26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í D-deild Alþingistíðinda. (3662)

113. mál, uppbót á landbúnaðarafurðum

Flm. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Það lítur út fyrir, að sumir menn hér á Alþ. séu orðnir svo hvumpnir, að ef minnzt er á eitthvert mál, sem við kemur sveitunum, og þeir bera það ekki fram sjálfir, þá halda þeir, að það sé verið með ofsóknarherferð á bændur.

Ég fæ ekki skilið, að ekki megi vita, hvernig uppbæturnar skiptast á héruð og bú á landinu, án þess að það sé skoðað sem eltingarleikur við bændur og ákúrur gagnvart þeim. Mér finnast svona ummæli ekki vera svaraverð, eins og hér hafa komið fram frá þessum mönnum í þessu máli. Það hefur hingað til þótt viðeigandi, að hægt væri að gefa skýrslur um það, hvernig með fé úr ríkissjóði væri farið. Og það sýnist ekki úr vegi að fá að vita, hvernig þetta fé hefur skipzt, sem greitt hefur verið í uppbætur á landbúnaðarafurðir.

Ég mótmæli því alveg, að þetta mál sé nokkur ofsóknarherferð á hendur bændum, og vil biðja þá, sem hafa haldið því fram, og sérstaklega hv. 2. þm. N.-M., að taka þau ummæli aftur.

Ég vil geta þess, að með vilja var þessi þáltill. orðuð nokkuð öðruvísi en þáltill., sem samþ. var 31. ágúst 1942. Og ef þeir, sem hér hafa talað, muna eftir þeirri þáltill., mundu þeir geta skilið, hvers vegna þetta er dálítið öðruvísi orðað. Í þál. frá því í ágúst 1942 er sagt, með leyfi hæstv. forseta, að það eigi að greiða uppbætur „til þess að útflytjendur fái sama verð fyrir það kjöt, komið í skip í útflutningshöfn, eins og heildsöluverð er á kjöti á innanlandsmarkaði á sama tíma“. Þar er gert ráð fyrir, að útflytjendum sé greitt, en ekki bændum, verðjöfnun á kjötinu. Síðar í þál. er svo talað um gæruuppbætur og ullaruppbætur, og það er komið til af því, að það á að greiða verðuppbætur á ull og gærur, sem afhentar eru til útflutnings 1942, og virðist miðað við það, að framleiðendur fái hlutfallslega ekki lægra verð fyrir þessar vörur en þeir fengu árið 1940 o. s. frv. Það er m. ö. o. þannig, að því er slegið föstu í þál., að útflytjendur eigi að fá kjötuppbótina, en bændur eigi að fá uppbótina á ull og gærur. Geta þeir hv. forsvarsmenn bænda skýrt það, hvers vegna þessu er skipt þannig? Hvers vegna má ekki ákveða, að það séu bændur sjálfir, sem fá uppbæturnar á þessar vörur allar, en ekki útflytjendurnir? Í þáltill. þeirri, sem nú liggur hér fyrir til umr., er þetta gert það einfalt, að það er lagt fyrir ríkisstj., að framleiðendur fái uppbæturnar beint til sín (SkG: Ekki allir). Og ef það er hægt að hártoga þessa þáltill., þá get ég lýst yfir því fyrir mitt leyti, að ég mundi fúslega fallast á orðalag á henni, sem væri það ótvírætt, að ekki yrði álitið, að hún yrði hártoguð. Fyrir mér vakir það ekki sérstaklega, að till. verði samþ. endilega með nákvæmlega þessu orðalagi, sem á henni er, og ég þykist vita, að þar tali ég fyrir munn okkar allra flm. þáltill., þó að ég hafi ekki haft tækifæri til að bera mig saman við þá um þetta, heldur vakir hitt fyrir mér og er aðalatriðið, að skýrslur fáist um það til Alþ., að uppbæturnar komi til þeirra, sem eiga að fá þær, sem vitanlega eru framleiðendur varanna.