15.12.1943
Efri deild: 67. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (3770)

179. mál, dragnótaveiði

Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég er engan veginn á móti þeirri skoðun hv. þm. Barð., að banna ætti allar dragnótaveiðar í landhelgi. En hv. þm. veit það, að um þetta hefur verið barizt hér þing eftir þing, hvort banna ætti þessar veiðar alveg í landhelginni, og niðurstaðan hefur orðið sú, að öll landhelgin hefur verið undirlögð af dragnótinni. Þessi málstaður hefur sigrað hér m. a. af því, að þetta hefur verið mikill atvinuvegur og skipt miklu fjárhagslega, og í öðru lagi hafa fræðimenn yfirleitt hallazt á þá sveif, að dragnótin væri hættulaus fyrir fiskstofninn, og hefur það orðið til verulegs stuðnings fyrir þessar veiðar. Af þessum orsökum hefur það versta komið út í málinu frá sjónarmiði hv. þm. Barð. og fylgjenda hans málstaðar, svo að trillubátar hafa víða orðið útlægir af miðunum vegna yfirgangs dragnótabátanna og landhelgin öll undirlögð af þeim veiðum. En hér er við ofurefli að etja. Ég óttast, að fáliðuð verði sú fylking, sem hér kann að verða með því að banna dragnótaveiðarnar algerlega í landhelgi, þótt það kunni að vera það eina rétta, og mun hv. þm. komast að raun um það, eins og nú standa sakir. Frá mínu sjónarmiði má þessi till. engu síður sofa í n. en einhvers staðar annars staðar. En hv. þm. Barð. hlýtur að viðurkenna, að hún er spor í rétta átt, hún er hálfur sigur, þar sem hún verndar hálfa landhelgina, og hygg ég, að lengra verði ekki komizt í bili. En það hlýtur að teljast bót í máli frá sjónarmiði okkar, sem trúum því, að þessi veiði þurfi að hætta, ef þessi till. nær samþykki.

Ég býst svo ekki við að segja meira um þetta að svo stöddu og líklega ekki fyrr en á næsta þingi.