15.12.1943
Efri deild: 67. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í D-deild Alþingistíðinda. (3772)

179. mál, dragnótaveiði

Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég er engan veginn óánægður með þá meðferð á þessu máli, er hv. þm. Barð. leggur til, og ég er því ánægðari með, að álit n. gangi til hv. ríkisstj., sem ég geri ráð fyrir, að fáir þm. séu málinu fylgjandi. Það gleður mig, ef fiskifræðingunum hefur snúizt hugur í þessum efnum, því að leikmenn hafa margir haft þá trú, að dragnótin væri sama eðlis og botnvarpan og þeim mun hættulegri sem hún fer nær landsteinunum. En nú vitum við, að ekki aðeins Árni Friðriksson, heldur einnig sá ágæti maður og náttúrufræðingur, Bjarni Sæmundsson, og ég má segja Kristján Bergsson, hafa allir álitið dragnótina skaðlausa, þannig að friðunarmenn hafa bæði haft fræðimennskuna og hagsmunabaráttuna á móti sér. Ég vil að vísu fylgja hv. þm. Barð. í friðun landhelginnar, en þó vil ég heldur hálfan hlut en engan. Og ég bendi hv. þm. á það, sem hann og veit, að víða er það svo, að tveir samliggjandi hreppar berjast upp á lífið með og móti þessu máli. Það er því erfitt um vik fyrir marga þm. að snúa sér við í þessu máli, því að margir hafa lagzt fast á móti því. Ég bendi t. d. á Ingvar Pálmason, hv. 1. þm. S.-M., sem ég hef oft haft gagn af að fylgja að málum. Hann er alveg á gagnstæðri skoðun í þessu máli. Hann er mjög á móti því, að dragnótaveiðar verði bannaðar, og þetta er maður, sem löngum hefur haft mikil áhrif í sjútvn.

Ég get tekið dæmi úr kaupstað, sem ég þekki. Þar er dragnótin stöðugt ófriðarefni milli stóru og litlu bátanna, þar eð þeir litlu þykjast beittir órétti af hinum. Þótt ég játi fullkomlega rök hv. þm. Barð. fyrir því, að þingi og ríkisstj. beri að ráða fram úr þessu, þá óttast ég um afdrif málsins, og ég er sannfærður um, að það væri spor í rétta átt, ef þessi millileið yrði farin.