15.12.1943
Efri deild: 67. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (3771)

179. mál, dragnótaveiði

Gísli Jónsson:

Ég ætla nú ekki að fara að halda uppi neinu málþófi. Ég vil aðeins upplýsa það, að Árni Friðriksson, fiskifræðingur, hefur setið á fundum sjútvn., og hefur hann snúizt í þessu máli. Það er rétt, að hann hefur áður haldið því fram opinberlega, að dragnótaveiðar væru skaðlitlar fyrir fiskstofninn, en nú er hann kominn á þá skoðun, að þær séu hættulegri en botnvörpuveiðar, því að möskvar dragnótarinnar eru smærri og hún fer alveg með landsteinunum.

Ég hygg þessa till. til bóta, þótt æskilegast hefði verið að útiloka dragnótaveiðarnar alveg. En það er útlit fyrir, að þingið verði að sjá sóma sinn í því að leysa þetta mál. Það er ekki lengur hægt að láta alþjóðarhagsmuni víkja fyrir ofurkappi sérhagsmunanna. Svo mikil reynsla er og fengin í þessum efnum um allt land, að fiskimennirnir sjá alltaf betur og betur, að friða verður landhelgina fyrir þessari veiðiaðferð alveg eins og botnvörpunni.

Ég vil að síðustu segja hv. þm. S.-Þ., að verði þessu máli vísað til sjútvn., þá skal ég þegar kalla saman fund í þeirri n. með meðnm. mínum. Og gefist ekki tími til að skila áliti á þessu þingi, þá mun ég koma skoðun n. á framfæri við hv. ríkisstj. En ég tel rétt, að svona stórmál verði ekki afgreidd út úr d., nema þau hafi áður verið í n.