01.11.1943
Neðri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

26. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina og ríkisstofnanir að greiða eftirlaun

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Í 22. gr. fjárl. þessa árs er heimild til að greiða eftirlaun ekkjum manna, sem hafa starfað hjá bönkunum og Skipaútgerð ríkisins. Slík heimild hefur verið á fjárl. nokkur síðustu ár, en nú hefur hæstv. ríkisstj. lagt til með þessu frv., að sett verði sérstök l. um heimildir til að greiða þessi eftirlaun til þess að komast hjá því að taka þetta inn á fjárl. ár hvert.

Fjhn. hefur haft þetta til athugunar og mælir með því, að frv. verði samþ., en við athugun kom í ljós, að ekki er hægt að samþykkja það alveg óbreytt, eins og það kom fyrir, og hefur því n. lagt til, að því verði breytt að formi til, eins og lagt er til á þskj. 237. Um breyt. á efni er ekki að ræða.