12.10.1943
Neðri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Herra forseti. Ég skal vera fáorður um þetta mál, enda hafa ekki komið fram aths. við það, sem ég hef sagt. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir þá till. til samkomulags, sem hún hefur lagt hér fram á þskj. 169, því að hún gengur í þá átt, sem ég hefði viljað, að þetta mál stefndi.

Ég vona því, að hv. d. fari ekki að fleyga þetta mál með því að samþ. brtt. hv. þm. N.-Ísf., enda sé ég ekki ástæðu til þess, þar sem ég sé ekki betur en kröfum þeirra, sem vilja hafa lögreglustj. með lagaprófi, og hinna, sem vilja taka tillit til annarra hæfileika mannsins, sé báðum fullnægt með till. allshn. Ég sé ekki betur en í brtt. hv. þm. N.-Ísf. gæti nokkurrar ósamkvæmni, þar sem í frv. segir, að lögin skuli öðlast gildi 1. jan. 1944, en í brtt. segir, að þá skuli núverandi lögreglustjóra hafa verið gefinn kostur á öðru starfi samkvæmt 3. mgr. 16. gr. stjskr. Ég býst við, að það verði erfitt að fullnægja báðum þessum skilyrðum. Ég þekki ekkert laust embætti fyrir núverandi lögreglustjóra, sem væri honum jafnvirðulegt og vel launað, og sé ég því ekki, að þetta sé framkvæmanlegt, nema ef hv. þm. N.-Ísf. vildi í snatri búa til eitthvert slíkt embætti. Ég veit heldur ekki til þess, að við höfum neinn lögfræðing, sem hefur aflað sér raunhæfrar þekkingar á stjórn lögreglumála, nema þá hv. þm. Str., sem áður hefur verið lögreglustj. og fór áður til útlanda til þess að búa sig undir embættið. En ég er ekkert viss um, að hann vilji nú taka við því aftur.

Það hafa að vísu tveir menn aðrir gegnt þessu embætti um stundarsakir, en ég veit ekki, hvort þeir kæra sig nokkuð um það heldur. Ég sé því ekki betur en till. hv. þm. N.-Ísf. sé óframkvæmanleg í bili. Ég lít einnig svo á eins og hv. 1. þm. Árn. og hv. 2. þm. S.-M., að ekki komi til mála að leysa þennan mann frá starfi, nema því aðeins, að hann vildi af frjálsum vilja fara í annað embætti, sem honum hæfði, en það væri ekki að hrekja hann úr embætti. Hann hefur fengið þetta embætti að réttum lögum og að mínu áliti gegnt því mjög sómasamlega, og því sé ég ekki ástæðu til, að þess sé nú krafizt, að hann víki úr því.

Ég þekki líka mörg dæmi þess, að það hefur verið bætt inn nýjum skilyrðum fyrir hæfileikum manna til embætta, en þau hafa aldrei verið látin ná til þeirra manna, sem hafa setið í embættinu fyrir. Það má t. d. taka læknana. Í gamla daga voru þeir útskrifaðir með einhverju prófi frá landlækni, en síðar hafa kröfurnar um þekkingu og starfshæfni þeirra margsinnis verið auknar, en þó hafa gömlu læknarnir aldrei verið látnir víkja úr embættum, þótt þeir fullnægðu ekki nýjustu kröfum.

Ég vil því eindregið vænta þess, að hv. deild geti fallizt á að samþ. till. allshn.