04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

27. mál, fjárlög 1944

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Það verður ekki annað sagt en að þær till. fjvn., sem hér liggja fyrir, lýsi töluvert mikilli bjartsýni, og þó gætir ekki minni bjartsýni hjá minni hl. n. Aðalaukningin á tekjum fjárlagafrv., sem kemur fram frá meiri og minni hl. fjvn., byggist aðallega á hærri tollum en áætlað er í frv. Mér kemur það einkennilega fyrir sjónir, að þetta skuli koma frá minni hl. fjvn., þar sem vitanlegt er, að í minni hl. n. eru menn úr þeim þingflokki, sem vill láta lækka vísitöluna með afnámi tolla, en hér byggir minni hl. sínar glæsilegu áætlanir um aukin útgjöld til ýmissa þarfa á miklu meiri hækkun tolla frá því, sem meiri hl. gerir ráð fyrir, hvað þá sem ríkisstj. gerði nokkru sinni áætlun um. Af þessu álykta ég það, að flokkur minni hl. n. muni vera horfinn frá þeirri stefnu sinni, sem ég áðan gat um. Þessi bjartsýni fjvn. hlýtur að sjálfsögðu að setja sitt mark á frv., sníða því víðari stakk og gefa því talsvert annan svip en það upprunalega var.

Ég skal þá víkja að nokkrum atriðum í brtt. meiri hl. Í nál. gerir n. það að umræðuefni, að það hafi orðið henni til tafar, að hún fékk ekki yfirlit um tekjur og gjöld ársins 1942, fyrr en alllangt var liðið á starfstíma hennar. Ég vil taka það fram til þess að fyrirbyggja misskilning, að það hefur löngum verið venja í fjvn. að byggja á þeim bráðabirgðatölum, sem legið hafa fyrir um hver áramót og gefnar voru hér á þinginu eftir áramótin síðustu. Fjvn. fór fram á að fá niðurstöðutölur ríkisreikninganna, sem voru ekki tilbúnar, þegar hún hóf störf sín. Þessar niðurstöðutölur víkja venjulega lítið frá bráðabirgðatölunum, svo að um það má deila, hvort mikil nauðsyn sé á, að beðið sé eftir hreinum niðurstöðutölum. Það hefur hins vegar verið venja hjá ríkisbókhaldinu, að því hefur ekki verið lokið fyrr en í ágúst eða september á hverju ári, og þess vegna hafa slíkar tölur ekki legið fyrir. Nú hefur breyting verið á þessu gerð, því að gefin hafa verið fyrirmæli um, að ríkisbókhaldinu skuli vera lokið 31. marz ár hvert.

Þær aukningar á tekjum, sem n. leggur til, eru aðallega á 2. gr., viðvíkjandi tekju- og eignarskatti, vörumagnstolli og verðtolli. N. leggur til, að verðtollur verði hækkaður um 7 millj., vörumagnstollur um 3 millj. og tekju- og eignarskattur um 1½ millj., eða upp í 19,5 millj. Ég skal viðurkenna það, að samkv. bráðabirgðatölunum, sem fyrir lágu um tekju- og eignarskatt, var hann talinn mundu nema á þessu ári 22 millj., og þá sé ekki fjarri sanni að áætla hann 19½ millj. Hins vegar vil ég segja, að það sé mjög óvarlegt að áætla verðtollinn eins hátt og meiri hl. gerir, þótt hann fari miklu skemur en minni hl. Skal ég nú færa rök fyrir mínu máli.

Það, sem af er þessu ári, hefur verðtollur numið 2,6 millj. kr. á mán., og ef sama heldur áfram þá þrjá mánuði, sem eftir eru, verður tollurinn allur 31,2 millj. N. byggir sínar niðurstöður á því, að í fyrra hafi þessi tollur numið nærri 40 millj. kr. og að hann sé nú ekki lægri það sem af er þessu ári, svo að full ástæða sé því til að halda, að hann muni komast upp í sömu upphæð nú. Ég vil hins vegar benda á, að það er ekki líklegt, að þrír síðustu mánuðir þessa árs, eins og nú árar, muni verða svo miklu hærri en þeir, sem liðnir eru. Ég byggi þetta meðal annars á því, að nú hagar allt öðruvísi til um innflutning heldur en í fyrra, og minni ástæða er til að búast við miklum innflutningi á tollháum vörum. Hef ég því ekki neina trú á, að verðtollur muni komast upp í sömu fjárhæð og hann komst árið, sem leið. Ég verð því að telja, að það sé stigið á fremsta hlunn með að áætla verðtoll 30 millj. kr.

Hvað viðvíkur vörumagnstollinum gegnir hins vegar töluvert öðru máli. Ég tel, að vörumagnstollurinn, eins og nú standa sakir, sé að mörgu leyti á tryggari grundvelli en verðtollurinn. Stafar þetta af þeim breytingum, sem nú hafa orðið og eru að verða á innflutningi, og ekki sízt af því, að erfiðleikar fara vaxandi á að fá vörur frá útlöndum og einmitt á þeim vörum, sem háir tollar eru greiddir af í ríkissjóð.

Um aðra liði og aukningu á öðrum tekjuliðum hef ég ekkert sérstakt að segja. Ég geri ráð fyrir, að þessar aukningar séu nokkuð réttmætar, sem hér eru gerðar, og fer ekki frekar út í það.

Ég sé, að n. hefur gert nokkrar breyt. með því að taka inn í frv. nokkrar stofnanir, sem ekki hafa verið þar áður, og fært þær bæði gjalda- og tekjumegin. Álít ég, að þetta sé til bóta og að í framtíðinni eigi að fylgja þeirri reglu, að fjárhæðir ríkissjóðs komi sem greinilegast fram og þær stofnanir, sem undir hann heyra, komi á fjárlögin, hvort sem þær standa sjálfar undir sínum gjöldum eða ekki. Ég skal taka það fram í sambandi við 27. lið, um bifreiðaeftirlit ríkisins, að það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir, eins og þm. hafa tekið eftir, til þess að auka tekjur þessarar stofnunar, svo að þær hrökkvi fyrir gjöldum. Sömuleiðis er verið að gera sams konar ráðstafanir hvað snertir löggildingarstofuna.

Ég mun nú víkja máli mínu að gjöldunum. Eitt er það, sem vakið hefur athygli mína, og það er, að ekki hafa verið gerðar neinar aths. út af þeim lið, er að strandferðunum lýtur. Ég get beint athygli n. að því, að samkv. síðustu upplýsingum, sem liggja fyrir, er kostnaður við strandferðir miklu meiri en gert er ráð fyrir í frv. samkv. þeim upplýsingum, sem lágu fyrir, þegar frv. var samið. Ég mun að sjálfsögðu ræða þetta atriði út af fyrir sig við n., áður en það kemur til 3. umr. Þær aukningar, sem aðallega koma fram, eru að. sjálfsögðu á 13. gr. Þar eru rúmlega 8 millj. kr., sem koma eiga til framkvæmda nú til akvega, brúargerða, kaupa á vegavinnuvélum, til hafnargerða, bryggjugerða og lendingarbóta. Það er að sjálfsögðu mjög æskilegt að geta sett þessa liði inn í fjárlagafrv., og stjórnin hefði að sjálfsögðu gert það, ef hún hefði treyst sér til þess að auka jafnmikið tekjurnar og ef legið hefðu fyrir umsóknir, eins og tekið var fram við 1. umr. þessa máls, og ýmsir liðir hefðu verið fyrir hendi í þessu sambandi, sem ekki lágu fyrir, þegar fjárlagafrv. var samið.

Það er einn liður, sem mér þykir nokkuð fyrir, að fjvn. hefur talið sig neydda til að fella niður, og það er viðvíkjandi risnu til biskups. Hér eru grunnlaun tvö þús. kr. og verðlagsuppbót þrjú þús. kr., en engin aukauppbót. Þetta er eitthvert virðulegasta embætti landsins, en þó einna lægst launað. Þessi embættismaður hefur lægri laun en fulltrúar í ýmsum ríkisstofnunum. Mér hefði fundizt viðeigandi, að hann hefði fengið þessa risnu, sem ég held, að hann þurfi á að halda, að það sé ekki nema réttmætt að sjá ekki í við þetta virðulega embætti, þar sem þessi embættismaður hefur lægri laun en hann á að hafa.

Stofnkostnaður héraðsskóla er hækkaður um 360 þús. kr. Ég hef ekkert við það að athuga, en vildi benda á það í þessu sambandi, að það lítur ekki út fyrir, að ríkisstj. hafi nokkuð vald yfir því, hvaða skólar eru reistir, hvernig þeir eru reistir eða hversu dýrir þeir eru. Í l. stendur, að stofnkostnaður við héraðsskóla skuli greiðast að 3/4 úr ríkissjóði, en ¼ af viðkomandi héraði, eftir því sem fé er veitt samkv. fjárl. eða Alþingi heimilar. Með þessu var gert ráð fyrir, því, að ekki yrði veitt annað fé en það, sem Alþ. heimilaði. Ég vil bara benda á, að þetta verður öðruvísi í framkvæmdinni, ef skólanefndir í héruðum eru einráðar um, hvers konar byggingar þær setja á stofn, því að þá byggja þær án þess að spyrja um, hvort nokkur fjárveiting sé til þess í fjárl. Þegar svo byggingunum er komið á fót, er ekki hægt fyrir Alþ. að standa á móti því, að byggingunum verði haldið áfram. Ég vil aðeins benda á þetta og tel sjálfsagt, að þessu verði breytt í það horf, að þessar byggingarn. í héruðum geti ekki gert slíkt nema með sérstöku leyfi þess embættismanns, sem þetta ætti að heyra undir.

Ég verð að segja það, að mér þykir vænt um að sjá ýmsar fjárveitingar hér, er ástæða væri til að taka upp í frv., en hins vegar er það ekki af því, að stjórnin hafi ekki fullan vilja á að taka þær upp, heldur aðeins af varfærni, vegna þess hvað fé var takmarkað, er hún hafði yfir að ráða. Ég verð að segja, að mér er ánægja að sjá fjárveitingar til fimleikahúsa, íþróttasjóða og ekki sízt til listasafns Einars Jónssonar, en eftir því, sem mér hefur verið skýrt frá, liggja listaverk þessa mæta manns undir skemmdum af vatni. Þess vegna fagna ég því, að nú verði gerðar ráðstafanir til þess, að úr þessu verði að fullu bætt.

Sama máli gegnir um byggingu sjómannaskóla. Þetta er fyrirtæki, sem margir unna og margir vilja styðja. Hins vegar er þetta stórt fyrirtæki, og má deila um, hvort réttara sé, að byggingin sé reist á langdýrustu tímum eða hvort féð verði lagt til hliðar og notað, þegar byggingarkostnaður lækkar og meiri þörf kann að verða á að veita vinnu við slíkar framkvæmdir. Hins vegar ætla ég ekki að mæla neitt á móti því, að þessari byggingu verði haldið áfram, eins og nú er komið.

Ég vil svo að endingu minnast á 22. gr. Ég tók það fram við 1. umr. fjárl., að ég teldi, að í þessari grein eigi ekkert að vera, sem teljast viss gjöld og komi til útgjalda á árinu. Ég tel, að allt slíkt eigi að taka inn í fjárl., sem greiðsluyfirlit nær yfir, ef vitanlegt er, að það kemur til framkvæmda á árinu. Sýnir þetta það, að fjárl. eru ekki rétt úr garði gerð. Hér er t. d. XI. liðurinn, sem kveður á um, að verja skuli 300 þús. kr. til byggingar nýrrar mjólkurstöðvar. Það er vitanlegt, að um þennan lið verður krafið næsta ár. Mjólkurstöðin er í byggingu og ekki efi á, að sá aðili, sem hefur með höndum þessa byggingu, hafi fulla þörf fyrir þetta fjárframlag úr ríkissjóði, og því sýnist mér sjálfsagt að setja þennan lið gjaldamegin í fjárlögin. Hér er líka næsti liður, XII. liður, sem kveður á um greiðslur á lokaviðgerð þjóðleikhússins að því leyti, sem núv. sjóður þess nægir ekki til að standast nauðsynlegar greiðslur við að fullgera bygginguna. Það er mjög æskilegt að geta lokið þjóðleikhúsinu, en ég veit ekki um, hve stór sjóður þjóðleikhússins er. Hins vegar verð ég að segja, að það getur verið æðistór baggi, sem ríkissjóði er bundinn með þessari heimild. Sama má segja um fimm síðustu liðina; ég efast ekki um, að á næsta ári verður krafið um greiðslu á öllum þessum liðum. Ég vil því beina því til fjvn., hvort hún vilji ekki telja þá liði, sem beinlínis má búast við, að verði greiddir á árinu, til útgjalda.

Ég ætla svo ekki að fara út í smærri atriði. En ég verð þó, að öllu athuguðu, að segja það, að mér virðist ákaflega mikil bjartsýni hjá fjvn. Og það er ekkert annað að gera fyrir þá ríkisstj., sem kann að fara með völdin, en að draga svo úr útgjöldum, að tekjurnar hrökkvi, ef svo skyldi fara, að þessi áætlun bryðgist, en hins vegar er það ágætt, ef hún stenzt.