12.10.1943
Neðri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Þóroddur Guðmundsson:

Það hefur borið á góma, hvernig afgreiðslu málið hafi fengið í allshn. og hver sé afstaða n. gagnvart skrifl. brtt. frá þm. N.-Ísf. Ég tel mig hafa óbundnar hendur að fylgja henni, og því var lýst yfir í n., að nm. væru óbundnir. Ég fylgi till. af því, að sú nauðsyn, sem n. taldi vera á því, að lögreglustjóri sé löglærður, er þegar fyrir hendi og brtt. er aðeins rökrétt afleiðing af því áliti n. Það væri ósamræmi að samþ. brtt. n., en fella skrifl. brtt., því verður ekki neitað. Þeir þm., sem halda því fram, að lögreglustjóri þurfi ekki að vera löglærður, hafa farið svo halloka í umr., að ekki er þörf, að ég bæti þar við. En þessir þm. leggja því meiri áherzlu á, að lögreglustjórinn þurfi að hafa þekking á háttum og störfum lögreglunnar og, — eins og hv. 1. þm. Árn. orðaði það, — kunni að beita lögreglunni gegn hópi manna“, það sé nauðsyn, að lögreglustjóri hafi hernaðarlega menntun. Þetta er í samræmi við það, að lögreglan er daglega látin æfa sig að skjóta úr skammbyssum, og talið er, að nú eigi að fara að æfa hana við að skjóta með rifflum o. fl. skotvopnum, vélbyssur og táragas hafi verið fengið handa henni og e. t. v. enn fleiri vopn. Aldrei hefur fjárveiting verið fengin til kaupa á slíku, og væri fróðlegt að vita, hvaðan fé til þess hefur komið, en það fæst ekki upplýst af einhverjum ástæðum. Ég álít það enga nauðsyn að vopna lögregluna þannig, því að almenningur er hér löghlýðinn, og þess vegna þurfi lögreglustjórinn ekki hernaðarlega menntun. Þá menntun heimta þeir aftur af honum, sem vilja, að lögreglan sé vopnuð, og er samkvæmni í þeim hugsunarhætti. Eina hættan á því, að lögreglan verði látin berjast við mannfjölda, er sú, ef stjórnarvöld eða atvinnurekendur landsins ætla að beita verkamenn svo miklu ofbeldi og hörku í vinnudeilum, að þá þyki þurfa að hafa vopnaðan her og beita honum. En þá er eftir að vita, hvort sú aðferð yrði þeim til þeirrar blessunar, sem ætlast er til.

Í samræmi við meginskoðun mína á hlutverki lögreglunnar greiði ég atkv. með hinni skrifl. brtt.