15.04.1943
Efri deild: 1. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (3808)

Sætaskipun

Magnús Jónsson:

Ég er því mjög samþykkur, að ekki verði farið að rugla sætaskipun í d. Sannleikurinn er sá, að a. m. k. eitt sæti í d., það, sem ég sit í, er nálega ónothæft. Ég vil skjóta því mjög alvarlega til hæstv. forseta, hvort hann gæti ekki komið því til leiðar, að rýmkað væri í d. Ég sé enga nauðsyn á að hafa 5 ráðherrastóla hér, þegar svo erfitt er um rúm. Þeir atburðir, sem stj. þarf öll að vera viðstödd, gerast nálega allir í sal Nd., og mjög óvenjulegt er, að fleiri ráðh. en 3 séu staddir í einu í þessum sal. Ég vil því skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vill ekki hlutast til um, að ráðherrastólarnir yrðu ekki fleiri en 3, ef ekki er hægt að finna aðra aðferð til að koma í veg fyrir, að nota þurfi a. m. k. innsta sætið. Það eru líka mikil óþægindi að verða að ganga bak við forsetastólinn til sætis síns, eins og hv. 2. þm. Árn. hefur orðið að gera, síðan hér var sett borð, sem tók af gangrúmið hérna megin. Ég vil því mælast til, að hæstv. forseti hlutist til um, að hér verði bót á ráðin á þann hátt, sem heppilegast þykir.