11.11.1943
Efri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í D-deild Alþingistíðinda. (3749)

142. mál, skipulagsnefnd ríkisins

Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég hef í grg. till. fært nokkur rök fyrir því, að það er ástæða til þess að efla nokkuð þessa stofnun, og hefur n. sjálf unnið að þessu undanfarið, þó að það hafi ekki komið fram í frv.formi. Eitt af því, sem mest liggur á viðvíkjandi þessari n., er það, að einstök bæjarfélög geti haft meiri peninga til þess að kaupa upp eignir, sem þarf að ryðja úr vegi fyrir nýskipan. Á þessu hefur verið gerð byrjun, en allt of lítil. Þannig er það t. d. hér í bænum, að umferðin er víða orðin óþægileg fyrir það, að ekki er til fé til þess að losa gömul hús, sem standa í veginum fyrir umferðinni, og þannig mun það vera víða. En jafnframt þessu vantar skipulagsn. vinnuafl, fleiri starfsmenn, til þess að hafa undan hinni miklu aðsókn og kröfum, sem koma bæði frá Rvík og öðrum kaupstöðum og kauptúnum landsins. Þess vegna er ekki annað sýnt en að ríkisstj. og bæirnir þurfi að leita til þingsins um að veita meira fé í þessu skyni. Það þótti því rétt að hafa á þessu þann hátt, sem hér er gert.

Það er kannske engin ástæða til annars en fresta þessari umr. og vísa málinu til allshn., svo að það geti gengið sem greiðast gegnum þingið, og gæti hún þá rætt málið við skipulagsn.