08.11.1943
Efri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í D-deild Alþingistíðinda. (3743)

136. mál, aðstoðarmenn héraðslækna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér virðist, að það þyrfti að breyta dálítið þessari þáltill., þannig að það væri með henni skorað á ríkisstj. að bera fram á Alþ. frv. um skipun þessara mála almennt, — því að eins og okkur er kunnugt, vantar ákaflega víða héraðslækna í héruðin. Og það virðist eins og það vandamál ætti að leysa fyrst, áður en ríkisstj. annast, að nægilegir varalæknar séu til fyrir héruðin. Ég vil því beina því til þeirrar hv. n., sem fær málið til meðferðar, sem sennilega verður heilbr.- og félmn., að taka það til athugunar, hvort ekki er hægt að framkvæma efni till. á víðtækara grundvelli, þannig að tekin séu í heild læknaskipunarmálin í landinu. Það mál er orðið alvarlegt mál úti á landsbyggðinni, og það hefur komið til orða, að nauðsynlegt gæti orðið að tryggja afskekktustu héruðum landsins lækna með því, að ríkið sæi þeim héruðum fyrir læknisbústöðum og lyfjaforða fyrir lækna, svo að læknanemar gætu á síðari hluta námsára sinna starfað þar sem læknar, þó ekki væri nema 3–4 mánuði í einu hver. Og æskilegt væri að athuga, hvort ekki væri hægt að samrýma efni þessarar þáltill. og þær háværu kröfur, sem koma utan af landi, um að bæta úr þessu ástandi, sem ég hef vikið að.

Ég legg til, að málinu verði vísað til heilbr.- og félmn. og umr. frestað.