26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í D-deild Alþingistíðinda. (3667)

113. mál, uppbót á landbúnaðarafurðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er vert að taka eftir því, sem hefur komið fram hjá hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Siglf. Sá fyrrnefndi kemur nú fram og lýsir yfir, að hann sé því samþykkur, að í staðinn fyrir orðið „bændur“ komi framleiðendur landbúnaðarvara eða eitthvað slíkt. Viðurkennir hann þar með að hafa hlaupið á sig. Hann er því sá iðrandi maður, sem játar sína yfirsjón og vill bæta úr. — En hv. þm. Siglf., sem er lögfræðingur, vill láta alla, sem eiga kindur, heita bændur — og vill þá víst kalla þá sauðbændur í virðingarskyni, sbr. grg. fyrir till. Ég virði hv. þm. Ísaf. fyrir afstöðu hans, því að ég veit, að hún lýsir drengskap hans, en afstöðu þm. Siglf. get ég ekki virt.

Hv. þm. Ísaf. spurði, hvernig skilja bæri, að þál. talaði um að borga uppbætur á kjötið til útflytjenda, en á ull og gærur ætti að borga uppbótina til framleiðenda. Mér skildist hann ekki skilja, af hverju þetta er orðað svo. Nú var ég ekki flm. þessarar till. og meira að segja greiddi ekki atkv. með henni, en svo mikið er ég þó inni í íslenzkum verzlunarháttum, að ég skil, á hverju þetta er byggt. Hann veit það vafalaust, að ekki er flutt út kjöt frá öllum verzlunum landsins og það er hending, hvaða verzlanir það eru, sem tekið er frá kjöt til útflutnings. Hann veit líka, að það fer ekki nema nokkur hluti af kjötinu út. Ég hugsa mér, að hann, sem er dálítið vanur útgerð, muni t. d. einhvern tíma hafa selt saltsíld fleirum en einum kaupanda, og er hér um bil alveg viss um, að hver tunna hefur ekki verið gerð upp eftir því til innleggjenda, hver fékk hana. Það, sem hér er um að ræða, er það, að einn flytur eitthvað út af kjöti, selur nokkuð á staðnum og nokkuð til Reykjavíkur og á það útflutta koma uppbætur. Allt, sem inn kemur fyrir kjöt, gerir meðalverð, alveg eins og fyrir síldina. Þess vegna er ómögulegt að segja, hvaða maður átti kjötið, sem flutt var út. Það varð að koma sem meðalverð, af því að það fékkst minna fyrir útflutta kjötið en fékkst fyrir það á innanlandsmarkaðinum. Þess vegna þurfa útflytjendur að fá uppbætur, því það er ekki hægt að segja, hvaða framleiðandi á að fá þær. Þess vegna er með nokkrum rétti hægt að segja, að uppbætur á útflutt kjöt séu á allt selt kindakjöt í landinu. Hvað gærurnar snertir, kemur hver einstakur framleiðandi fyrir sig, og uppbæturnar eru borgaðar til hans gegnum útflytjendur. Ég get ekki skilið, hvernig hv. þm. Ísaf. ætlast til þess, að engir milliliðir séu milli útflytjenda og framleiðenda, sem taki við uppbótunum. Það er einn gæruútflytjandi hér, sem flytur árlega út lítinn hluta af gærunum, en það eru allt gærur, sem þannig eru til komnar, að þær eru af heimaslátruðu fé þrjár, fjórar eða fimm frá hverjum manni, og á þann hátt fær hann þessar 1000–2000 gærur, sem hann flytur út. Hvernig ætlast hv. þm. Ísaf. til þess, að einhverjir bændur austan úr sýslum, sem láta þrjár til fimm gærur til útflutnings, fari í ríkissjóðinn og fái uppbætur á þær. Ekki getur hann sannað, að hann hafi flutt þær út, og ekki, fyrir hvaða verð. Mér skilst, að óhjákvæmilegt sé að hafa milliliðinn. Hann flytur út og fær uppbæturnar. Annars eru útflytjendur tiltölulega fáir, en það er ekki rétt hjá hv. þm. Ísaf., þegar hann í þessu sambandi talar um, að það sé bara um samvinnufélögin og félög bænda að ræða. Það er ekki rétt. Það eru um 17% af kjöti, 20% af ull og 21% af gærum, sem flutt eru út af öðrum árið 1941. Þetta er kannske ekki mikið, en það sýnir, að hann verður að snúa geiri sínum eilítið að kaupmönnum líka, þegar hann er að reyna að ná til bænda. Ég lít alveg sömu augum á þetta og hv. þm. V.-Húnv., að till. sé óþörf og markleysa og það væri réttast að drepa hana umsvifalaust, en það er kannske mildara með rökstuddri dagskrá. Að till. er óþörf, byggist á því, að langi flm. að fá þessar upplýsingar, eru þær miklu fljótfengnari og auðveldari á þann hátt að vita, hvað hver maður á margar kindur. Það eru náttúrlega dálítið þyngri gærur á einum stað en öðrum, en í stórum dráttum geta þeir fengið að vita þetta gegnum vorframtöl.

Þeir eru hér að tala um að gefa kvittun frá framleiðendum. Það held ég, að komi ekki til nokkurra mála, a. m. k. ekki um sumt af því. Trúlegt er, að kvittanir séu til fyrir sumu, en fyrir sumu alls ekki. Það er alls ekki hugsanlegt, hvernig taka á kvittanir t. d. fyrir kjöt. Við skulum segja, að kaupfélögin hafi flutt út 50 tonn af hverjum 1000, sem þau hafa fengið, og að verðuppbætur á þetta kjöt hafi gert meðalverðið nokkrum aurum hærra. Hvernig á að taka kvittun fyrir því frá framleiðendum? Það er ekki til í dæminu. Það verður þá að hækka allt kjötverðið eins og það leggur sig. Aftur er hægt t. d. með gærur að láta kvittun, enda hygg ég, að hjá öllum samvinnufélögunum séu færðar sér uppbætur á gærum og ull.

Ég vænti, að þessi rökstudda dagskrá verði samþ. og hv. þm. Ísaf. skilji, á hverju það byggist, að ekki er orðað á sama hátt með kjötið sem gærurnar. En vera má, að einhverjir af flm. hennar útskýri þetta nánar, ef það skilst ekki af því, sem ég hef sagt.