26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í D-deild Alþingistíðinda. (3670)

113. mál, uppbót á landbúnaðarafurðum

Flm. (Finnur Jónsson):

Ég mun láta mér nægja mjög lítinn tíma, þótt ég hefði annars allmörgu að svara, ef ég vildi elta ólar við alla, sem talað hafa. Það hefur verið reynt að setja okkur, flm. till., á skólabekk, en skýringarnar, sem okkur hafa verið gefnar á málavöxtum, hafa farið í sína áttina hver. Ýmist hefur því verið borið við, að ekki væri hægt að fá þennan lista, eða, að hann yrði allt of langur, svo að enginn mundi lesa hann o. s. frv. Það hefur komið sitt lítið úr hverri átt. Ég hefði gjarnan viljað fallast á breytt orðalag á till., ef betra þætti, en mér skilst ekki, að breyta þurfi henni til þess, að hún geti náð markmiðinu.

Ef t. d. bóndi hefur innifalið sláturfé barna sinna í því, sem hann lagði inn, greiðir hann þeim að sjálfsögðu uppbæturnar. Það breytir engu um það, sem hér er deilt um, þótt hv. 1. þm. N.-M. sé með bollaleggingar um smávægileg framkvæmdaratriði.

Það hefur komið fram alveg nýtt í málinu, síðan umr. byrjuðu. Ég hef sagt, að í upphafi málsins hafði ég engan grun um annað en að bændur fengju uppbætur sínar. Ég varð hissa, er ég sá lista yfir kröfur til slíkra uppbóta, sem fengnar hafa verið lögfræðingi í Rvík til innheimtu. Kröfulistinn er upp á 30 þús. kr., ýmist smáupphæðir eða eitt til tvö þús. frá hverjum kröfuhafa. Hvernig eiga þessir framleiðendur að tryggja sig gegn valdhöfum verzlunarinnar, ef lagaréttur þeirra er ekki greinilega tryggður? (GJ: Hvaða verzlun er aðili?). Það segi ég ekki, en þm. geta fengið að athuga plöggin. Hafi þm. það nú eins og þeir vilja, samþykki þessa vitlausu dagskrártillögu — eða geri bændum rétt til og samþykki þessa till., sem við flytjum þrír kaupstaðaþm.