08.10.1943
Neðri deild: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Jörundur Brynjólfsson:

Ég þarf ekki mörgu að svara nema þá helzt hv. frsm. (GTh). Hæstv. dómsmrh. (EA) viðurkenndi nauðsyn þess, að lögreglustj. í Rvík uppfyllti ýmis önnur skilyrði en vera löglærður, og í sama streng tók hv. 10. landsk. (GSv). Þetta var meginatriði ræðu minnar, og er ég þakklátur fyrir þá viðurkenning og treysti því, að sú viðaukagrein fáist sett inn í frv., sem tryggir, að á fleira verði litið en lögfræðimenntina eina. Ef brtt. mín næði samþ., stæði ráðherra vitanlega opið að velja lögfræðing í embættið, — gagnstætt því sem hv. frsm. virðist skilja hana, — og að öðru jöfnu mundi ráðherra sjálfsagt velja hinn löglærða. Mér fannst hv. 10. landsk. og hv. frsm. vera óþarflega hörundsárir við orð mín um lögfræðinga, því að ég held ég hafi viðurkennt að fullu kosti þeirra á sínu sviði. Báðir játuðu, að æskilegt væri, að lögreglustj. uppfylltu ýmis önnur skilyrði, en hvar stendur það í l.? Ekki í þessu frv. Og það á að standa í þessu frv. Þar fara mjög saman skoðanir okkar hæstv. dómsmrh. Og þótt það væri áðan á dálitlum misskilningi byggt hjá hv. 10. landsk., að á síðasta þingi hafi það eitt vakað fyrir mér að hindra, að núv. lögreglustj. færi úr embættinu, og hyggi þetta frv., sem ýtir ekkert við þeim manni, miklu aðgengilegra fyrir mig, er honum nú væntanlega ljóst, að svo var ekki fyrir mér og er ekki, heldur er meginatriðið sama hjá mér og honum: að tryggja, að lögreglustj. hafi margt annað til brunns að bera en lögfræðiprófið. Ég er honum vissulega sammála um, að lífið er margbrotnara en svo, að nokkur sérfræðigrein sé einhlít þeim manni, sem vera skal lögreglustjóri í Reykjavík, og þess vegna þurfi frv. umbótar í þessu atriði.

Milli okkar 10. landsk. er því lítill skoðanamunur, ef hann er nokkur.

Það er engin deila milli okkar hv. frsm. En mér finnst hann leggja sig óþarflega í framkróka að sýna, að orð mín séu aðeins byggð á misskilningi og sögð út í loftið, samtímis því sem hann fellst nú á þörf þess, sem óþarft þótti í n., áður en brtt. mín kom hér fram. Í því er ósamræmi hjá honum, og hann ætti að gæta að, hvort hann er ekki óvart að komast á mína skoðun, sem honum þóknast að tala um sem tóman misskilning.

Hann hafði það eftir mér, að það væri einfalt mál að handtaka l eða 2 menn. Hvenær sagði ég það? Sleppir hann ekki einhverju aftan af setningunni? Ég sagði á þá leið, að það væri einfalt mál að handtaka l eða 2 menn í samanburði við ýmislegt annað, sem reynir þolrif lögreglustjórans. Hitt er annað mál, að hvenær sem maður er handtekinn, verður það að vera á góðum ástæðum byggt. Ég ætla, að það hafi sloppið fram hjá þm., sem ég sagði um þetta efni.

Þar sem ég hef fengið svo góðar undirtektir hjá hæstv. ráðh. og öðrum um lagfæring á frv. í svipaða átt og fyrir mér vakir, mun ég taka brtt. mína aftur til 3. umr.