26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (3666)

113. mál, uppbót á landbúnaðarafurðum

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Mér er óskiljanlegt, hvernig stendur á því, að ekki má láta almenningi í té skýrslu um það opinberlega, hvernig þessar uppbætur skiptast niður á einstaka framleiðendur í landinu. Mér datt ekki í hug, að nokkur maður mundi ganga á móti því, og þær mótbárur, sem hér eru bornar upp, er erfitt að sanna. Einn hv. þm. segir, að þetta sé ekki hægt, vegna þess að þetta sé um garð gengið, það sé búið að greiða þetta fé. Og þá á þetta ekki að vera hægt, sem farið er fram á í þáltill., rétt eins og þetta hafi verið greitt til bænda án þess að taka kvittanir fyrir. En þar sem ég geri ekki ráð fyrir, að það hafi verið greitt án þess, ætti að vera auðvelt að fá þetta fram. — Annar segir, að þetta, sem hér er borið fram, sé í svo miklu ósamræmi við það, sem til var ætlazt, að ekki sé hægt að láta þessar upplýsingar í té. — Sá þriðji segir, að listinn yfir þetta mundi verða svo langur, að það mundi ekki verða hægt að lesa hann. Það eru hans rök, því að þarna séu þrettán þúsund og nokkrir menn, sem um sé að ræða, það sé því engin leið að lesa hann. Og svo á grundvelli þessara ákaflega sterku raka(!) heldur hv. þm. Mýr. því fram, að þessi þáltill. sé óframkvæmanleg og óþörf, og vill vísa henni frá umr. og afgreiðslu.

Ég skil nú ekki, hvaða hag fulltrúar bænda hafa af því að neita almenningi um að fá að vita, hvernig 15,5 millj. kr. hefur verið skipt á milli landsmanna. Með þessari till. er ekki farið inn á það, að hverfa eigi frá þessum uppbótagreiðslum eða neitt slíkt, vegna þess að þetta er þegar ákveðið áður, að vísu með till., sem ákaflega mikið var flaustrað gegnum þingið og illa var orðuð, þannig að ég býst við, að menn séu búnir að leggja sinn skilning í það mjög svo óljósa orðalag, sem gildi. Það er ekki heldur ætlunin með þessari till. að ákveða um það orðalag.

En um það, að það séu ekki aðrir en bændur, sem eigi að fá þessar uppbætur eftir þessari þáltill., er það að segja, að það er vitanlega fjarstæða, sem ekki er hægt að taka alvarlega. Þáltill. þessi er svo skýlaus, að það er ekki hægt að misskilja hana. Framleiðendur þessara vara, sem um ræðir í þáltill., eru kallaðir bændur. Maður getur sagt, að sá launamaður, sem er í kaupstað og á skepnur eða hefur búskap, sé bóndi að því leyti, og það er heimilt að nota um hann orðið bóndi í þessu sambandi. Og það er ætlazt til þess, að skrá sé gerð yfir alla, sem hafa fengið þessar uppbætur úr ríkissjóði, en þar sé engin undantekning gerð.

En önnur hlið þessa máls, sem fyrir okkur flm. vakti líka, er sú, sem snýr að bændunum sjálfum, en það er, að þessar uppbætur fari til þeirra, sem framleitt hafa þessar vörur, og það sem stytzta leið, sem sagt sem allra beinast úr ríkissjóði til þeirra, sem þær eiga að fá, en að kaupfélög og Samband íslenzkra samvinnufélaga geti ekki hnoðað þetta fé milli sín til þess að fá af þessu fé vexti í eitt eða tvö eða jafnvel í þrjú ár. Við vitum, hvers kyns hraði á því hefur verið, þegar Samb. ísl. samvinnufélaga hefur átt að koma fé áleiðis. Og við vitum, með hvílíkri ófyrirleitni því fyrirtæki er stjórnað. Og þess vegna er full ástæða til þess, að þingið tryggi sér það, þegar það er búið að ákveða, að greiða skuli 15,5 millj. kr. úr ríkissjóði af fé til bænda, að þessum félögum sé ekki leyft að hnoða því fé á milli sín ár eftir ár. Ég tel fulla ástæðu til að ætla, þrátt fyrir það að hv. þm. Mýr. segi, að búið sé að borga þetta fé til bænda, að það sé ekki rétt. En sé það rétt, er ákaflega auðvelt að gefa afrit af þeim kvittunum, sem frá þeim hefur verið tekið á móti, sem eiga að fá þessar uppbætur. Ég býst við, að þeir séu fáir, sem búnir eru að fá þetta fé, en þó eiga að fá það. En hæstv. Alþ. getur vitanlega ekki fallizt á, að þessi félög, sem ég hef nefnt, séu lengi að hnoða þetta fé á milli sín og taki þannig vexti af ríkisfé.