04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

27. mál, fjárlög 1944

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég er riðinn við nokkrar brtt. á þskj. 331. Flestar þessar brtt. flyt ég með samþm. mínum, hv. 2. þm. Eyf. (GÞ).

Fyrst er það III. brtt. á þessu þskj., sem er um nokkra hækkun á framlagi til tveggja vega, Hrísavegar í Svarfaðardal, úr 10 þús. kr. í 15 þús. kr., og til Laugalandsvegar í Inneyjafirði, úr 10 þús. kr. í 25 þús. kr. Þessi brtt. er borin fram sökum þess, að eins og allir sjá, verður nú næsta lítið gert fyrir 10 þús. kr., eins og verðlag og kaupgjald er nú. Við höfum farið fram á það við hv. fjvn., að hún tæki upp fjárveitingar til beggja þessara vega, og ætluðum að sætta okkur við 15 þús. kr. til hvors þeirra, en síðan það var, þá kom sérstök beiðni frá Saurbæjarhreppi í Eyjafjarðarsýslu til mín um að reyna að sjá til þess, að Laugalandsvegur yrði hækkaður upp í 25 þús. kr. Og það byggist á því, ef veittar verða 25 þús. kr. til þessa vegar á næsta ári, að þá er búizt við því, að nokkrir bæir geti haft gagn af þeirri framkvæmd, sem þá yrði gerð, en ef það er öllu lægri upphæð, þá verður ekki gagn að því, sem þá er unnið, fyrr en viðbót kemur á árinu þar á eftir. Vona ég því, að þetta verði tekið til greina.

Næsta brtt. okkar er undir VI. lið á þessu sama þskj., um 25 þús. kr. fjárveitingu til bryggjugerðar í Rauðuvík við Eyjafjörð. Ég þykist nú sjá fyrir, að ef á annað borð hv. frsm. fjvn. minnist á þessa málaleitun, þá muni verða bent á það, að það hafi verið veittur styrkur til sams konar framkvæmda í nágrenni þessa staðar. En þó að ég búist ekki við því, að margir hv. þm. muni nú það, þegar ég ræddi nokkuð um hafnarmál og lendingarmál þessa svæðis, Árskógsstrandar við Eyjafjörð, hér undir meðferð fjárl. í fyrra, þá leyfi ég mér nú samt sem áður að vísa til þess. Ég gerði þá fulla grein fyrir því, hvernig atvinnuhættir hefðu þróazt þarna, að útgerð og landbúnaður er rekið þar jöfnum höndum af sömu mönnum. Sú þróun hefur ekki orðið þar, að þeir hafi flutt saman í fjölmenn þorp, heldur er byggðin dreifð og útvegur er stundaður þarna einnig nokkuð dreift um þetta svæði. Og ég gerði í fyrra sömuleiðis grein fyrir því, hvílík röskun það mundi verða á atvinnulífi fólksins, sem þarna býr, ef þessu ætti að breyta og endilega að heimta það, að þeir, sem útgerð stunda, byggju í einu og sama þorpi. Vil ég ekki endurtaka það, sem ég sagði um þetta efni í fyrra. En það vil ég upplýsa, að á þessu svæði, Árskógsströnd við Eyjafjörð, er þessi staður, sem við þm. Eyf. förum fram á hér, að veitt verði nokkurt fé til bryggjugerðar á, sá staðurinn, sem langsamlega bezt höfn er frá náttúrunnar hendi. Ég vænti því, að þessi brtt. geti fengið góðar undirtektir, bæði hjá hv. fjvn. og þinginu í heild sinni.

Næsta brtt. okkar þingmanna Eyf. er undir X. lið á þessu sama þskj. og er um fjárveitingu til framræslu- og áveitufélags Svarfdæla, 20 þús. kr. Þetta félag er nýstofnað. Félagið hyggst að ræsa fram hinar víðlendu engjar í Svarfaðardal og gera þar fullkomnar áveitur. Félagið hefur sent hv. fjvn. erindi um þetta mál, en n. hefur ekki tekið upp till. viðvíkjandi þessu. Einn hv. fjvn.maður, sem á sæti hér fyrir aftan mig, skaut því fram í, meðan ég var að tala, að þetta ætti að fara eftir jarðræktarl., heyrðist mér. (PZ: Já, það er búið að hækka þann lið). Ég er nú ekki alveg viss um það, að svo sé, en ég býst þó við, að þetta, að hv. fjvn. hefur ekki sinnt þessari fjárbeiðni félagsins í Svarfaðardal, sé sökum þess, að n. telji, að heimild til þess að greiða þetta fé úr ríkissjóði sé í öðrum l. Ég vænti nú skýringa hv. fjvn. um þetta atriði, og að fengnum þeim skýringum kann að vera, að við flm. þessarar brtt. tökum hana aftur, a. m. k. til 3. umr. og e. t. v. fyrir fullt og allt.

Næsta brtt. okkar er undir XII. lið á sama þskj., og er um það að hækka eftirlaun sr. Stefáns Kristinssonar frá Völlum í Svarfaðardal um 1200 kr. á ári, eða um 100 kr. á mánuði, frá því, sem honum er nú ætlað að fá, þ. e. fram yfir lögmælt eftirlaun. Ég skal nú kannast við það, að þessi mæti klerkur hefur ekki gegnt prestsstörfum í 50 ár. En það hefur verið venja hæstv. Alþ. að gleðja júbílpresta með aukaeftirlaunum. En á hitt ber að líta, að hann hefur mjög lengi verið héraðsprófastur í Eyjafjarðarsýslu og alla tíð verið hinn merkasti klerkur, — það þori ég að fullyrða. Hann hefur verið þannig skapi farinn, að hann hefur ekki lagt áherzlu á að safna auði, og eftir því sem ég veit bezt, mun hann vera fátækur maður. Ég álít því, að það væri í alla staði eðlilegt af hinu háa Alþ. að veita þessum ágæta kennimanni nokkra viðurkenningu og samþ. þessa brtt.

Þá flytjum við brtt. um að bæta tveimur nýjum liðum við 22. gr. fjárl., heimildagr. Fyrri liðurinn er um það að heimila ríkisstj. fyrir hönd ríkissjóðs að kaupa síldarverksmiðjuna Ægi í Krossanesi, ef viðunandi samningar nást um kaupin, eða ef kaup verða ekki á verksmiðjunni, að taka hana á leigu. Ég vil leyfa mér að benda á það, að síðasta Alþ. gaf sams konar heimild eins og við förum nú fram á, að veitt verði. Ríkisstj. notaði þá heimild, sem síðasta Alþ. gaf, að því leyti að hún leigði verksmiðjuna s. l. sumar. Það eru alltaf uppi nýjar og nýjar kröfur um að reisa síldarverksmiðjur, sem eru sjálfsagt meira og minna réttmætar. En því skyldi þá ekki vera sjálfsagt að nota þær síldarverksmiðjur, sem til eru í landinu? Það var gerð grein fyrir þessu máli í fyrra, og ég ætla ekki að endurtaka nú neitt af því, sem þá var sagt til þess að rökstyðja till. um þá heimild, sem þá var veitt um þetta. Aðeins vil ég bæta því við, sem kannske einhverjir líta á sem aukaatriði í þessu máli, en er þó gaumur gefandi, að vegna síldarverksmiðjunnar í Krossanesi hefur vaxið upp allfjölmennt þorp, Glerárþorp, rétt við Akureyri. Og lífsafkoma fólksins, sem býr í Glerárþorpi, er ákaflega mikið undir því komin, að þessi verksmiðja starfi. Ég tel nú víst, að hæstv. Alþ. hafi ekki breytt um skoðun síðan í fyrra og endurnýi því þá heimild, sem þá var samþ. um það að heimila ríkisstj. annaðhvort að kaupa þessa verksmiðju eða þá að taka hana á leigu.

Þá er b-liðurinn um að greiða 35 þús. kr., þó ekki yfir helming kostnaðar, vegna vatnsleiðslu í Grímsey. Ég býst við, að hv. samþm. minn mæli með þessari till. sérstaklega, og fjölyrði því ekki um hana. Ég skal aðeins geta þess, að sérstök þáltill. um þetta mál var samþ. til síðari umr. og vísað til fjvn., en álit n. er ekki komið enn. Það kann að vera, að hv. fjvn. hafi á prjónunum einhverja till. í þessu máli, og býst ég við, að hv. samþm. minn muni lýsa yfir því, að till. verði tekin aftur til 3. umr. Þá kem ég að máli í sambandi við afgreiðslu fjárl., sem ég er einn flm. að, XIV. till. á sama þskj., um heimild til ríkisstj. til að verja nægilegu fé úr ríkissjóði til að reisa þingmannabústað. Það kann að virðast óþarfi að flytja þessa till. við 22. gr. fjárl., því að í þessu felst engin ný heimild, þar sem slík heimild er veitt í l. frá síðasta þ. um þingfararkaup alþm. Þessi till. er því frekar flutt til áminningar fyrir hæstv. ríkisstj. en beinlínis í þeim tilgangi, að hún út af fyrir sig breyti mjög miklu. Ég var að hugsa um að flytja till. um beina fjárveitingu í þessu skyni við einhverja af þeim gr. fjárl., sem fjalla um slíkar framkvæmdir. En bæði er það, að ég tel eðlilegast, að þessi till. komi frá ríkisstj. eða fjvn., og eins það, að ég verð að játa, að ég gat ekki gert mér grein fyrir, hvaða upphæð ég ætti að tiltaka, ef ég flytti till. um beina fjárveitingu í þessu skyni. Mér er ekki kunnugt um, að fyrir liggi nokkur áætlun um það, hvað slíkt hús mundi kosta. En mín skoðun er sú, að framkvæmd þessa máls megi ekki dragast lengur en orðið er, og þess vegna bar ég fram þessa till. til að minna á málið, ef vera kynni, að hún yrði til þess að þoka því áfram. Ég ætla ekki að rifja upp þetta mál um húsnæðisþörf þm., sem eiga heima utan Reykjavíkur. Menn kannast við, að ekki var hægt að komast af án opinberra afskipta. Þess vegna var fyrst samþ. þál. um að skora á ríkisstj. að sjá þm. fyrir húsnæði og svo nú á síðasta þ. l. um það, að utanbæjarþm. ættu rétt á því, að ríkisstj. sæi þeim fyrir húsnæði. Nú hefur hæstv. ríkisstj. framkvæmt þetta á þann hátt, að hún hefur komið utanbæjarþm. fyrir á Hótel Borg. Ég skal taka fram, að það er í alla staði gott að búa þar, og er ekkert að hótelinu að finna. En ég verð þó að telja, að það er óþarflega kostnaðarsöm aðferð að koma þm. þannig fyrir á dýrasta hóteli landsins. Þetta er líka að ýmsu leyti óhentugt, og ég tel, að ýmislegt ynnist með því, að þessir menn, sem eru utan af landi og þarf að ráðstafa á þennan hátt, gætu búið á einum og sama stað. Það er t. d. eftirtektarvert að bera saman afstöðu ríkisins í þessu efni gagnvart utanbæjarþm. og stúdentum. Þinghald hefur verið svo langt undanfarin ár, að ég hygg, að stúdentar utan af landi þurfi ekki að dveljast hér miklu lengur á hverju ári, en samt þótti ekki aðeins nauðsynlegt að reisa handa stúdentum eitt stórt hús, sem kostaði mörg hundruð þús. kr., heldur og annað í viðbót. Alþm., sem þurfa að dveljast hér hálft árið eða jafnvel tvo þriðju hluta ársins, hafa ekkert hús handa sér. Ég held, að það séu ekki heldur nein ósköp í þessu veltiári, sem nú er, þó að farið sé fram á, að reist sé hús, sem 10–15 menn geta dvalizt í um þingtímann. En eins og ég sagði áðan, get ég ekki gizkað á, hvað slíkt hús mundi kosta. Ég skal geta þess, að skýrt hefur verið frá því, að happdrættishús Hallgrímskirkju hafi kostað 130 þús. kr., og ég skil ekki, að hús, sem 10–15 þm. utan af landi gætu búið í þingtímann, þyrfti að kosta öllu meira. Ég skal þó játa, að þessi till. er meir borin fram til ábendingar en í þeim beina tilgangi, að hún verði samþ. óbreytt, og ef ég heyri nokkur orð um, að hv. n. muni taka þetta mál til athugunar milli umr. og ekki sé loku fyrir það skotið, að hún beri fram till. um beina fjárveitingu við 3. umr., þá mun ég fást til að taka þessa till. aftur.

Það væri freistandi að minnast hér á fleiri atriði, einkum út af þeim klofningi, sem orðið hefur í hv. fjvn., en þar sem nú er komið að þeim tíma, að fundi verði frestað, ætla ég að neita mér um það.