15.12.1943
Efri deild: 67. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í D-deild Alþingistíðinda. (3762)

175. mál, vöruvöndun á fiski

Gísli Jónsson:

Ég er í aðalatriðum sammála um nauðsyn þess að setja mat á nýjan fisk, og ég er alveg sammála hv. 1. þm. S.-M. um það, að það er mest aðkallandi um þann fisk, sem seldur er út. Það kemur til af því ef fiskurinn hefur verið geymdur, þótt ekki sé meira en hálfan dag, án þess að vera settur á þann stað, sem hann á að vera, því að fiskurinn skemmist miklu meira við það að vera kastað á milli skipa en þó að hann liggi ekki í nægilega góðu fiskrúmi yfir hafið. Þess vegna er þetta alveg nauðsynlegt, og þar ber okkur ekki á milli.

Eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu, hefði ég ekki gert till. um að vísa málinu til sjútvn., ef ekki hefðu fallið hjá hv. þm. orð um það, hvernig koma ætti fyrir eftirliti með skipum, sem veiða.

Ég vil benda hv. þm. S.-M. á það, að ég er ekki viðkvæmari fyrir ummælunum í Fishing News en fyrir ummælum Tímans, ég tek jafnmikið tillit til beggja blaðanna.