15.12.1943
Efri deild: 67. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (3779)

187. mál, fjórðungspítalar

Flm. (Jónas Jónsson) :

Þetta mál hefur verið rætt hér á Alþ., einkum í sambandi við þörf sjúkrahúss á Akureyri, svo að út af því hefur mörgum þm. þótt eðlilegt, að hver fjórðungur fengi sinn hluta af Landsspítalanum, þannig að ríkið léti einnig reisa spítala á Austurlandi og Ísafirði.

Það er flestum kunnugt, að fyrir 40 árum var reist stærsta sjúkrahús landsins í þann tíma á Akureyri, og var það mest fyrir forgöngu próf. Guðmundar Hannessonar. Þetta sjúkrahús er nú skiljanlega orðið mjög úr sér gengið. Það er ekki torskilið, að sjúkrahús, sem í þann tíma var mátulega stórt með 40 rúmum, sé ekki of stórt með 70 rúmum núna, eins og bærinn hefur stækkað og samgöngur aukizt við hann, svo að þangað er sótt sjúkravist úr öðrum fjórðungum.

Það, sem einkum vakir fyrir okkur með því að hafa Landsspítalann í fjórum deildum, er það, að það er engan veginn ávinningur að flytja alla veika sjúklinga til Reykjavíkur á Landsspítalann hér, bæði vegna kostnaðar og heilsu sjúklinganna, heldur teljum við rétt að stækka hann ekki meira en nemur þörfum háskólans og Suðurlands, en koma heldur upp fjórðungsspítölum. Í því skyni þyrfti að kaupa hluta bæjarins í spítalanum á Ísafirði og láta reisa spítala á Austurlandi.

Því er þannig varið, að viss hópur berklasjúklinga þarf að fara héðan til Akureyrar til þess að fá þar uppskurð sérstakrar tegundar, en svo verða þessir sjúklingar að leggjast inn á gamla spítalann. Þegar þannig er komið, að fólk verður tugum saman að sækja spítala héðan til Akureyrar til þess að fá þessa aðgerð, þá er ekkert vit í því lengur, að Akureyri geti ekki byggt spítala með eðli Landsspítalans. Nú eru margir læknar á Akureyri, sem ættu að geta haft aðgang á þessum spítala, svo að þar yrði hægt að fá fjölbreytta læknishjálp og fólk þyrfti ekki að sækja eins til Reykjavíkur að norðan.

Ég vænti þess, að hv. d. hallist að þessu réttlætismáli og sendi það til ríkisstj. til undirbúnings fyrir næsta þing.