26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í D-deild Alþingistíðinda. (3668)

113. mál, uppbót á landbúnaðarafurðum

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs áðan, en sé í rauninni ekki ástæðu til að lengja umr. um þetta, enda hafa ýmsir þm. fært fram rök fyrir því, að þessi till. sé óþörf. Ég hygg, að þessi till. sé borin fram af misskilningi af mönnum, sem þekkja ekki til sölu landbúnaðarafurða. Ég ætla ekki að halda því fram, að hún sé borin fram af fjandskap við landbúnaðinn eða þá, sem fara með sölu landbúnaðarafurða. Ég held, að þessir menn þekki ekki til verzlunarhátta, sem gilda um landbúnaðarafurðirnar.

Þessi till. er algerlega óframkvæmanleg, að því er snertir kjötið. Það veit ég, að þm. skilja, þegar þeir hafa fengið upplýsingar um það. En það má vorkenna þeim, sem hafa ekki komið nærri þessu, þó að þeir geri sér þetta ekki ljóst. Hv. þm. Ísaf. segist ekki skilja, hvers vegna sumir þm. séu á móti því að gera skrá yfir uppbæturnar, en það er meira en skrá, því að það segir, að það skuli vera með áritaðri kvittun viðtakanda. Það segir svo: „... að uppbæturnar greiðist bændum þeim, er vöruna framleiddu, enda krefji ríkisstjórnin útflytjendur um sundurliðaðar skrár yfir úthlutun uppbótanna með árituðum kvittunum viðtakenda“.

Það hefur áður verið tekið fram, að það séu fleiri en bændur, sem eiga landbúnaðarafurðir, svo sem ull og gærur. Nú hafa flm. haldið því fram, að allir, sem eiga ull og gærur, eigi að fá uppbætur. Fyrst svo er, eru það ekki aðeins bændur, heldur líka fjórir til fimm menn á heimilinu, sem selja inn ull og gærur, vinnufólk, börn bónda o. s. frv. Ef allt þetta fólk á að gefa kvittanir, held ég, að það verði erfitt fyrir kaupmenn og verzlunarstjóra að fá þær. Þetta veit ég, að flm. skilja, er þeir hafa fengið upplýsingar um það, og ég veit, að þeir sannfærast um, að þetta er óþarft og óhagkvæmt. Það er víst, að þótt verzlanir sendu út um sveitir, um leið og uppbæturnar eru útborgaðar, með það fyrir augum að fá kvittanir fólksins, mundu þær ekki ná þeim, vegna þess að þeir, sem lögðu inn, eru ekki heima. Þeir eru til sjós eða við vinnu í kaupstöðum. Það er þess vegna ómögulegt að ná í þessa menn. Svo er það ekki venja að borga þessar uppbætur beinlínis út í peningum. Bændur og þeir, sem leggja inn, leggja inn í reikning. Síðan eru þessar vörur borgaðar einhverju áætluðu verði, því að vörurnar eru teknar í umboðssölu, en fullnaðarverðið er gert upp, þegar varan er seld. Það er stundum langt að bíða eftir fullnaðaruppbótum, og það er vegna þess, að varan er ekki seld fyrr en seint. Það er t. d. fyrst í haust, sem verðuppbæturnar fyrir ullina 1941 eru að koma. Það er fyrst nú. Það er ekki venjulegt, að það gangi svona seint, en fyrst gekk seint að selja, og svo hefur dregizt hjá ríkissjóði að inna þessar greiðslur af hendi. Ég sagði, að það væri ekki venja að greiða þessar vörur nákvæmlega, þegar þær væru lagðar inn, en það er venja að láta bændur og aðra innleggjendur fá út á vörurnar, eftir því sem beðið er um, — ekki nákvæmlega það, sem innleggið gerir, heldur það, sem beðið er um og álitið er, að reikningurinn þoli.

Kaupmennirnir og kaupfélögin skila þessum uppbótum. Það geta menn verið vissir um. Og af því leiðir það, að þessi till. er óþörf. Það hefur verið talað það mikið um uppbætur á landbúnaðarafurðum, að bændur fylgjast vel með því, hvað þeir eiga að fá. Þeir fylgjast vel með því, hvað söluverðið er á ull og gærum, og þeim er kunnugt, hvaða verð er á kjötinu. Það er óhætt að upplýsa þá menn, sem standa að þessu, um það, að bændur nútímans eru ekki þannig gerðir, að þeir geri sér ekki fyllilega grein fyrir því, hvað þeir eiga að fá, og ég vil upplýsa þessa hv. flm. um það, að ef þeir hafa þær hugmyndir um bændur, að þeir séu eins og sauðir eða naut, sem fylgjast ekki með, hvað þeir eigi að fá, þá er það misskilningur. Ef til vill er þessi till. fram borin af því, að þeir geri sér rangar hugmyndir um mennina.

Hv. 1. flm. talaði um, að eðlilegt væri, að uppbæturnar gengju beint til framleiðenda. Það kemur enn fram hjá þessum flm., að hann þekkir ekki til verzlunarhátta með landbúnaðarvörur. Allir, sem til þess þekkja, vita, að það verða að vera milliliðir, sem taka þessar vörur til sölumeðferðar, sem taki við uppbótum úr ríkissjóði og dreifi þeim út til viðtakenda. Hitt veit ég, að nógu yrði að sinna í ráðuneytinu, ef setja ætti þar upp skrifstofu til þess að úthluta uppbótum til allra, sem ættu að fá þær.

Ég held, að það sé óþarfi að fjölyrða um till. Ég vona, að flm. séu það skynsamir, að þeim sé nú ljóst, að hún er í senn óþörf og vitlaus. Það má einnig benda á það, að þessar uppbætur, sem till. er um, hafa þegar verið greiddar, og má segja, að till. sé of seint fram komin, og hlýtur þingið af þessum ástæðum að samþ. hina rökst. dagskrá, sem hér hefur verið lögð fram, og vonast ég til, að flm. geri sig ánægða með þá afgreiðslu eftir þær upplýsingar, sem þeim hafa verið gefnar.