10.09.1943
Neðri deild: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Frv. þetta er fram komið að ósk og tilhlutan þeirra manna, sem bezt þekkja og gegna störfum þeim, sem lögmannsembættinu í Reykjavík eru samfara. Meðan Reykjavík var að okkar mælikvarða lítill bær, þótti mega nægjast með einn embættismann til þess að leysa af hendi starf bæði fyrir bæinn og ríkið. Það var bæjarfógetinn í Reykjavík, sem fór með öll þessi störf fram til 1. jan. 1908. Þá var þessu gamla bæjarfógetaembætti í Reykjavík skipt þannig, að bæjarfógetinn fór með ríkisstörfin, og borgarstjórinn, sem þá fyrst var kosinn, fór með bæjarstörfin. Þá var það orðið svo, að það þótti ofætlun einum manni að fara með öll þessi störf og ekki heppilegt bæjarins vegna, því að starfsþrek hans og tíminn til þessara starfa mundi verða of lítill, þegar hann hefði jafnframt ríkisstörfin með höndum. Þessu skipulagi er haldið í tíu ár, að bæjarfógetinn og borgarstjórinn fara með þessi störf. En 1918 er bæjarfógetaembættinu skipt í bæjarfógeta- og lögreglustjóraembætti. Lögreglustjóri hefur lögreglustjórn og tollheimtu, en bæjarfógeti yfirleitt dómsvaldið. Þetta skipulag stendur svo næstu 11 árin, því að þá er gerð skipting með l. frá 1927, þannig að nú verða þessi embætti þrjú. Lögmaður hefur aðallega dómstarfið, lögreglustjóri fer með lögreglustjórn og dómstarf opinberra mála og svo tollstjórn. Þannig er þessu varið, að með ríkisstarfið hafa farið þrír embættismenn, og var svo til 1940. Þá er lögreglustjóraembættinu skipt í lögreglustjóraembætti og sakadómaraembætti. Lögreglustjóri fer með lögreglustörf, en sakadómari með opinber mál. Hér í bæ eru því sem stendur fjögur ríkisembætti í þessum málum, lögmannsembættið, lögreglustjóraembættið, sakadómaraembættið og tollstjóraembættið.

En eins og ég sagði í upphafi, þá telja þeir menn, sem þessum málum eru kunnugastir, að lögmannsembættið sé svo margþætt og umsvifamikið, að ofætlun sé einum manni að hafa nægilega yfirsýn og eftirlit með rekstri þess embættis. Eins og kunnugt er, heyra öll dómstörf í einkamálum, skiptagerðir, fógetagerðir, uppboðsgerðir, þinglýsingar og ýmislegt fleira undir þetta embætti. Í frv. þessu er þess vegna stungið upp á, að þessu embætti sé skipt í tvö embætti. Heiti annað embættið borgardómaraembætti, og undir það heyri dómstarf í þrengri merkingu í einkamálum. Þau eru orðin afar mikil hér og hafa raunar lengi verið. Bæði er það, að viðskiptalíf er í Reykjavík umfangsmeira en á öllum öðrum stöðum á landinu, og svo er að því að gæta, að það er ekki svo lítill fjöldi mála, sem menn utan af landi beinlínis semja um, að skuli flutt og varin og dæmd hér í Reykjavík. Hitt embættið er lagt til, að heiti borgarfógetaembætti. Í því starfi séu fógetagerðir, skiptagerðir, uppboð, veðmálabókahald auk fleira. Það má náttúrlega deila um það, hvernig þessi skipting sé heppilegust. En mér hefur virzt, að skipta ætti þessu þannig í aðaldráttum.

Höfuðnýmælið í þessu frv. er vitanlega skipting þessa embættis. En ég vil þó rétt benda á tvö önnur. Annað er niðurfall lóðamerkjadóms. Er ætlazt til, að borgardómari sé formaður lóðamerkjadóms og nefni sér meðdómendur eftir því, sem l. standa til, og vísast til 3. kafla landamerkjalaga nr. 41 frá 1919, m. ö. o., að það gildi sömu reglur um fasteignamál hér í Reykjavík sem annars staðar á landinu.

Hitt nýmælið, sem ástæða er til að minnast á, er það, að stungið er upp á, að þinglýsingum svo kölluðum á fasteignum o. fl. verði hætt.

Þessar þinglýsingar eru orðnar ekkert annað en hreint form. Það er skráð í þingbækurnar litra og númer á þeim bréfum, sem á að þinglýsa. Efnið er vitanlega ekki lesið upp, því að það tæki svo langan tíma, að ekki yrði yfir komizt. Á þetta hlustar enginn maður, nema dómarinn og réttarvottarnir.

Ég hef þá vakið athygli á hinum þremur höfuð nýmælum, sem í frv. eru. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., en geri að till. minni, að málinu verði að lokinni umr. vísað til allshn.