08.10.1943
Neðri deild: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Dómsmrh. (Einar Arnórsson) :

Herra forseti. Ég skal leyfa mér að þakka hv. n. fyrir meðferð á þessu frv. og þær brtt., sem hún hefur komið fram með við það.

Það er einn ágreiningur milli meiri hl. og minni hl. n., sem ég tel ofurlitla ástæðu til að fara nokkrum orðum um, og það er niðurfelling undanþágu í gildandi l., sem sé undanþágu frá því, að lögreglustjórinn í Reykjavík þurfi að hafa lögfræðipróf. Ég held, að það sé höfuðregla, að lögreglustjórinn í Reykjavík sé löglærður maður.

En það þýðir ekki sama sem það, að það eitt sé nóg, að hann hafi aðeins lögfræðipróf, heldur hafi þá lífsreynslu, sem héraðsdómari hefur minnsta. En ég játa, að hv. frsm. minni hl. n. hefur rétt fyrir sér í því, að það er æskilegt og jafnvel sjálfsagt að gera þá kröfu til þess manns, sem á að vera lögreglustjóri hér í Reykjavík, að hann hafi fyrst og fremst raunhæfa þekkingu á þeim málum, sem sérstaklega varða lögreglustjórastarfið. Ég er alveg á sama máli og hann um það. Og það kann að vera, að það sé í raun og veru gáleysi af mér, að ég hef ekki sett í frv. kröfu um það atriði. Ég hafði sem sé hugsað mér, að það væri veitingarvaldsins í hverju sinni að gera þær kröfur. En ég sé ekki betur en það megi mjög vel samrýma sjónarmið beggja nefndarhlutanna um þetta atriði. Ég teldi vel fallið hér, eins og ég veit, að er almennt siður á Norðurlöndum, að gera þær kröfur í praksís, að lögreglustjórar hafi praktíska þekkingu, ekki aðeins lögfræðiþekkingu, heldur á stjórn og skipulagi lögregluliðs og lögreglumála. Nú sýnist mér, að þessu mætti vel fullnægja hér, t. d. með því, að lögreglustjórnin, hver sem hún er, sæi sér út sérstaklega hæfa menn meðal lagastúdenta og síðar meðal kandídata til þess að gegna störfum í lögregluliði og kynna sér störf þessi erlendis og skipulagningu þessara mála. Í Kaupmannahöfn, þar sem ég þekki sérstaklega til, eru lögreglueftirlitsmenn, sem eru ævinlega júristar, — a. m. k. var það svo í gamla daga. — Það voru menn, sem voru þjálfaðir lögreglumenn og áttu að vera vel heima í starfi og háttum lögreglunnar. Þessi tilhögun sýnist mér, að ætti að vera hér í Reykjavík, þar sem Reykjavík er orðinn svo fjölmennur bær.

Ég vil skjóta því til hv. n., hvort hún vilji ekki á milli umr. taka þetta til athugunar og koma með till. varðandi lögreglustjórn í Reykjavík í þessa átt, sem ég nefndi.

Annars sé ég ekki ástæðu til þess að fara út í þær deilur eða þann meiningamun, sem komið hefur fram milli hv. frsm. um einstök atriði málsins.