15.12.1943
Efri deild: 67. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í D-deild Alþingistíðinda. (3773)

179. mál, dragnótaveiði

Gísli Jónsson:

Út af því, sem hv. þm. S.-Þ. sagði um erfiðleika þm. í því að ákveða sig í þessu máli vegna hræðslu við kjósendur, þá vil ég nota tækifærið til að lýsa yfir, að ég mundi aldrei greiða atkv. um þjóðmál með tilliti til ímyndaðra hagsmuna kjósenda minna, heldur vildi ég taka þann kostinn að þurfa að hverfa af þingi. Kjósendafylgið getur verið eitt í dag og annað á morgun. Það sjónarmið verður að ráða úrslitum, er til atkvæða kemur, hvort málið er til hagsbóta fyrir þjóðarheildina eða ekki, en ekki, hvort þm. eykur með því kjósendafylgi sitt eða ekki. Ég trúi því, að þetta mál nái fram að ganga, er háttvirtir þm. skilja þetta.