04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

27. mál, fjárlög 1944

Eysteinn Jónsson:

Ég mæli hér fyrir tveimur brtt. Annarri þeirra er þegar útbýtt. Er hún á þskj. 331, 11. liður, og flytja hana með mér hv. 2. þm. N.-M. og hv. 1. þm. S.-M. Hún fer fram á, að veitt sé fé til byggingar dýralæknisbústaðar á Austurlandi.

Sú er saga þessa máls, að fyrir um það bil tveimur árum var samþ. hér, að keypt væri jörð ásamt húsum á Austurlandi, og væri hún þannig sett, að hún væri sæmilegur aðsetursstaður fyrir dýralækninn. En ekki hefur orðið úr framkvæmdum. Heimildin er fallin úr gildi að forminu til. Hæstv. atvmrh. hefur tjáð mér, að hann vildi gjarnan eiga hlut að því að leysa húsnæðisvandamál dýralæknisins, en hann telur sig þurfa til þess fulltingi Alþingis. Þetta mál hefur verið athugað í fjvn., en hún hefur ekki tekið fjárveitingu í þessu skyni í fjárlagafrv., og því höfum við flm. talið rétt að taka málið upp með þessari brtt. Viljum við gefa fjvn. tóm til að taka málið upp, ef henni þykir það þægilegra á annan hátt en hér er um að ræða. En við vildum vekja máls á því við þessa umr. Það virðist gilda um dýralækna almennt, að ríkið eigi að sjá þeim fyrir heppilegum bústað. Fyrir þá hefur skammarlega lítið verið gert. Þeir hafa verið á hrakhólum og átt erfitt uppdráttar, og hafa bændur oft haft lítil not af þeim. Þeir hafa orðið að taka sér bústað þar, sem hefur verið lítt mögulegt að ná til þeirra, og liggur í augum uppi, hve skaðvænlegt það er fyrir þá, sem þurfa að leita til þeirra. Það er því hið mesta nauðsynjamál að ákveða fasta aðsetursstaði fyrir dýralækna landsins.

Ég vil nú vonast til þess, að hv. fjvn. vildi taka þetta til athugunar. Og okkur þætti náttúrlega vænt um það flm., ef n. treysti sér til þess að mæla með þessari till. og hv. þm. veittu henni brautargengi.

Hin brtt., sem ég ætlaði að mæla fyrir, er ekki enn komin fram. En ég vil nú biðja hæstv. forseta að gera ekki aths. við það, þó að ég mæli fyrir henni nú, til tímasparnaðar, því að ég get ekki séð, að það sé ástæða fyrir mig til að taka tvisvar til máls, þar sem ég stend aðeins að tveimur till., þó að þessi till. sé ekki komin fram enn. Ég flyt þá brtt. í umboði hv. þm. N.-Þ., sem ekki getur mætt hér í þinginu. Þessi brtt. er við brtt. hv. fjvn. um vegamál á þskj. 296, við þann lið, sem nefndur er Kópaskers- og Raufarhafnarvegur. Brtt. fer fram á, að þessi fjárveiting verði færð úr 50 þús. kr., sem hv. fjvn. hefur nú lagt til við þessa umr., og upp í 80 þús. kr. — Nú sé ég, að hv. formaður fjvn. hefur farið út, en ég ætlaði honum sérstaklega að heyra það, sem ég segði um þetta mál, en náttúrlega má koma þessu til hans. — Þannig er ástatt um þennan veg, að leiðin milli Kópaskers og Raufarhafnar er 52 km. Á Raufarhöfn hefur verið reist mjög stór síldarverksmiðja. Þessi leið hefur verið það, sem kallað er bílfær, en þó með þeim annmörkum, að bílar hafa verið, að mér er sagt, 3 til 4 klukkutíma að fara þessa leið, og liggja þó öll ökutæki undir skemmdum, sem um veginn fara. Nú eru hins vegar orðnar miklar samgöngur um þessa leið og mikil flutningaþörf. Og fyrir löngu er Raufarhöfn orðin verzlunarstaður, þar sem er útibú kaupfélagsins á Kópaskeri. Og vegna þess, hvernig strandferðum er háttað, er það svo, að flutningar á nær allri verzlunarvöru, sem til Raufarhafnar er flutt, fara fram um þessa leið frá aðalstöðinni, kaupfélaginu á Kópaskeri. Og vegna síldarverksmiðju ríkisins þarna er mikil umferð af fólki um þessa leið, sem sérstaklega sækir til síldarverksmiðju ríkisins á Raufarhöfn, og má öllum vera skiljanlegt, að svo hlýtur að vera. Í þriðja lagi er svo þess að geta, að frá Raufarhöfn er flutt landleiðina allt það síldarmjöl, sem notað er í Norður-Þingeyjarsýslu, og þó meira heldur en það, sem þar er notað. Og jafnvel er það flutt þaðan landleiðina suður og austur í Norður-Múlasýslu. Það mun því augljóst öllum, sem þetta mál athuga, að það er feikimikil þörf á því, að þessi vegur verði lagfærður stórlega frá því, sem nú er, og endurbættur gagngert. En 50 þús. kr. mundi reynast mjög lítil fjárhæð í þessu skyni, eins og kaupgjaldi er nú háttað.

Mér er vel ljóst, að hv. fjvn. hefur lagt mikla vinnu í það að jafna niður vegaframlögum svo sem bezt má fara og taka hæfilegt tillit til óska þingmanna. Það er mikið vandaverk, sem ég býst við, að fjvn. hafi yfirleitt farizt vel. En þó vildi ég fyrir hönd þessa fjarstadda þm. fara eindregið fram á það, að n. vildi athuga þetta mál alveg sérstaklega. Og hygg ég, að allt mæli með því, að till. n. um þetta verði endurskoðuð. Ég skal taka það fram, að ég er fús til þess, ef hv. n. þykir betur á því fara, að taka þessa till. aftur til 3. umr.

Ég mun ekki ræða fjárlfrv. almennt. En ég vil þó taka undir eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. þm. Ísaf. Hann spurðist fyrir um það hjá hæstv. fjmrh., hvort ríkisstj. væri ekki ráðin í því að nota heimild, sem nú er fyrir hendi í gildandi fjárl. og fyrirhugað er að verði í fjárl. fyrir árið 1944, til þess að leggja til hliðar á sérstakan reikning eða færa til hliðar í bókhaldi hjá sér þær fjárhæðir, sem veittar eru til verklegra framkvæmda, en eigi eru notaðar. Ég vildi taka undir það, að ég teldi mjög æskilegt, að hæstv. ríkisstj. vildi gefa þinginu upplýsingar um sína stefnu að þessu leyti. Ég fyrir mitt leyti legg ákaflega mikið upp úr því, að þetta sé gert. Ef þetta er gert, þá má gera ráð fyrir því eins og nú horfir um þetta mál —, að það myndist þarna eins konar varasjóður til nauðsynlegra framkvæmda, sem Alþ. er nú búið að samþ., að þurfi að gera, og getur komið sér ákaflega vel fyrir alla hlutaðeigendur, þegar aftur verða skilyrði til þess að koma fram þessum framkvæmdum. En færi það nú svo, að það lægi ekki alveg ljóst fyrir, að ríkisstj. ætlaði að nota sér þessa heimild, þá er stórkostleg hætta á því, að menn kepptust við, og það af meira kappi en forsjá, að eyða þessum peningum nú þegar, og að það geti orðið það mikið kapp í því, að það verði lagt í framkvæmdir gersamlega að ófyrirsynju. Ég er sannfærður um það, að ef þing og ríkisstj. gætu orðið sammála um þessa stefnu, sem gert er ráð fyrir í frv., og það lægi alveg ljóst fyrir, t. d. fyrir næsta sumar, með yfirlýsingu ríkisstj. við umr. þessara fjárl., þá mundi það mikið orka á menn um að hugsa skynsamlega um framkvæmdir þeirra mannvirkja, sem þessar fjárhæðir eru ætlaðar til. Ég vil því eindregið taka undir það, að það væri æskilegt, að hæstv. ríkisstj. skýrði þinginu frá stefnu sinni að þessu leyti. Og mér fyndist mjög heppilegt, að hún væri á sömu skoðun um þetta atriði, — sem ég reyndar hef álitið, að hún væri.