástæðan til þeirrar óánægju er m. a. sú, að sumir, sem með framkvæmd þeirra hafa að gera, reyna að koma svo fyrir framkvæmd þeirra 1., að hún verði sem allra stirðust og leiðinlegust og verkamönnunum sjálfum til óánægju. Ég segi ekki, að vegamálastjóri hafi reynt að brjóta á mönnum samninga, en ég ætla, að framkvæmd samninganna hafi verið með þeim hætti, að maður hafi fulla ástæðu til að halda, að hún hafi verið gerð þannig beinlínis til þess að gera verkamenn óánægða með kjarabætur, sem þeir voru búnir að vinna gegnum sinn félagsskap.