08.10.1943
Neðri deild: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þetta frv. og mælir með, að það verði samþ. Hún flytur engar brtt. við það, en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja og fylgja brtt.

Meginefni frv. er skipting lögmannsembættisins í Reykjavík í borgardómara- og borgarfógetaembætti. N. telur þetta eðlilega breyt., þar eð lögmannsembættið er orðið svo umfangsmikið. Það þarf ekki annað en nefna það, að fulltrúar lögmanns eru nú orðnir 10 og starfa víða í skrifstofum úti um bæinn. Í raun og veru verður lögmaður að hafa eftirlit með öllum dómum og úrskurðum í bænum, og má segja, að útilokað sé, að einn maður geti komizt yfir að sinna því eins og æskilegt væri.

Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að nauðsyn þessarar skiptingar, hún er þegar viðurkennd. En þess má geta, að ekki er gert ráð fyrir, að kostnaður aukist við starfið.

Þetta frv. hefur nokkrar aðrar breytingar í för með sér, en ég mun ekki fara ýtarlega út í þær. Ein er sú að afnema aðferð við þinglýsingu eða aflýsingu, sem nú er viðhöfð, og er bent á það í grg. Það er þýðingarlaust formsatriði.

Önnur breyt. er um skipun merkjadóms. Hann er skipaður 3 mönnum, en með þessu frv. er gert ráð fyrir, að borgardómari sé formaður í þeim dómi eins og í öðrum fjölsetnum dómum, eins og t. d. sjórétti. Eftir þessu verður sú niðurstaða með fasteignamál í Reykjavík, að um þau gilda framvegis reglur í l. nr. 41 frá 1919, um landamerkjamál. Fleiri breyt. hefur frv. ekki í för með sér.

Þó er eitt þrætuepli í frv. Í núgildandi l. er ákveðið með konunglegri tilskipan, að undanþiggja megi, að lögfræðipróf sé sett að skilyrði fyrir veitingu lögreglustjóraembættisins. Í frv. er þessi undanþáguheimild felld burt, þótt ekki sé haggað við skipan núverandi lögreglustjóra. N. leggur þann skilning í frv.

Hins vegar flytur einn nm., hv. 1. þm. Árn., brtt. þess efnis, að lögreglustjóri þurfi ekki að fullnægja lögmæltum skilyrðum til skipunar í héraðsdómaraembætti, þurfi ekki að hafa lögfræðipróf.

Ég bið hv. þm. velvirðingar á því, þótt ég geri þessa brtt. hér að umræðuefni, áður en hann hefur mælt fyrir henni sjálfur. En bæði er kunnugt frá síðasta þ. um þetta atriði og svo var aftur flutt hér frv. í byrjun þessa þ. um að afnema umrædda undanþáguheimild. Eins er komið inn á þetta í grg.

Í frv. um þetta efni, eins og það hefur verið flutt áður, var gert ráð fyrir, að núverandi lögreglustjóri viki úr embætti að brottfallinni undanþáguheimildinni, en þó skyldi honum gefinn kostur á öðru starfi með eigi lakari kjörum. Þetta frv. gerir aftur á móti ekki ráð fyrir, að afnám undanþáguheimildarinnar hafi nein áhrif á skipan núverandi lögreglustjóra. Það, sem 4 nm. gegn 1 greinir því á um, er það, hvort setja skuli lögfræðipróf að skilyrði fyrir veitingu embættisins í framtíðinni eða ekki. Hv. 1. þm. Árn. telur ekki ástæðu til þess.

Þó að lögreglustjóra séu að vísu ekki falin dómstörf, þá teljum við, að mjög mörg mál heyri undir hann, sem krefjist lögfræðiþekkingar. Að nauðsynlegt skuli þykja að láta hann hafa löglærðan fulltrúa sér við hlið, sýnir það, að lögfræðiþekkingar sé þörf við lausn verkefna í störfum hans. Við þekkjum einnig, að það er talið óeðlilegt, að yfirmenn leiti til undirmanna sinna sökum vankunnáttu í starfi sínu. Réttara þykir að krefjast þekkingarinnar af þeim sjálfum.

Lögreglustjóri ásamt lögreglunni á að sjá um að halda uppi almennri reglu. Í þessu felst m. a., að hann þarf að setja lögreglunni reglur gagnvart borgurunum, t. d. um handtökur, hvernig þær eiga að fara fram, hvert þarf að vera skilyrði fyrir þeim o. s. frv. Þetta er erfitt og viðkvæmt mál, og sú hefur — því miður raunin á orðið stundum, að lögreglumenn hafa farið að ólögum í þessum efnum og verið ýmist sóttir og dæmdir til refsingar eða ríkissjóður verið dæmdur til fjárútláta þeirra vegna. Nú má ekki skilja orð mín svo, að ég sé að sneiða að núverandi lögreglustjóra. En ég bendi aðeins á, að þetta eru svo viðkvæm mál, að þau krefjast eðlilega og nauðsynlega lögfræðiþekkingar.

Annar flokkur, sem heyrir undir lögreglustjóra, eru strandmál. Í þeim málum koma oft fyrir hin erfiðustu lögfræðiatriði.

Sama máli gegnir um heilbrigðismál. Lögreglustjórar eru sjálfkjörnir formenn heilbrigðisnefnda. Niðurstaðan hefur orðið sú, að hvergi á landinu er starfandi heilbrigðisnefnd í bæjum, sem enginn lögfræðingur á sæti í, að höfuðstaðnum undanskildum, því að hér er enginn lögfræðingur í þeirri n.

Enn fremur má nefna útlendingaeftirlitið og útgáfu vegabréfa, sem heyrir undir lögreglustjóra. Í öllum þessum efnum er lögfræðiþekking nauðsynleg.

Ég vil minna á, að á síðasta þ. var frv. um þetta efni sent lagadeild háskólans til umsagnar, og mælti hún einróma með því, að það yrði samþ.

Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta mál. Ég er andvígur brtt. hv. 1. þm. Árn., og sama gegnir um hina nm. Það var eina ágreiningsefnið í n., en n. í heild leggur til, að frv. verði samþ.