26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í D-deild Alþingistíðinda. (3690)

118. mál, slysatrygging íþróttamanna

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Aðalefni þessarar till., sem ég flyt hér ásamt hv. þm. Snæf., er það, að ríkisstj. verði falið að skipa þriggja manna n. til þess að undirbúa setningu lagaákvæða um slysatryggingu íþróttamanna. Í till. er gert ráð fyrir, að einn nm. skuli skipaður samkvæmt tilnefningu Í. S. Í. og annar samkvæmt tilnefningu Tryggingastofnunar ríkisins. Það er gert ráð fyrir, að n. hafi hraðan á í störfum sínum — og hafi lokið þeim og skilað áliti fyrir 15. febr. n. k.

Við höfum flutt þessa þáltill. í samráði við forseta Í. S. Í. og íþróttafulltrúa ríkisins. Grundvöllur hennar er sá að tryggja íþróttamönnum bætur fyrir meiðsl, sem þeir kunna að hljóta á æfingum og kappleikum. Teljum við brýna nauðsyn bera til að setja löggjöf um þessi efni. Það verður að játa, að það er alveg óviðunandi fyrir íþróttamenn að búa við það, ef þeir slasast við íþróttaiðkanir sínar, að þeir fái engar bætur, hvorki slysabætur né aðrar, þótt þeir verði lengi frá störfum og verði að liggja á sjúkrahúsi, með ærnum kostnaði. Það er álit okkar, að úr þessu beri að bæta. Þjóðfélagið hvetur ungt fólk mjög til þess að stunda íþróttir. Það er því naumast sæmilegt að láta íþróttamenn búa við það öryggisleysi, sem þeir nú búa við í þessum efnum. Íþróttamenn hér í Reykjavík hafa reynt að bæta nokkuð úr þessu hér með því að stofna svo nefndan slysasjóð íþróttamanna, en hann nær einungis til íþróttamanna hér í Reykjavík og er auk þess lítils megnugur, þar sem tekjur hans eru rýrar, einungis 5% af aðgangseyri að kappleikum og íþróttamótum hér í Reykjavík, enda nemur hann nú ekki nema rúmlega níu þús. kr. Það er því augljóst, að bætur úr honum eru alveg ófullnægjandi. Svo er hitt, að hann nær aðeins til íþróttamanna í Reykjavík, en íþróttamenn, sem koma utan af landi og slasast á kappleikum hér, fá engar bætur úr honum.

Við teljum eðlilegast, að ákvæði um slysatryggingu íþróttamanna verði tekin upp í alþýðutryggingalögin, en það verður auðvitað þessarar n. að ákveða, hvaða leið muni bezt að fara.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þessa till. Ég geri ráð fyrir, að allshn. fái hana til meðferðar, en vegna þess, hve seint hún kom fram, vil ég mælast til þess við hv. n., að hún reyni að hraða afgreiðslu þessa máls sem mest, til þess að það geti fengið fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi. — Vil ég svo að lokum leggja til, að málinu verði vísað til síðari umr. og allshn. að lokinni þessari umr.