04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

27. mál, fjárlög 1944

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns benda á, að æskilegt væri, að hv. fjvn. væri hér til að hlusta á þau mál, sem hér eru borin fram sérstaklega til hennar. Ég sé, að hv. frsm. er hér og hv. form. er að koma. Mér finnst minnsta krafa, sem hægt er að gera til n., sé það, að hún sé hér, þótt það sé erfitt verk, til að hlusta á þau mál, sem fram koma, en það er þó ekki meiri kross en er lagður á hæstv. forseta Sþ. Ég veit ekki, til hvers umr. eru um fjárl., þegar fjvn., sem ræður mestu, hvernig þessi mál eru útkljáð, er ekki viðstödd til að hlusta á mál manna og þau rök, sem þar koma fram. Mér finnst alveg sjálfsagt, að hún kynni sér sem bezt, hvaða óskir þm. hafa fram að bera, því að hún á að leggja á þau síðustu hönd, áður en Alþingi tekur sína endanlegu afstöðu.

Ég hef borið fram brtt. á þskj. 314, og vil ég náttúrlega mælast til þess við hv. frsm. meiri hl., fyrst hann einn allra nm. er hér við, að hann komi aths. mínum til n. (Forseti (FJ) : Það eru fleiri við en hann). Já, hæstv. forseti einnig, það er rétt.

Ég flyt hér brtt. um að veita 25 þús. kr. til símalínu í Suðurfjarðahreppi. Ég vil minna á, að þessi lína var tekin í símalög árið 1935 ásamt fjölda mörgum öðrum símalínum, og þetta er ein af mjög fáum línum, sem eftir er að leggja frá þeim tíma, en aðrar línur hafa verið lagðar, sem hafa komið löngu síðar. Ég skal viðurkenna, að hv. fjvn. hefur fallizt á till. póst- og símamálastjóra að taka Barðastrandar- og Skálmarneslínu í fjárl. nú, en það er rétt, að þetta sé látið fylgjast að, og vil ég í því sambandi benda á, að nýlega upplýstist, að Barðastrandarsýsla er þriðja sýslan neðan frá um vanrækslu í símamálum á landinu. Mætti það vera hv. fjvn. nokkur leiðarvísir, þegar hún er að úthluta fé úr ríkissjóði til nýbygginga og endurbóta á símalínum landsins. Það hefur verið samþ. að veita fé til að bæta úr erfiðleikum á Djúpuvík og talað um að leggja þangað fjölsíma. Ég sé engum ofsjónum yfir því, en ég vil leyfa mér að benda á, að það er engu minni nauðsyn, að slíkt verði gert fyrir Patreksfjörð, þar sem er miklu meiri atvinnurekstur, sem er stundaður allt árið, en á Djúpuvík. Ég treysti því hv. fjvn. að taka þetta mál til athugunar, og í trausti þess vil ég taka þessa till. aftur til 3. umr., ef það mætti verða til þess, að samkomulag yrði um till. við n.

Þá hef ég einnig flutt 4 brtt. um framlög til vega. Í því sambandi vildi ég sérstaklega ræða við hv. frsm. meiri hl. Þegar hann ræddi um skiptingu vegafjár milli einstakra héraða á landinu, sagði hann, að n. hefði reynt að taka tillit til óska þm. um framlög til vega og hann óskaði því eftir, að þm. tækju aftur þær till., sem þeir hefðu flutt um frekari fjárframlög á því sviði, en ef þeir væru ekki svo auðsveipir að gera það, þá skoraði hann á þm. að fella þessar till. Hv. 2. þm. S.-M. staðfesti í sinni ræðu, að hér hefði hv. fjvn. tekizt giftusamlega, þó að út undan hefði orðið vegur í Norður-Þingeyjarsýslu. Í sambandi við þetta vil ég mega spyrja hv. frsm. meiri hl. og aðra nm., eftir hvaða meginreglu fjvn. úthluti vegafénu. Hér er skipt milljónum milli einstakra héraða, og ég læt mér ekki detta í hug, að það sé gert úr í bláinn, heldur sé fylgt einhverri fastri reglu: Ég get hugsað mér, að það sé gert með tilliti til samgönguþarfarinnar á hverjum stað, og ég get hugsað mér, að það sé gert með tilliti til fólksfjölda í hverju héraði eða atvinnuþörf á hverjum stað. Mér dettur ekki í hug að ætla, að hér séu látin ráða einhver ákveðin ásóknaröfl, af því að hægt sé að skapa ákveðið atkvæðamagn til að koma fram slíkum till. Nú er vitað, að það eru héruð úti á landi, sem hafa alltaf verið útundan undanfarin ár um vegaframkvæmdir. Og þegar ég sé, að fjvn. gerir till. um að setja inn í fjárl. nýjan lið um að veita 250000 kr. til Krýsuvíkurvegar, sem búið er að rífast um mörg undanfarin ár, þá dettur mér ekki í hug að halda, að það sé gert af hreinni þörf fram yfir þarfir annarra héraða. Mér dettur ekki í hug, að neinn af þeim, sem situr í fjvn., láti sér detta í hug, að meiri þörf sé að láta 250000 kr. í þennan veg nú en að leysa allra brýnustu þörf ýmissa héraða, sem nú eru að kikna undan því ástandi, sem nú er þar í vegamálum. Það ætti að vera þungt á vogarskálinni hjá hv. fjvn., að það verður ekki hjá því komizt að bæta eitthvað aðstöðu þeirra manna, sem minnst hefur verið gert fyrir í vegamálum, og þeir verða nú að ganga fyrir þeim, sem alltaf hefur verið hlúð að í þessu efni. En þetta virðist ekki hafa verið gert í þetta skiptið í fjvn. Ég vil m. a. leyfa mér að benda á, að í 26. lið í till. fjvn. er lagt til að veita 85 þús. kr. til Rafnseyrarheiðarvegar. Mér dettur ekki í hug að koma með þetta dæmi af því, að þessi vegur sé ekki nauðsynlegur, en ég vil aðeins taka þetta dæmi til samanburðar, því að það hefur einnig verið ætlazt til, að 80000 kr. færu í Barðastrandarveg. Samanburður á þessum tveimur vegum er sem hér segir: Barðastandarvegur á að tengja hvorki meira né minna en fjóra hreppa við aðalsamgönguleiðir landsins, og þar búa ekki minna en 3000 manns. Hann á að verða til þess, að hægt sé að koma mjólk til um þúsund manns og til þess að hægt sé að skapa sæmileg lífsskilyrði íbúa annars hrepps, þar sem þessi mjólk er framleidd. Hins vegar á Rafnseyrarheiðarvegur aðeins að vera til að koma í samband einni lítilli sveit, sem nú er að hálfu leyti komin í eyði. Það getur verið, að hún sé komin í eyði meðfram af því, að hún hefur engan veg, en ég legg ekki saman þörfina á þessum vegi og þörfina á því sambandi, sem fæst með Barðastrandarveginum. En það hefur alltaf verið komið í veg fyrir, að Barðastrandarvegurinn fengi nauðsynlega fjárveitingu, svo að það er ekki að undra, að menn séu óánægðir með þær aðgerðir. Nú dettur mér ekki í hug að halda fram, að of miklu hafi verið eytt í Rafnseyrarheiðarveg, — síður en svo. Vesturkjálkinn hefur alltaf verið svo illilega útundan, að það þyrfti að tvöfalda þá upphæð, sem á nú að fara til vega þar, áður en hægt er að finna nokkurn snefil af rökum fyrir, að eigi að láta hundruð þúsunda í Krýsuvíkurveg.

Nei, hér hljóta að vera að verki einhver önnur öfl en þekking þessara manna, og leyfi ég mér því að mælast til, að þeir leiti þeirrar þekkingar hjá öðrum þingbræðrum sínum, sem hafa hana og geta gefið upplýsingar um málin, því að mér virðist, að um úthlutun vegafjárins hafi eitthvað annað ráðið hjá n. en það, hvar þörfin er mest.

Nú vil ég í trausti þess, að fjvn. taki þetta mál á ný til athugunar, taka þessar till. mínar aftur til 3. umr. Ég sendi fjvn. afrit af bréfi til stj. um framlag til þessara vega, um það leyti, sem n. hóf starf sitt. Þar var farið fram á, að fjárveiting til þessara vega væri færð upp í þá upphæð, sem þar er tekið fram, því að þar eru gerðar þær minnstu kröfur, sem hægt er að sætta sig við í þessum málum. Ég vil m. a. benda á fjárframlag til Gufudalssveitarvegar til þess að reyna að koma þeim hreppi í vegarsamband, en hann hefur nú engan vegarspotta, sem tengi hann við aðra hreppa, og enga höfn til að geta komizt að sjó til þess að geta flutt að sér þá leið. Múlahreppur og Gufudalshreppur eru nú gersamlega einangraðir, og þar er ekki hægt að flytja vörur nema á klökkum eða litlum trillubátum. Þetta er ekki að búa við sömu kjör og aðrar sveitir í þessu landi hafa nú við að búa.

Þá hef ég flutt á sama þskj. í IX. lið till. um, að teknar séu upp tvær brýr í Austur- og tvær í Vestur-Barðastrandarsýslu. Ein af þessum ám, Arnarbýla, er á leiðinni milli Patreksfjarðar og Barðastrandar, og það hefur einatt komið fyrir, að þegar búið hefur verið að fara yfir heiðina og komið að ánni, þá hefur hún verið ófær, og menn hafa orðið að snúa við, þó að ekki væri nema 100 metrar til bæja, og leggja aftur á fjallveginn 3–4 tíma ferð. Að ekki er búið að brúa þessa á, mun stafa af því, að vegamálastjóri telur, að spara megi kostnað við eina brúna, ef þær eru byggðar allar í senn. Ég legg því til, að á næsta ári verði veitt fé til að brúa Arnarbýlu á Barðaströnd, Móru á Barðaströnd, Músará í Þorskafirði og Þorskafjarðará, 35000 kr. fyrir hverja á. Það er útilokað, að hægt sé að komast yfir þessar ár á bílum. Svo að það er ekki nema hálft gagn að því að leggja fé í veginn á Þorskafjarðarheiði eða í veginn vestur úr, nema þessar ár séu brúaðar. Ég vil einnig leyfa mér, í trausti þess að hv. fjvn. taki þetta til athugunar, að taka þessar brtt. aftur til 3. umr.

Þá hef ég einnig leyft mér að flytja hér á sama þskj. brtt., sem er 12. liður, um framlag til viðhalds og endurbóta á prestssetrinu Brjánslæk, 10 þús. kr. Ég sé, að hv. fjvn. hefur hækkað framlagið til húsabóta á prestssetrum úr 80 þús. kr. upp í 100 þús. kr., sem á að fara til byggingar nýrra húsa. En hv. fjvn. hefur ekki hreyft við endurbótum á gömlum húsum á prestssetrum. Nú er svo ástatt um þennan stað, Brjánslæk, að þar er að verða mikill ferðamannastraumur, m. a. má geta þess, að mánuðina júní-ágúst s. l. sumar komu þar um 1500 manns, bæði sem gestir að degi til og næturgestir. Húsakynni eru þannig á þessum stað, að það er verið að gereyðileggja það hús, sem þar er, með vanrækslu á viðhaldi. Og staðurinn hefur verið prestslaus um langan tíma. Og vegamálastjóri, sem hefur haft með það fé að gera, sem veitt hefur verið til gistihúsa, sem liggja uppi undir heiðum, hefur ekki séð sér fært að veita af því fé til endurbóta á þessu húsi. Þetta var rætt við biskup á síðasta ári og landssímastjóra og vegamálastjóra, og þeir skrifuðu ásamt mér til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að fá fé til þess að bæta úr þessari aðkallandi þörf þegar á síðasta sumri. Eftir að það mál hafði legið þar óhæfilega langan tíma, talaði ég við skrifstofustjórann í ráðuneytinu og bað um svar. Og dóms- og kirkjumálaráðuneytið leyfði sér þá ósvinnu að senda til baka eitthvert það ósvífnasta bréf, sem ég nokkurn tíma hef séð koma frá slíku ráðuneyti. Og ekki einasta það, heldur leyfði skrifstofustjórinn í þessu ráðuneyti sér að senda líka óhróðurs- og áróðursbréf til ýmissa málsmetandi manna út um landið. Þetta eru viðtökurnar, sem þetta mál fékk hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Ég átti svo langt tal við biskup á eftir um þetta, sem ásamt mér var undrandi yfir þessum móttökum. En við þessu var ekkert hægt að gera, heldur varð að fara þá leið að leita til hæstv. Alþ. í þessu skyni, og þess vegna hef ég farið þá leið hér, að sjá, hvort Alþ. vill undirstrika stefnu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um þetta mál eða hins vegar bæta úr eins og hægt er. Ég mun ekki taka þessa brtt. aftur, því að ef svo skyldi fara, að hún næði ekki fram að ganga, þá mundi ég bera fram brtt. um, að af þessum 70 þús. kr., sem ætlaðar eru til endurbóta á gömlum íbúðum, verði sérstaklega ráðstafað 10 þús. kr. til Brjánslækjar. Hér er í raun og veru ekki um annað að ræða en að eignir ríkissjóðs fari ekki svo gersamlega í niðurníðslu, að þær verði einskis virði, auk þess sem þetta er til þess að fyrirbyggja það, að þeir menn, sem verða að leita þar húsaskjóls, séu ekki látnir liggja í lélegum hlöðum eða fjárhúsum — sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur ekki heldur séð um að byggja upp, svo sem nauðsynlegt hefði verið, svo að þetta gamla menningarsetur væri ekki því og landinu til stórskammar.

Þá hef ég borið hér fram á sama þskj. brtt. undir lið XXII, við 18. gr., um það, að styrkir til frú Sigríðar Snæbjörnssen og Sumarliða Guðmundssonar verði hækkaðir úr 500 kr. í 700 kr. til hvors um sig. Ég sé, að hækkaðir hafa verið sumir styrkir til sams konar starfsmanna upp í þessa upphæð. Og ég vil benda á, að frú Sigríður Snæbjörnssen hefur með ákaflega mikilli samvizkusemi stundað sín störf við símavörzlu um 30–40 ár og gert það með svo mikilli prýði, að hún á skilið að fá eftirlaun, ef nokkur á skilið að fá slík eftirlaun. — Sumarliði Guðmundsson póstur hefur orðið að fara í sínum póstferðum ýmist gangandi eða ríðandi yfir verstu fjöll, og ef nokkur póstur á skilið að sitja í hæsta eftirlaunaflokkinum, þá er það hann. Ég vænti því, að hv. fjvn. vilji fallast á þessar till., og með þeim rökum vil ég taka þær aftur til 3. umr.

Síðasta brtt. mín á þessu þskj. er undir lið XXVI. Þarna er misritun á þessu þskj. Mín till. var um 300 kr., en ekki 700 kr., vegna þess að 300 kr. mun hafa verið það hámark, sem miðuð hefur verið við fjárgreiðsla á þennan hátt til slíkra embættismanna eins og fiskimatsmanna, þegar þeir láta af störfum. En það stendur svo á hér, að Marsibil Sigurðardóttir er einasta konan á Íslandi, sem hefur verið fiskimatsmaður. Hún hefur starfað sem fiskimatsmaður síðan 1922 og með svo mikilli prýði, að það er eins dæmi. Og á henni hvíldi aðallega þetta starf á þeim stað, þar sem hún starfaði, síðan 1938, eða eftir að hinn mæti maður Júlíus Nikulásson fiskimatsmaður dó. Og ég hef þann kunnugleika frá fiskimatsstörfum þessarar konu, að hún hefur með fádæma prýði leyst þessi störf af hendi. En ég tek þessa brtt. aftur til 3. umr., vegna þess að ég fer ekki fram á, að henni verði greitt meira en öðrum fiskimatsmönnum, sem láta af störfum. Hún er á áttræðisaldri og verður að láta af störfum fyrir aldurs sakir.

Þá hef ég hér á þskj. 331 borið fram brtt. undir lið II, þar sem farið er fram á, að veittar verði til endurbóta á Rauðasandsvegi 10 þús. kr. Þetta var ekki sent til fjvn., en í fullu trausti þess, að n. taki þetta mál til athugunar, tek ég brtt. aftur til 3. umr., en vil til skýringar benda á það, að það var lagður þarna þjóðvegur milli 1934 og 1937. Vegamálastjóri var með mér á þessum stað árið 1942 og viðurkenndi, að það væri svo mikil nauðsyn á að leggja þennan veg, að það gæti ekki dregizt lengi. Hann hefur hins vegar lýst yfir nú, að hann treysti sér ekki til að taka þetta viðhaldsfé, sem ég ætlaðist til, og þess vegna bar ég það ekki fram sem nýjan veg, að málið stóð þannig, sem ég hef greint. En vegamálastjóri óskaði eftir, að ég setti þetta inn sem brtt. við fjárl. Ég vænti því, að þetta verði tekið til athugunar milli umr.

Ég hef þá lokið máli mínu um mínar brtt., en vildi aðeins, áður en ég sezt niður, minnast ofurlítið á ræðu hv. 2. þm. Reykv. áðan, út af þeim 10 millj. kr., sem hann talaði um, að þeir í minni hl. fjvn. legðu til, að lagðar yrðu til hliðar af tekjum ríkissjóðs til þess að byggja skip fyrir. Ég verð að segja það, að ef það væri ekki fyrir það, að það er svo erfitt að hafa nokkra samvinnu við menn, sem hafa þó setið á þingi í öll þessi ár, eins og hv. 2. þm. Reykv., þá væri hægt að taka slíkt tal alvarlega. En það er bara ekki hægt, eftir að hafa heyrt, að hann kann ekki betur né skynsamlegar að haga orðum sínum heldur en hann gerði hér áðan, þegar hann bar útgerðarmenn í heild þeim sökum, að þeir vildu skapa atvinnuleysi eftir stríðið bara til þess að geta kúgað niður kaup verkamanna, — þessa menn, sem eru í hópi stærstu atvinnurekenda þjóðarinnar og standa undir því að afla mikils af því fé, sem m. a. þessi hv. þm. er að dreifa út til þjóðarinnar aftur. Það er ekki hægt að taka slíkar þingpersónur alvarlega, sem leyfa sér að bera slíkar ásakanir á atvinnurekendur þjóðarinnar, sem langmest standa undir því að halda uppi atvinnu í landinu. Og að hv. 2. þm. Reykv. skuli leyfa sér þetta án þess að blygðast sín, nær út fyrir öll takmörk velsæmis. Væri ekki þessi agnúi á, vildi ég hafa víðtæk samtök við þennan hv. þm. og aðra hv. þm. og flokka um að athuga, hvort ekki væri hægt með því að laga tekjuskattsl. að halda gróðanum í útgerðinni, þannig að séð væri um, að honum yrði ekki eytt til annars en að kaupa fyrir skip að stríðinu loknu, eða fyrr, eftir ástæðum, til aukningar fiskiflotanum. Hv. 2. þm. Reykv. virðist vera kominn svo langt í skilningi á þessu máli, að honum sé ekkert keppikefli, að þessi skip séu eign ríkisins, heldur sé fyrir honum aðalatriðið, að þau séu til. Og til þess að ná þeim árangri, væri langréttasta leiðin að breyta þannig skattal., að gróði útgerðarinnar sé settur fastur hjá þeim, sem eiga hann, og þeim sé gert að skyldu að nota hann til þess að byggja skip fyrir eftir stríð. En ég geri ekki ráð fyrir, að þessi hv. þm. vildi fara inn á þá leið, svo fast hefur hann og hans flokkur sótt það að reyta aftur af útveginum það, sem aflazt hefur honum af fjármunum, svo að hann hefði ekkert annað að gera heldur en að gefast upp, þegar erfiðu árin koma. — Mér fannst fullkomin ástæða til þess að mótmæla þessum orðum hv. þm. á þessu stigi málsins, en að öðru leyti gefst tækifæri til þess að ræða þetta við 3. umr.