07.10.1943
Neðri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

87. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hefur verið gerður viðskiptasamningur við Bandaríkin, og er þar meðal annars ákveðið, að tollur af tveim teg. nýrra ávaxta skuli lækka úr 30% í 10% og tveim teg. þurrkaðra ávaxta skuli lækka úr 50% í 25%. Úr því að tollur á þessum teg. ávaxta hefur lækkað, virðist eðlilegt, að aðrar tegundir ávaxta komi í sama tollflokk. Hversu mikið ríkissjóður hefur tapað við þetta, er ekki unnt að segja með nokkurri vissu, en ég hef gert lauslegt yfirlit yfir verzlun síðustu fimm ára, en innflutningur þessara ára er svo misjafn að krónutali, að í rauninni er vart hægt að leggja það til grundvallar fyrir framtíðina. En eftir þessum gögnum hef ég ákveðið upphæðina kr. 203.000 — tvö hundruð og þrjú þúsund krónur —. Innflutningurinn á ávöxtum skiptist þannig niður á þessi fimm ár, 1938–1942, að meðaltalið verður sem hér segir: Nýir ávextir 423605, þurrkaðir ávextir 418998, hnetur 73005. Tollurinn af þessum vörum samtals nú 358481, meðaltal fimm síðustu ára samtals 154700, mismunur 203781.

Þessi mikli munur á fjárhæðum byggist ekki á vörumagni, heldur á hækkuðum flutningsgjöldum frá því 1939. Ég tel því, að þessi mismunur gefi ekki rétta hugmynd um tapið. Væri öllu réttara að taka meðaltal síðustu tíu ára. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til fjhn.